Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007, kl. 16:20:44 (5531)


133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:20]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta nokkuð sérkennilegur málflutningur í ljósi þess að þingmaður vílar oft ekki fyrir sér í þessum þingsal að samþykkja hin ýmsu loforð hingað og þangað í nafni ríkissjóðs þegar kemur að afgreiðslu mála í þessum þingsal. Hann segir að þessi tillaga Samfylkingarinnar hafi komið of seint fram. Hún kom beinlínis fram á undan tillögum ríkisstjórnarinnar. Við tefldum fram okkar tillögum á undan tillögum ríkisstjórnarinnar vegna aðgerða til að lækka matarverðið. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og hafði næg tækifæri til að koma því áleiðis bæði innan síns þingflokks og innan þeirrar nefndar sem hann stýrir, af hverju hann beitti sér ekki fyrir því að stærri skref yrðu tekin en raun ber vitni. Hann hefur sjálfur lýst því enn og aftur að hann sé efnislega sammála okkur um að stærri skrefa sé þörf.

Svo langar mig að benda á það að hv. þingmaður vísar til næsta kjörtímabils um að þá verði þetta skref loksins tekið. Þessir ríkisstjórnarflokkar eru búnir að vera við völd í 12 ár, þeir eru búnir að hafa næg tækifæri til að ná sínu fram á þeim 12 árum og ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að það er alls óvíst hvort hann verði í næstu ríkisstjórn. Þá er hann einfaldlega búinn að glata tækifæri sínu til að lækka matarverð myndarlega eins og Samfylkingin vill gera.