Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 09. október 2006, kl. 18:13:42 (274)


133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Einhvern veginn fór það fram hjá mér, þegar hv. þm. Mörður Árnason var í ræðustól áðan í andsvari, að hann bæri upp beina spurningu til mín. Mér heyrðist hv. þm. Mörður Árnason segja að þess mætti vænta eða hann gerði ráð fyrir því, hv. þingmaður, að ég tæki afstöðu með þingmáli sem lýtur að því að afturkalla þetta leyfi. Mér fannst það í raun ekki svaravert og ekki kalla á neitt svar, heldur vera einhverjar hugmyndir sem hv. þingmaður hefði.

Nú er það svo að skipaður hefur verið starfshópur til að fara yfir þessi mál um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ég geri ráð fyrir því að innan nokkuð skamms tíma, kannski einhverra vikna, liggi afstaðan, hugmyndir og tillögur, fyrir frá þeim starfshópi. Ef niðurstaðan verður sú að friðlandið skuli stækkað þá er eðlilegt að gera ráð fyrir því í framhaldinu að í friðlýsinguna verði ráðist. Þá segir það sig sjálft að þetta mál, þetta ágæta þingmál sem hér er til umræðu, kemur ekki nauðsynlega til atkvæðagreiðslu í þinginu né heldur sú tillaga um breytingu á raforkulögum sem hv. þingmaður hafði orð á.

Það segir sig sjálft. Afstaða mín til stækkunar friðlandsins bíður ekki eftir atkvæðagreiðslu um þetta mál, hv. þingmaður, vegna þess að ég hef lýst henni í ræðustól í umræðunni í dag og ég gerði það líka í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra. Afstaða mín er sú að það eigi að ráðast í stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og hverfa frá þeim orkunýtingaráformum sem þar hafa verið uppi. Það þarf ekki að bíða eftir afstöðu minni fram að þeirri atkvæðagreiðslu og ég geri jafnvel ekki ráð fyrir því að á það reyni að frumvarp til breytinga á lögum um raforkuver komi til atkvæðagreiðslu í þinginu.