Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 17:15:55 (6104)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:15]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til umræðu er frumvarp sem varðar Framkvæmdasjóð aldraðra þar sem lagt er til að þeir sem borga fjármagnstekjuskatt greiði gjöld í Framkvæmdasjóð aldraðra. Mig langaði að minna hv. þingmann á að þegar farið var að nota Framkvæmdasjóð aldraðra til annarra verkefna en uppbyggingar hjúkrunarheimila, þ.e. að einhverjum hluta til rekstrarverkefna, sem verður reyndar hætt núna á næsta ári, var Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra fyrir Alþýðuflokkinn. Hv. þingmaður er reyndar nýfarinn úr þeim flokki þannig að hann getur ekki algerlega þvegið hendur sínar af því að það var í tíð Alþýðuflokksins og (Gripið fram í.) Sighvatur Björgvinsson var heilbrigðisráðherra.

En varðandi Sjálfstæðisflokkinn og málefni aldraðra þá er Sjálfstæðisflokkurinn stoltur af því hvernig búið hefur verið að öldruðum, þeim áföngum sem við höfum náð á þessu kjörtímabili. Ég bendi m.a. á að hvergi í heiminum er hærra hlutfall hjúkrunarheimilisplássa en hér á Íslandi. Hins vegar er það þannig að skorturinn á hjúkrunarheimilisplássum er í Reykjavík og við hvern er að sakast? Hvar er ábyrgð sveitarfélaganna í þessum efnum? Það vill þannig til að það er R-listinn í Reykjavík sem stóð fyrir því að ekki varð fjölgun á hjúkrunarheimilisplássum í Reykjavík. Þeir gengu ekki fram til að sækjast eftir því að fleiri hjúkrunarheimili yrðu byggð. Þar stóðu önnur sveitarfélög út um allt land sig miklu betur. Ef hv. þingmaður vill skoða við hvern er að sakast skal hann horfa í eigin rann, fyrrverandi rann þó ekki sé annað, þegar hann studdi R-listann í Reykjavík.