Samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 20:04:44 (6858)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:04]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur innleitt alveg nýtt fyrirbæri í samgöngumálin á Íslandi, einhvers konar kengúrusúlurit. Þetta fyrirbæri hagar sér þannig að á kosningaárum tekur súlan mikið stökk upp á við en síðan hrapar hún niður strax árið eftir. Núna við þessi tímamót á þessu kosningavori sjáum við þriðja stökkið hjá kengúrunni. Súlan hefur tekið mikið stökk upp á við og ef hæstv. ráðherra fær að ráða áfram mega landsmenn búast við því að kengúran hrapi til jarðar á næstu þremur árum.

Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti, að það sé mismunandi þörf fyrir samgöngubætur á Íslandi, að þær séu alltaf langmestar á kosningaárum. Hins vegar er alveg gífurlega mikil þörf á samgöngubótum á Íslandi. Heildarakstur á þjóðvegum hefur aukist um 100% á 15 árum. Fjármagn til viðhalds vega hefur verið nær hið sama síðustu tíu árin og fyrir vikið eru þjóðvegir landsins meira og minna ónýtir. Sums staðar er það reyndar þannig að á heilum landsvæðum, eins og t.d. Vestfjörðum og norðausturhorninu, að þar eru landsmenn ekki komnir í nútímann enn þá. Þegar hæstv. samgönguráðherra talar um hinar miklu samgöngubætur á Íslandi hlýtur hann eiginlega að fara allt aftur á söguöld til að ná sér í samanburð. Það er auðvitað hægt að gera alla hluti góða í samanburði ef maður fer nógu langt aftur í tímann og leitar sér að nógu slæmum samanburði.

Hinni miklu umferðaraukningu sem ég var að segja frá áðan fylgja auðvitað auknar tekjur í ríkissjóð. Á síðasta kjörtímabili, síðustu fjórum árum hafa tekjur ríkissjóðs af umferð vaxið á milli 40 og 50% en á sama tíma hafa framlög til vegamála verið dregin saman um 22%, enda hefur núverandi ríkisstjórn skorið niður framlög til vegamála til samgöngubóta um 6 milljarða á því kjörtímabili sem nú er að líða. Fyrir utan þetta sem ég er að rekja hefur hæstv. samgönguráðherra notað samgönguáætlun sem refsitæki á höfuðborgarbúa vegna þess að þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn af höndum sér fyrir 12 árum. Slysuðust til að kjósa þá yfir sig aftur síðast, en við skulum sjá hvernig það verður næst.

Vegna þess að landinu hefur verið illa stjórnað og mikill fólksflaumur verið til Reykjavíkur af landsvæðum sem halda sig illa er fyrir vikið komið mikið ófremdarástand í samgöngumálum í höfuðborginni. Þrjú svæði á landinu eru langverst stödd í samgöngumálum, höfuðborgarsvæðið og tengingarnar út frá því, Vestfirðir og Norðurland eystra eða norðausturhorn landsins. Á þessum tveimur síðarnefndu svæðum er það þannig að fólkið er enn þá að keyra á malarvegum. Það keyrir á stórhættulegum vegarköflum þar sem það má búast við grjóthruni ofan á sig, snjóflóðum og ég veit ekki hverju. Þær aðstæður sem fólkinu er gert að búa við gera það að verkum að landsvæðin eru ekki samkeppnishæf. Þetta er mikill ábyrgðarhluti hjá einni ríkisstjórn að standa svona að verki ekki eitt kjörtímabil, ekki tvö, heldur þrjú kjörtímabil í röð. Sömu landsvæðunum er því látið blæða æ ofan í æ.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til þess að skipta um ríkisstjórn og það er svo sannarlega kominn tími til þess að skipta um samgönguráðherra.