Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 09. október 2006, kl. 18:09:12 (272)


133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því nú að það er koma fram víðtækur stuðningur við þessa tillögu og að líta megi svo á að við náum því fram á þessu þingi að friðlýsa Þjórsárverin, þetta mikla, stóra og gróðurríkasta votlendi á hálendi Íslands.

Það er vissulega ánægjulegt að fulltrúar Framsóknarflokksins skuli hafa bæst í hópinn og styðji það að útfæra mörk friðlandsins þannig að sem mest af gróðurlendi Þjórsárvera verði innan þess. Þá er væntanlega í augsýn niðurstaða um að hér á Alþingi náist sátt um hvernig Þjórsárver verði vernduð til framtíðar og það eru mikil tímamót í umræðunni.

Við í Frjálslynda flokknum styðjum þessa tillögu eins og komið hefur fram. Við teljum að hér sé hreyft afar þörfu máli og fögnum því að við það sé víðtækur stuðningur og nokkuð öruggt að það gangi eftir á þessu þingi, að það verði samþykkt til endanlegrar afgreiðslu með það að markmiði að deilum um Þjórsárver ljúki og þau verði vernduð fyrir íslenska þjóð til allrar framtíðar.