Fjárlög 2007

Fimmtudaginn 05. október 2006, kl. 15:14:42 (132)


133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá hér stjórnarþingmann sem viðurkennir að einhver vandi sé, sem er ójafnvægið í viðskiptum við útlönd. En, virðulegur þingmaður, vandamálið er ójafnvægið í lífskjörum heimilanna í landinu sem þurfa að bera fórnarkostnaðinn af því hversu óhönduglega er staðið að efnahagsstjórninni, með því að borga verðtryggingar- og vaxtareikningana af skuldbindingum sínum. Það er það ójafnvægi sem við þurfum að hafa áhyggjur af og ræða hér.

Ástæðuna fyrir því að ég kalla frumvarpið skáldskap, hana veit hv. þingmaður ágætlega vel. Ég fór hér fyrir ári yfir þjóðhagsspána sem þá lá fyrir og þau frávik sem vænta mætti í henni. Það gekk eftir. Þensla var hér stórlega vanmetin þá. Ég hygg að þær forsendur sem nú liggja til grundvallar séu með svipuðum hætti gagnrýnisverðar.

Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af því að tekjur ríkissjóðs geti dregist hraðar saman í samdrættinum en ráð er fyrir gert, á sama hátt og þær hafa tilhneigingu til að aukast hraðar þegar uppsveiflan er.

Þá höfum við ekki séð matarskattinn í þessum tillögum og ég hlýt nú að inna hv. þingmann eftir því hvað hann muni kosta. Við höfum reynt að píska stjórnarliðið til að lækka hann á hverju einasta ári og hv. þingmaður hefur fellt það með eigin hendi ár eftir ár. Ég treysti því að hann muni samþykkja það nú.

Við höfum ekki fengið fram útgjöldin vegna varnarmálanna og við erum vön því að fjárlögunum skeiki um 20 til 30 milljarða á ári og annar hver liður fjárlaganna fari út fyrir heimildir. Er það nema von, virðulegur þingmaður, að maður kalli slíka kosningabæklinga skáldskap?