Almenn hegningarlög

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 12:27:32 (6598)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[12:27]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil draga fram nokkur önnur atriði í seinni ræðu minni og ítreka stuðning minn við frumvarpið eins og ég gerði í fyrri ræðu minni í morgun og við málið sjálft þegar það var til 1. umr. fyrir nokkrum vikum.

Eins og fólk áttar sig á þá er hér verið að gera tímabærar breytingar sem auka refsivernd tiltekinna stétta hér á landi. Ég minntist sérstaklega á lögreglumenn og tollverði áðan. En það er ástæða til að draga það fram að frumvarpið tekur einnig til fangavarða sem líka búa við lakari refsivernd en sú stétt á skilið. Mér finnst ástæða til að draga það sérstaklega fram og setja það jafnvel í samhengi við þá stöðu sem nú er uppi í fangelsismálum þjóðarinnar. Fangaverðir standa nú í kjarabaráttu sem ástæða er til að huga að. Það er ábyrgðarhluti að leyfa ástandinu að þróast með þeim hætti að fangaverðir telji sig knúna til að ná fram eðlilegum kröfum á þann hátt sem blasir við. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að halda hér uppi frambærilegri, nútímalegri og skilvirkri fangelsisþjónustu þurfum við að gera vel við fangaverði. Sú stétt starfar við mjög erfiðar aðstæður eins og lögreglumenn og tollverðir og starfsmenn Landhelgisgæslunnar, en þetta mál nær að sjálfsögðu til þeirra, þeirra sem fara með lögregluvald eða heimild til líkamlegrar valdbeitingar. En það er ástæða til að draga fangaverðina sérstaklega fram þar sem fangelsismálin eru öll í umræðunni, ekki bara kjarabarátta fangavarða. Ég vil úr þessum ræðustól varpa fram þeirri hvatningu að þau mál verði leyst sem fyrst. Það gengur ekki að horfa hlutlaus á það ástand sem þar er að þróast. Ég ákalla stjórnvöld til að bregðast við með einhverjum hætti hvað þetta varðar. Við þurfum að borga þessari stétt mannsæmandi laun. Hún þarf að fá eðlilegt endurgjald fyrir sína ómetanlegu vinnu. Fáir geta ímyndað sér hvernig það er að starfa innan fangelsismúranna eins og fangaverðir gera. Þeir lenda í alls konar aðstæðum sem fólk á eflaust erfitt með að átta sig á.

Staða fangavarða tengist stöðunni líka almennt í fangelsismálum. Í áratugi hefur verið barist fyrir nýju fangelsi og ekki hefur legið á okkur í Samfylkingunni að tala fyrir nauðsyn þess að svo sannarlega þarf að taka til hendinni hvað það varðar. Við þurfum að bæta fangelsisaðstöðu hér á landi. Sú staða kom upp, að mig minnir síðasta sumar, að fangelsi landsins bókstaflega fylltust. Það er ótækt hjá sjöttu ríkustu þjóð í heimi. Tölur sem ég fékk frá upplýsingaþjónustu Alþingis í sumar sýndu að við verjum minni fjármunum í fangelsismálaflokkinn en aðrar Norðurlandaþjóðir. Það er líka ákveðin áminning um að við þurfum að gera betur í þessum málaflokki. Við þurfum að bæta kjör fangavarða. Við þurfum að hefja uppbyggingu á fangelsum sem fyrst. Við þurfum að huga að innri málefnum fangelsisins, eins og við höfum oft bent á. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur ekki síst verið í fararbroddi þess að bæta meðferðarúrræði innan fangelsa og bæta þau úrræði sem þurfa að vera fyrir hendi innan fangelsa svo að þeir sem fara í fangelsi komi ekki út verri menn eftir að afplánun lýkur. Alltaf þarf að haldast í hendur að kjör fangavarða þurfa að vera í lagi, að við þurfum að fá gott fólk til starfa þar, að þetta þarf að vera spennandi starfskostur með sanngjörnum launum, að við þurfum almennilega aðstöðu hvað varðar byggingarnar, bæði aðstöðu fyrir fanga og fangaverði og fyrir fjölskyldur fanga því ekki á að refsa fjölskyldu fanganna. Þetta þarf allt að vera í lagi. Ég tel að við getum gert það svo sé pólitískur vilji fyrir því.

Ítrekað hefur komið fram hjá öllum að menn vilja byggja nýtt fangelsi. En enn hafa ekki fengist nauðsynlegar fjárveitingar. Ég veit að ráðist hefur verið í ákveðnar endurbætur á þeim fangelsum sem fyrir eru og þau skref sem stigin hafa verið eru að sjálfsögðu jákvæð. Við fögnum þeim. En við þurfum að stíga stærri skref og leysa þessi mál í eitt skipti fyrir öll. Það er nú ein af grunnforsendunum fyrir ríkisvaldinu að hafa öfluga löggæslu og hluti af þeirri löggæslu er að hafa almennilega fangelsisþjónustu. Því miður stöndum við okkur ekki alveg nógu vel hvað það varðar þó að mörg jákvæð skref hafi verið stigin.

Ég vildi í seinni ræðu minni draga þetta sérstaklega fram og nota tækifærið, fyrst við erum að ræða þessi mál, til að beina sjónum manna að baráttu fangavarða þessa dagana. Ég ítreka hvatningu mína til þeirra sem þar ráða að nauðsynlegt er að ná saman og leysa þann vanda svo að allir geti borið höfuðið hátt eftir þær samningaviðræður.