Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 14:31:01 (6348)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Það er nú ástæðulaust, virðulegi forseti, fyrir hæstv. ráðherra að vera svona úrillur og stúrinn þótt talað sé um aðgerðir til sporna við áhrifum af losun gróðurhúsalofttegunda.

Ríkisstjórnin er nýbúin að vera með stefnumörkun í loftslagsmálum. Það hvarflar nú að manni þegar hæstv. ráðherra tekur svona í að sömu ívilnanir verði gerðar gagnvart þeim sparneytnu bifreiðum sem allir landsmenn geta notað sér að hér sé um sýndarmennsku að ræða, að það sé sýndarmennska í ríkisstjórninni að vera með yfirlýsingar um vilja til að grípa til aðgerða vegna áhrifa og hlýnunar vegna gróðurhúsalofttegunda og það eina sem ríkisstjórnin vill síðan gera í málinu er að taka vörugjaldið af bifreiðum sem nýta metangas, sem er góðra gjalda vert. En það eru örfáar bifreiðar.

Það geta fáir landsmenn nýtt sér þetta vegna þess að það er aðeins ein orkustöð og hún er hér á höfuðborgarsvæðinu. Tvinnbílana geta allir nýtt sér og þeir skila mestu. Af því að hæstv. ráðherra var að gera lítið úr sérfræðingum sem höfðu talað á Norðurlandaráðsþingi þá er hér um að ræða Færeyinginn Boga Hansen sem er mjög virtur sérfræðingur og hefur mikla þekkingu á aðstæðum á Íslandi. Hann hefur komið hingað nokkrum sinnum og talað um þessi mál.

Hann hvetur okkur til að grípa til þessara ráðstafana, að lækka gjöld á tvinnbílum til þess að koma til móts við þær kröfur sem er verið að gera um minnkun útblásturs vegna bifreiða. Og við gætum náð verulegum árangri ef við mundum fjölga þannig bifreiðum sem nýta bæði rafmagn og hefðbundið bensín en menga helmingi minna en venjulegur fjölskyldubíll gerir í dag.