Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 15:13:58 (5967)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:13]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er spurn: Hvað er það í fjárreiðulögunum sem bannar slíkt? Hvar kemur það fram? Ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurn stafkrók um það. Og hverjir eru það sem eru hér að ganga til atkvæða um samning, hverjir eru það? Það er Alþingi sjálft sem er að ganga til atkvæða um samning. Það er enginn að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi og hvað er Alþingi að gera alla daga, hvað er verið að gera hér? Þó að fjárlögin séu alltaf miðuð við almanaksár þá gerum við samninga t.d. við öryrkja, við sjúka o.s.frv. Eru þetta ekki samningar? Er einhver að gera athugasemdir við að þeir séu í uppnámi í hvert skipti sem skipt er um ríkisstjórn að við séum þar með að binda hendur næstkomandi ríkisstjórnar vegna þess að við sömdum við öryrkja? Nei. Þetta er hinn eðlilegi framgangsmáti, að Alþingi á hverjum tíma geri samninga og menn geta treyst því að þeir standi. Auðvitað hefur Alþingi framtíðarinnar alltaf (Forseti hringir.) vald til þess að breyta slíku.