Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 15:08:19 (5962)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mikil ræða hjá hv. þingmanni og stuttur tími til andsvara. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að það er lífsnauðsynlegt fyrir byggðirnar að styrkja þær með myndarlegum hætti og þessi samningur er að sjálfsögðu ein stærsta byggðaaðgerðin í krónum talið og ég tel að það þyrfti jafnvel að koma meira til en minna til að efla byggðirnar. Það er alveg á hreinu.

En það er alveg með ólíkindum hvernig hv. þingmaðurinn brást við umræðum hér um breytingar eða þróun á stuðningskerfi við bændur og dreifbýli og sú heimsendaspá sem þingmaðurinn hrasaði í þegar orðaðar voru einhverjar breytingar eða þróun á því kerfi, það var eiginlega með algjörum ólíkindum og þingmaðurinn hlýtur að hafa misskilið þetta allhressilega.

Ég vildi spyrja hann um títtnefnda útflutningsskyldu. Er ekki hæstv. landbúnaðarráðherra að gera alvarleg mistök með því að fella útflutningsskylduna algjörlega út og slá ekki þann varnagla sem hv. þingmaður gat hér um þannig að ráðherrann hefði heimild til að taka skylduna (Forseti hringir.) aftur upp ef út í offramleiðslu yrði komið innan einhverra missira?