Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 09. október 2006, kl. 17:31:48 (257)


133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð tillaga sem hér er flutt til þingsályktunar af hv. þingmanni. Ég hef stutt hana nokkrum sinnum úr ræðustóli á hinu háa Alþingi í umræðum. Það er góðra gjalda vert og þakkarvert að hún skuli flutt hér aftur og mun ég koma að því síðar.

Það er annað mál sem tengist þessu með beinum hætti, um ný friðlandsmörk í Þjórsárverum þannig að verndunin nái tilgangi sínum. Ég tek eindregið undir það að færa friðlandsmörkin út en ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns hvort komið hafi til umræðu að bæta því jafnvel við þá tillögu að skoðuð verði fyrirhuguð rennslisvirkjanaröð í neðri hluta Þjórsár sem nú stendur til að framkvæma og hafnar eru einhverjar frumathuganir á hvernig staðsettar verði og ráðgert að renni í gegnum Gnúpverja- og Ásahrepp sitt á hvað þannig að hreppurinn breytist að hluta til í eitt stórt uppistöðulón. Það beinir sjónum okkar, sem viljum vernda náttúruperlur eins og Þjórsárverin, að mikilvægi þess að gæta einnig að náttúruvernd, náttúrunýtingu og náttúruperlum í byggð, eins og t.d. í neðri hluta Þjórsár sem segja má að sé framhald af þeirri virkjanaröð þar sem Norðlingaölduveita, sem hér var lagt upp með, væri efst og síðan virkjanaröðin niður eftir sem ná mundi niður ána alla. Tekur hv. þingmaður ekki undir þau sjónarmið og mikilvægi þess að sú umræða hefjist í framhaldi af og meðfram baráttunni um stækkun friðlands í Þjórsárverum að gæta verði þess og jafnvel koma í veg fyrir fyrirhugaða virkjanaröð í neðri hluta Þjórsár, rennslisvirkjanaröð sem rætt hefur verið um á mjög sakleysislegum forsendum en blasir við að mun valda miklum náttúruspjöllum?