Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:59:36 (6086)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Frá því að við settumst saman á þing, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hefur hann verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér líkar ágætlega við Sigurjón Þórðarson og ég kann ágætlega við svona ákveðinn og ferskan blæ sem hann bar í þingið af samræðum alþýðufólks á vinnustöðum, í náttúrunni og á götunum. Ég hef vanist því að hlusta á Sigurjón og renna í gegnum kannski stundum svolitla móðu, komast að því hvað hann er í raun að meina og ég er yfirleitt sammála Sigurjóni. Ég er það að vísu ekki í þessum málum með innflytjendur og útlendinga þó kannski sé einhver lína okkar á milli sem við gætum fundist á.

Ég verð hins vegar að mótmæla því að það sé með einhverjum hætti hugmynd á vegum Samfylkingarinnar að hingað til Íslands flytji 3, 10 eða 150 milljónir manna sem nú er 300 þús. manna þjóð og hefur séð hann svartari því við höfum reyndar verið enn þá fámennari, við höfum á liðnum öldum jafnvel verið í 30–40 þús. Við skulum vona að Íslendingum haldi áfram að fjölga, þó hóflega. En það að halda því fram að einhver í Samfylkingunni eða einhver á vegum Samfylkingarinnar boði þetta fagnaðarerindi, 3–10 milljónir, er rangt.

Ég hef ekki lesið það sem Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, þar áður forseti viðskiptadeildar Háskóla Íslands, hefur sagt um þetta í sínum ritum. Vel má vera að hann hafi eitthvað minnst á þetta. Ágúst er hugmyndaríkur maður og hefur nýst okkur vissulega vel í Samfylkingunni svo sem samfélaginu öllu, en hann heldur engu svona fram á vegum flokksins og enginn í flokknum hefur tekið undir það svo ég viti.

Ég vil að þetta sé á hreinu og síðan má hv. þm. Sigurjón Þórðarson halda áfram að tala eins og honum sýnist.