133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef í tvígang ef ekki þrisvar reynt að svara þessum sömu framsóknarútúrsnúningum. Þegar hæstv. utanríkisráðherra og fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir kom með þetta hér svaraði ég því strax og fór yfir málið. Ég hef gert a.m.k. eina ef ekki tvær tilraunir til að ræða þetta mál efnislega og með rökum við hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson (Gripið fram í.) sem hefur hins vegar verið með öllu tilgangslaust. Hv. þingmaður virðist vera það sem kallað er rökheldur og þá er málið eiginlega úr mínum höndum. Ég fæ ekkert við því gert ef Framsóknarflokkurinn og þessi talsmaður hans vill umgangast hlutina og staðreyndir mála með þessum hætti.

Afstaða mín og míns flokks er skýr í þessu máli. Við viljum stöðva allar frekari stóriðjuframkvæmdir og þær stórvirkjanir sem þeim tengjast. Það gildir um stækkun álvers í Straumsvík og það gildir um virkjanir í neðri hluta Þjórsás. Þar til viðbótar bætist að andstaða heimamanna og umhverfisverndarfólks við þessar virkjanir er að harðna mjög þegar útfærsla þeirra liggur fyrir og það er orðið ljóst hversu miklu raski þær valda í nærumhverfinu. Við deilum þessum sjónarmiðum með heimamönnum og umhverfisverndarsinnum.

Virðulegur forseti. Það er brjóstumkennanlegt þegar flokkar sem ekkert hafa fram að færa frá eigin brjósti, enga stefnu til að tala fyrir, eyða tíma Alþingis dögum og vikum saman í að reyna að snúa út úr orðum annarra (Gripið fram í.) og umgangast hlutina með þessum hætti. Er nema von að aumingja Framsóknarflokkurinn tapi fylgi þegar málstaður hans og málafylgja er með þessum hætti og talsmennirnir ekki öflugri og burðugri í hans þágu en hér gefur að líta, frú forseti.