Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 15:22:41 (5975)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:22]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru þeir ekki vondir samningamenn heldur það að Ísland er pínulítil þjóð, svo lítil þjóð að hún sést ekki nema í smásjá. Þess vegna höfum við ekki áhrif eins og eðlilegt er. Það liggur alveg fyrir og ég hef margsinnis haldið því fram í umræðunni að ég teldi þeim mun betur staðið að hlutum því hærra sem hlutfallið væri framleiðslutengt. Ég hef margsinnis sagt það, ég er þeirrar skoðunar enn og mun halda áfram að segja það.

Hins vegar er rétt sem menn skulu átta sig á að í samningum Evrópusambandsins við Norðurlöndin er heimildin sem miðuð er við norðurslóðina bundin við viðkomandi þjóðland, t.d. er Finnum og Svíum heimilt að styrkja sjálfir. Menn skulu átta sig vel á þessu því þetta er náttúrlega það sem um er að ræða. Við höfum þannig heimildina til þess ef við gengjum í þetta Evrópusamband sem ég held að sé ekki á dagskrá núna.