Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 16:27:37 (6367)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[16:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér ræðum við jákvætt mál, þ.e. um að fella niður vörugjöld af ökutækjum sem nota vistvænt eldsneyti. Ég ætla að taka undir að það er jákvætt í sjálfu sér. En við í Frjálslynda flokknum hefðum náttúrlega viljað að þetta væri metnaðarfyllra og niðurfelling vörugjalda næði til fleiri vistvænna ökutækja en eingöngu þeirra sem nota metan.

Hér hafa verið fluttar margar ágætar ræður. Ég hlýddi á einn stjórnarliða lýsa því að Ísland væri í fararbroddi í umhverfismálum. En ef maður lítur yfir staðreyndir málsins og þróun notkunar á olíu, jarðefnaeldsneyti eins og það heitir á fínu máli, þá kemur í ljós að við höfum ekki dregið úr notkuninni á síðustu árum. Það er langt frá því, öfugt við það sem mætti ætla af ræðum ýmissa stjórnarliða.

Ég komst yfir ágæta skýrslu sem var gefin út fyrr á þessu ári um stefnu í eldsneytismálum einkabifreiða. Þar eru tillögur um aðgerðir stjórnvalda frá stýrihópi vettvangs um vistvænt eldsneyti. Þetta er góð skýrsla. Þar kemur fram að Íslendingar hafa nálægt tvöfaldað notkun sína á olíu á bifreiðar og tæki. Það er því af og frá að við séum að þróast inn í meiri háttar vistvænt samfélag. Það er ekki rétt. Miðað við þá stefnu sem verið hefur á síðustu tveimur áratugum væri forgangsverkefni okkar að koma veg fyrir aukninguna.

En það skiptir máli þegar við fjöllum um svo mikilsverðan málaflokk sem umhverfismálin eru er að líta á umhverfismálin sem tækifæri, tækifæri til að gera betur og hafa í huga að til að ná árangri í umhverfismálum þarf ekki eingöngu bönn og mótmæli. Það getur einnig þýtt gróða. Ef menn ná árangri í umhverfismálum þá fylgir því oft að það er vegna þess að menn hafa farið betur með verðmæti. Menn fara betur með hráefni, nýta olíu og annað mun betur en áður. Menn eiga kannski líka að líta á að velheppnaðar aðgerðir í umhverfismálum fela jafnvel í sér ágóða og gróða fyrir þá sem ná árangri.

Góðum árangri í umhverfismálum fylgir oft hagnaður fyrir fyrirtækið. Vinnuumhverfi verður jafnframt þægilegra og betra. Ég vil nefna t.d. málningariðnaðinn. Menn hafa tekið úr umferð ýmis efni sem hafa verið skaðleg heilsunni. Þegar upp er staðið hafa allir hagnast á því. Menn hafa tekið í notkun vistvænni efni sem valda ekki skaða þeim sem með þau vinna.

En þegar menn velta fyrir sér þeim hugtökum sem eru í umræðunni, sjálfbærri þróun, vistvænt, að oft eru þessi hugtök á reiki, hvað nákvæmlega er átt við, að ég tali nú ekki um Staðardagskrá 21. Stundum er erfitt að átta sig á því hvað átt er við þegar farið er með þessi hugtök. Menn slá um sig með frösum og síðan þegar til kastanna kemur stendur ekki mikið eftir.

Lítum t.d. á hvað telst vistvænt. Skoðum t.d. hvað sparar útblástur, t.d. á koltvísýringi og hvað sparar olíu. Það er að stytta leiðir. Það gæti t.d. verið mjög vistvænt út frá því sjónarmiði að fara með veg yfir miðhálendið og stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar, ef menn horfa eingöngu á þann þáttinn. En ýmsir sem kenna sig við að vera grænir í hugsun og vistvænir mundu alls ekki skrifa undir að það væri vistvæn leið þótt hún sé vistvæn út frá því sjónarmiði að hún sparar mögulega orku og örugglega útblástur sem er grunaður um að valda hærra hitastigi á jörðinni.

En fleira má nefna. Ég er ekki viss um að ýmsir sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun mundu telja það vistvæna orku ef þeir mundu stinga tvinnbílnum sínum í samband á Austurlandi og taka orku úr Kárahnjúkum, að þeir væru þá að nýta vistvæna orku með því. Ég er ekki sannfærður um að þeir væru tilbúnir að skrifa undir það að virkjunin við Kárahnjúka sé vistvæn. En vissulega er hún vistvæn út frá því sjónarmiði að menn spara með þeirri orku olíu og mögulega losun á koltvísýringi.

En ég vil ítreka að ef við ætlum að ná árangri í þessum málaflokki þá þarf að ræða um krónur og aura og beita einmitt hagrænum aðgerðum eins og þetta frumvarp felur að einhverju leyti í sér, að fella niður vörugjöld á þeim farartækjum sem nota metan, sem er vistvænna heldur en að nota olíu og bensín.

Það er vert að ræða ýmislegt í þessu sambandi. Mér finnst, þegar við ræðum um umhverfismál að frasarnir geti þvælst fyrir málaflokknum og ekki bara frasar heldur einnig markmið sem eru í raun það háleit að ég er ekki viss um að nokkur maður ætli sér í raun að ná þeim. Ég á m.a. við markmið ríkisstjórnarinnar um að draga út útblæstri á koltvísýringi fyrir árið 2050 svo hlaupi á tugum prósenta. Það er einfaldlega ekki raunhæft út frá þróuninni og hvaða aðgerðir þarf að fara í til að ná þeim markmiðum. Það er varasamt að setja óraunhæf markmið. Það getur einfaldlega leitt til þess að þeim sem eiga að ná þessum markmiðum falli allur ketill í eld og ekkert verði úr neinu.

Í greinargerð frumvarpsins er ef ég man rétt tekið fram að samþykkja eigi áætlun fyrir árið 2008 til að taka myndarlega á þessum málaflokki og vinna að heildarstefnu. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt vegna þess að hér er um nokkuð flókið verkefni að ræða sem þarf að gaumgæfa. Menn hafa rætt um olíugjaldið og við sem höfum starfað á Alþingi síðustu árin vitum að allar breytingar eru gríðarlega flóknar hvað það varðar að hreyfa við sköttum og gjöldum í þessum málaflokki.

Ég vil að lokum minna á að það er gríðarlega mikilvægt að líta á umhverfismálin með jákvæðum hætti. Við lítum á umhverfismálin sem tækifæri til þess að gera betur fremur en kostnað eða hindrun fyrir því að ná markmiðum okkar. Þau eru miklu fremur ákveðin leið til að ná betri árangri, spara hráefni. Það má jafnvel hagnast á þeim. Ég held að það sé mjög mikilvægt til að ná árangri á þessu sviði, það sé ákveðin beita fyrir fólk, að ef það fari vel með umhverfið þá fái það einhverjar krónur aukalega í vasann.