Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 17:44:56 (6110)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:44]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér er á dagskrá tiltölulega einfalt og skiljanlegt frumvarp sem felur í sér að þeir sem borga fjármagnstekjuskatt skuli í framtíðinni borga sérstakan nefskatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þess að þeir sem borga fjármagnstekjuskatt hafa hingað til komist hjá því. Ummæli síðasta ræðumanns um fjármagnsskattinn almennt, sem t.d. rennur ekki til sveitarfélaga og þarfa þeirra, eru tímabær. Það er tilefni til að fjalla ítarlega um það fyrirkomulag. Ég tók þátt í því í heilbrigðisnefnd að vinna þetta mál til þingsins til afgreiðslu og samþykktar vegna þess að þetta er upplagt og eðlilegt mál.

Það sem rak mig hingað í ræðustól voru ummæli hv. þm. Ástu Möller sem var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, að því er virtist. Hún kvað upp úr með að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið sig vel í málefnum eldri borgara og var ekki annað að heyra, ég held að hún hafi sagt það orðrétt, en að við gætum öll verið mjög stolt af þeim áföngum og afrekum sem unnin hefðu verið á þessum vettvangi á undanförnum árum. Ég segi nú bara: Heyr á endemi. Ég gat ekki orða bundist vegna þessara yfirlýsinga hv. þingmanns.

Ég sótti aðalfund Félags eldri borgara þarsíðustu helgi. Þar var fullt hús af fólki, glæsilegum eldri borgurum. Þar var náttúrlega flutt skýrsla stjórnar og dreift ýmsum skjölum og upplýsingum. Það má segja að tekið hafi allan eftirmiðdaginn að rekja raunir þessa félags í samskiptum sínum við stjórnvöld, svo langur var sá listi af óleystum málum. Hið sama má segja um Landssamband eldri borgara. Hér var vitnað til þess áðan að það hefði gert samkomulag eða samning við ríkisstjórnina um breytingar til hagsbóta fyrir aldraða. Landssamband eldri borgara hefur margtekið fram að þetta hafi verið samkomulag eða stefnuyfirlýsing stjórnvalda sem Landssambandið neyddist til að skrifa undir, ella hefði ekkert verið gert í réttlætisátt fyrir þeirra hönd. Í framhaldinu hafa forustumenn Landssambands eldri borgara í marga mánuði skrifað greinar, komið fram í fjölmiðlum og látið þau orð falla að þetta hafi ekki verið nema hænuskref í átt að því að bæta hagsmuni þeirra.

Þegar fulltrúar annars stjórnarflokksins lýsa yfir stolti sínu yfir þeim áföngum og afrekum sem unnin hafi verið á þessum vettvangi held ég að það sé alveg nauðsynlegt að rifja upp hvernig ástandið er. Ég hef tiltölulega nýlega komist á þann aldur að teljast til eldri borgara og ellilífeyrisþega. Fyrir vikið hef ég gert mér far um að kynna mér þessi mál og ástandið gagnvart þeim hópi íslenskra borgara, íslenskra þegna.

Hvað kemur þá í ljós? Tryggingabætur til handa einhleypingi sem ekki hefur neinar tekjur geta mestar orðið 126 þús. kr. á sama tíma og Hagstofa Íslands reiknar út í neyslukönnun að lágmarksframfærsla sambærilegs einhleypings nemi yfir 200 þús. kr. Hagstofan hefur gefið það út á þrykki. Hér er um að ræða neyslukönnun sem hún leggur til viðmiðunar. Þarna er náttúrlega geigvænlegur munur á sem sýnir hvernig búið er að því fólki sem komið er að ævikvöldi. Í hvert skipti sem einstaklingur sem kominn er á þennan aldur aflar sér tekna úti á vinnumarkaðnum eru bætur hans skertar. Þær eru líka skertar vegna lífeyrisgreiðslna sem fólk hefur áunnið sér eftir áratuga starfsævi. Það veldur því að menn eru farnir að tala um ríkisvaldið sem stærsta lífeyrisþegann. Í hvert skipti sem einhver aflar sér tekna úti á markaðnum er dregið af honum í bótunum sem hann hefur átt rétt á og á að geta notið góðs af, þrátt fyrir að þiggja lífeyrissjóðsgreiðslur sem eru líka greiðslur sem hann hefur áunnið sér á langri starfsævi og viðkomandi hefur þar að auki verið lögskylt að safna.

Þá er enn að nefna þá ellilífeyrisþega sem eru svo „óheppnir“ að vera giftir maka á vinnumarkaðnum. Hann er tekjuskertur líka. Hver einasta króna sem kemur á heimilið með þeim hætti að hinn makinn vinni sér inn þá peninga veldur því að hann fær krónu minna úr almannatryggingunum.

Nú hælir ríkisstjórnin sér af því að hækka frítekjumarkið upp í 25 þús. kr. á mánuði. Það eru öll afrekin sem vísað var til áðan.

Skattleysismörkum er haldið niðri, eru nú 90 þús. kr. en ættu að vera a.m.k. 136 þús. kr., ef miðað væri við launavísitölu. Þessi lágu skattleysismörk bitna fyrst og fremst á því fólki sem hefur lágar tekjur og ellilífeyrisþegar og eldra fólk er að langstærstum hluta í þeim hópi.

Aðbúnaðurinn gagnvart eldra fólki er slíkur að um 400 manns á höfuðborgarsvæðinu eru á biðlistum eftir að að fá pláss á þjónustu- eða dvalarheimilum. Þetta fólk þarf hundruðum saman að búa við að flytjast í tvíbýli eða fjórbýli. Svona trakteringar eru til skammar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir koma stjórnarliðar í ræðustól og eru stoltir af því hvernig þeir hafa staðið að þessum málum.

Ég gæti haldið áfram upptalningu á kjörum og högum sem eldri borgurum eru búnir. Framkvæmdasjóður aldraðra er ein sorgarsaga og kannski snýr þetta mál helst að honum. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur af hálfu stjórnvalda verið notaður til annarra þarfa en þeirra sem hann var upphaflega settur á laggirnar til, þ.e. til að fjármagna byggingu þjónustu- og dvalarheimila. Í Reykjavík hefur t.d. ekkert verið byggt af slíku húsnæði í fleiri ár vegna þess að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur ekki lagt fram fé til þess þótt hann gegni því hlutverki samkvæmt lögum.

Ég vildi segja, herra forseti, að lokum, að eitt gott hefur þó komið út úr þessari umræðu. Það er yfirlýsing talsmanns Sjálfstæðisflokksins um að þetta ástand sé gott. Það sannar að þetta fólk, ef það kemst áfram til valda, mun ekkert betur gera vegna þess að það er ánægt með ástandið eins og það er. Það telur bara að þetta sé í fínu lagi og lýsir því yfir að unnin hafi verið afrek á þessum vettvangi. Með öðrum orðum er ekki hægt að búast við því að nein átök verði eða róttækar breytingar á því sem snýr að eldra fólki af því að menn eru sáttir við stöðuna eins og hún er í dag. Ég held að þetta sé ágæt aðvörun til kjósenda. Það er nauðsynlegt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri gagnvart íslensku þjóðinni og eldri borgurum, að Sjálfstæðisflokkurinn, og væntanlega hinn stjórnarflokkurinn líka, eru sallarólegir og ánægðir með það sem þeir hafa gert og sjá ekki ástæðu til að taka á í þessum málum. Ég er hins vegar sannfærður um að það þurfi að gera gagnvart þeim sívaxandi fjölda Íslendinga á efri árum sem þurfa aðstoð til að búa sér viðunandi ævikvöld.