Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 09. október 2006, kl. 17:51:42 (263)


133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð frá mér um það þingmál sem hér liggur fyrir, um ályktun um að stækka Þjórsárverin og vernda þau í heild sinni, þar sem ég er einn af flutningsmönnum þess.

Tillaga um þetta efni var flutt á flokksþingi framsóknarmanna á síðasta ári, árið 2005, og var það til umræðu í nefnd í þinginu og var ekki útrætt. Ég geri ráð fyrir því að málið verði rætt áfram á flokksþinginu sem fram verður haldið í febrúar á næsta ári. Ég geri mér vonir um að fá jákvæða afgreiðslu á tillögunni sem lögð var fram á síðasta ári og ég flutti ásamt fyrrverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni.

Síðan málið var flutt hjá okkur á síðasta ári hefur margt breyst, eins og komið hefur fram hér í umræðunni. Veruleg viðhorfsbreyting hefur orðið í þjóðfélaginu og ég vil sérstaklega geta þess að nýr umhverfisráðherra, hv. ráðherra Jónína Bjartmarz, hefur lýst yfir stuðningi við meginefni þessa máls um að stækka friðlandið og vernda það. Hún hefur sett vinnu í gang með heimamönnum um að vinna að tillögugerð um stækkun friðlandsins og endurskoða skilmálana á því.

Innan Framsóknarflokksins er því veruleg hreyfing til stuðnings við þetta mál. Ég vildi, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að greina frá því og lýsa því jafnframt yfir að ég fagna þeim mikla stuðningi sem málið hefur hlotið. Ég vænti þess að þetta þing geti afgreitt málið með farsælum hætti.