Þjóðskjalasafn Íslands

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 16:27:12 (5365)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:27]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði mig um kostnað. Kostnaðurinn er nokkurn veginn sá sem getið er um í fylgiskjalinu sem kemur frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en þar er gert ráð fyrir um 150 millj. kr. Þetta er allt saman útreiknað samkvæmt þeim hillumetrum sem upplýsingar eru um og við vitum að kostar að fara í.

Ég vil enn og aftur ítreka að ætlunin er að vinna þetta m.a. á landsbyggðinni og hef ég hug á að skoða t.d. Ísafjörð. Við vitum að Héraðsskjalasafnið þar hefði hugsanlega tækifæri og möguleika á því að taka við svona verkefnum.

En síðan er það hitt að ég bað um andsvar þar sem mér fannst í byrjun hv. þingmaður vera að feta inn á þá braut að hann ætlaði ekki að styðja þetta mál, teldi ekki nóg að gert og þar af leiðandi væri hann allt annarrar skoðunar en hér kæmi fram.

Ég tel mikilvægt og það verður seint of oft sagt að við eigum að upplýsa þjóðina um söguna alla. Það á allt að vera uppi á borðum. Í ljósi þess hafði ég það m.a. að leiðarljósi þegar ég úrskurðaði að Þjóðskjalasafnið ætti að opna skjalahirslur sínar og geymslur vegna þeirra mála sem komu inn á mitt borð. Ég taldi það eðlilegt.

Ég tel það ríka hagsmuni komandi kynslóða að við áttum okkur á hvernig sagan hefur verið og hvernig hún var skrifuð. Þá meina ég líka sagan öll. Þetta er liður í því. Ég get ekki að því gert að ég fæ það á tilfinninguna þegar ég hlusta á hv. þingmann að hann hafi ekki kunnað sérstaklega við þá niðurstöðu sem kom út úr þeirri nefnd. Hún er ekki skipuð neinum aukvisum, hún er skipuð mætum og merkum fræðimönnum og mætum og merkum embættismönnum sem komust að þeirri niðurstöðu, svo ég vitni í skýrsluna, en þar segir um viðkomandi tímabil, með leyfi forseta:

„Lögreglan átti frumkvæðið að hlerunum í apríl 1951 og 1968. Um annað er ókunnugt.“

Ég get (Forseti hringir.) ekki að því gert að tilfinningin er sú að niðurstaða þessa góða fólks, þessara mætu fræðimanna, hugnist ekki þingmanninum og (Forseti hringir.) þess vegna á að halda áfram með málið undir nokkurs konar dylgjum.