Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 15:21:26 (5974)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður notar obbann af ræðu sinni til að ráðast gegn óframleiðslutengdum styrkjum. Samt er staðreyndin sú að hann hefur greitt atkvæði með sauðfjársamningum og er að fara að greiða atkvæði með sauðfjársamningi þar sem 40% af beingreiðslum eru óframleiðslutengdar. Þetta er þverstæða.

Mig langar síðan til að spyrja hv. þingmann af hverju hann talar um að hugsanlega innan nokkurra ára muni verð á afurðum innlendra bænda lækka um 40–60% vegna aukins innflutnings. Hvað er það sem hann telur að leiði til þess? Eru það samningar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hann heldur að valdi því?

Að síðustu langar mig til að spyrja hann um annað. Þeir útreikningar sem hann rakti hér annars vegar á því hvernig talin eru ýmis uppkaup í Evrópusambandinu og ýmiss konar styrkir og fjármögnun í Bandaríkjunum og hins vegar hér á landi. Er ástæðan fyrir því að farið er öðruvísi með þetta hér á landi sú að við höfum vonda samningamenn? Og hvort á hann þá við að það séu embættismenn landbúnaðarráðuneytisins eða utanríkisráðuneytisins sem hafa staðið sig svona illa?