Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 22:50:36 (6547)


133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[22:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál sem lýtur að úthlutun sérstakra aflaheimilda er nema allt að 12 þúsund lestum af óslægðum þorski til byggðaaðgerða er í sjálfu sér góð viðleitni innan þessa rangláta kerfis og minnir okkur enn á hversu kvótakerfið og það kerfi sem lýtur að framsali kvóta er hættulegt einstökum strandbyggðum og sýnir hvers konar órétti það kerfi beitir íbúana í strandhéruðunum sem hafa lagt sitt af mörkum til að skapa úr þessari auðlind verðgildi fyrir íbúana í sjávarþorpunum. En við þurfum nú að reyna að setja einhvern lepp eða bætur á það kerfi með reglum um úthlutun úr sérstökum byggðakvóta til þeirra byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar á fiskveiðiheimildum.

Eitt það mikilvægasta fyrir hverja grein, ekki síst sjávarútveginn eins og allar aðrar greinar, er nýliðunin, að greiðar leiðir séu fyrir nýja aðila til að komast inn í greinina, unga sjómenn sem vilja komast inn í greinina og fá að spreyta sig þar og efla atvinnu sína.

Ég vil spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar: Hvernig víkur þessu við, þeim reglum sem hér eru settar, gagnvart möguleikum fyrir nýja aðila að koma inn í greinina? Þetta eru sjálfsagt þeir einu möguleikar sem nú eru hugsanlegir fyrir nýja aðila til að koma inn. (Forseti hringir.) En hvernig víkur því við?