Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 21:31:44 (5420)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem ég vil koma nánar að í þessari umræðu og spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í. Við höfum lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þetta eru allítarleg lög sem nú eru í gildi um þetta og býsna víðtækar heimildir sem starfsmenn Verðlagsstofu hafa. Ég vil leyfa mér að vitna í lögin og lesa upp úr þeim. Þar stendur í 4. gr., með leyfi forseta:

„Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr.“ — þ.e. að afla ítarlegra gagna um fiskverð — „ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð. Þá er útgerð skips skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar.“

Svo kemur í 5. gr.:

„Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem Verðlagsstofa setur. Þá getur stofan krafið framangreinda aðila um að afhenda gögn til athugunar innan hæfilegs frests.“

Þá stendur einnig í næsta lið 5. gr.: „Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollayfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra.“

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, er hægt með þeim lögum sem nú eru í gildi að heimila það að fara og krefjast upplýsinga frá skattyfirvöldum, bönkum og öðrum aðilum um þessi gögn án undangengins dóms? Mér finnst þessi heimild með eindæmum og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hve oft hefur þessari grein verið beitt og í hvaða tilvikum? Leggur hæstv. ráðherra þann skilning í að starfsmenn Fiskistofu eða Verðlagsstofu geti labbað inn í banka og krafist upplýsinga úr bankareikningi viðkomandi aðila? Bara sisona af því að þeir séu að safna gögnum, eins og kveðið er á um í 3. gr. Mér er hreinlega spurn hvort þetta sé lagalega heimilt, hvort þessi lög séu ekki bara eitthvert lagalegt rugl.

Ég velti því líka fyrir mér og vil spyrja hæstv. ráðherra að því: Hver framfylgir brotum á þessum lögum? Lög eru til að halda þau en eins og hérna er verið að vísa til þá eru þau brotin. Ef útgerðir greiða ekki sjómönnum laun sín eins og samið er um þá hlýtur það að vera lögbrot. Það hlýtur að vera brot á þeim lögum sem hér er um að ræða og ekki bara þeim heldur öðrum lögum. Hverjir eru þeir sem framfylgja lögbrotum og rannsaka þau? Er það ekki lögreglan? Ég get hvergi séð í þessum lögum neinn handhafa þess að framfylgja þessum lögum. Menn tala um úrskurðarnefndir og menn tala um Verðlagsstofu en hún hefur ekkert lögregluvald. Ekki get ég séð það enda er það bara lögreglan sem hefur í raun lögregluvald. Og þegar verið er að tala um lögbrot eins og hér er verið að tala um og eigi að fara að girða við, þá hlýtur það að vera lögreglan sem framfylgir því og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um aðkomu lögreglunnar að slíkum málum þegar grunur er um lögbrot, þegar grunur er um að útgerðir greiði ekki sjómönnum umsamin laun, hýrudragi þá með því að láta þá taka þátt í kaupum eða leigu á kvóta og dragi þannig af laununum sem eru greinilega lögbrot. Hve oft hefur lögreglunni verið beitt í svona málum? Hve oft hefur lögreglunni verið beitt í meintum lögbrotum eða grun um lögbrot eins og hérna er verið að ýja að, því hvað er verið að segja annað í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra en það sé grunur um lögbrot?

Það stendur hér í texta hæstv. ráðherra, eins og ég hef áður vitnað í, að nokkur brögð muni þó vera að því að meira að segja útgerð hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð. Er það ekki lögbrot? Og hver hefur rannsakað það? Það hlýtur að vera lögreglan sem á að rannsaka það. Hæstv. ráðherra hristir haus en ég get ekki skilið lög og lögbrot öðruvísi en að brot á lögum varði við lög og það sé bara lögreglan ein sem getur rannsakað lögbrot, eða hvað finnst hæstv. forseta? Getur bara einhver verðlagsstofa vaðið inn á bankareikninga fólks og fyrirtækja án húsleitarheimildar eða farið ofan í skrifborðsskúffur útgerðarmanna eða annarra aðila án húsleitarheimildar?

Mér finnst þessi lagagjörningur allur með eindæmum þótt ég vilji eindregið styðja hæstv. ráðherra í að lagaramminn komi í veg fyrir að lögbrot séu framin í þessum málum, ég vil styðja hæstv. ráðherra í því, þá get ég ekki séð að þetta frumvarp hæstv. ráðherra breyti neinu um það að sé um meint lögbrot að ræða þá er það bara lögreglan sem ein getur rannsakað það í rauninni með þessum hætti sem hér er verið að tala um og dregið þá viðkomandi fyrir dóm sem brýtur lög eða hefur fé af fólki sem stundum er kallað þjófnaður. Og þjófnaður hlýtur að vera lögbrot og menn sóttir til saka samkvæmt lögum af lögreglunni.

Herra forseti. Þegar ég fer að skoða þessi lög meira og meira þá skil ég minna og minna í þeim og ég ítreka spurningu mína: Hve oft hefur lögreglunni verið beitt, hve oft hefur hún fengið það hlutverk að framfylgja þessum lögum eða saksóknari tekið málið að sér eða ríkislögreglustjóri og látið fara fram rannsóknir á svona málum? Því í frumvarpi hæstv. ráðherra er augljóslega verið að vitna til þess að staðfestur grunur sé fyrir því að þarna hafi verið framin ítrekuð lögbrot og það eru rök ráðherrans fyrir þessu frumvarpi.