Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 09. október 2006, kl. 17:33:55 (258)


133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:33]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður bendir réttilega á að virkjanirnar í neðri Þjórsá hafi verið settar í ferli, umhverfismatsferli, á þeim tíma sem andstaðan við þær var kannski afar lítil. Náttúruverndarsinnar einbeittu sér á þeim tíma að miklu stærri áformum, þ.e. fyrst áformum um Fljótsdalsvirkjun og síðan Kárahnjúkavirkjun. Rennslisvirkjanirnar, sem hann kallar svo, í neðri Þjórsá hafi því farið í gegnum allt þetta ferli án þess nokkur hafi í sjálfu sér mótmælt því.

Hins vegar, eftir því sem manni skilst á landslaginu núna og eftir því sem manni virðast vindarnir vera að snúast, bæði hjá stjórnmálaflokkunum og meðal almennings, má auðvitað gera ráð fyrir, ef Landsvirkjun setur þessar virkjanir á framkvæmdastig, að þeim verði mótmælt. Ég veit að fyrir flokkinn sem sú sem hér stendur talar fyrir, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, skiptir mestu máli til hvers orkunnar er aflað. Og hvers vegna er verið að tala um að afla orku í neðri Þjórsá? Jú, það er til að stækka álverið í Straumsvík. Erum við sátt við að stækka álverið í Straumsvík og leggja Ásahrepp eða Skeiða- og Gnúpverjahrepp að mestu leyti undir uppistöðulón? Því þótt sagt sé að þetta séu rennslisvirkjanir fylgja þeim lón og verulegar náttúruskemmdir. Þetta mundi breyta ásjónu Þjórsárdalsins svo um munar.

Ég held að ekki sé sopið kálið þó í ausuna sé komið hjá framkvæmdaraðilum hvað þetta varðar. Virkjanirnar í neðri Þjórsá eiga örugglega eftir að mæta mikilli andstöðu ef þær verða settar á framkvæmdaplan.