Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Þriðjudaginn 10. október 2006, kl. 13:37:46 (281)


133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér er tekin upp. Það er eitt atriði í viðbót sem ég vil bæta inn í umræðuna vegna þess að einmitt í dag, 10. október, munu SÁÁ halda sinn árlega hátíðarfund í Háskólabíói. Áfengissýki, sem sannarlega er vel þekktur vímuefnasjúkdómur, getur líka blandast inn í mál dagsins í dag, þ.e. geðheilbrigðismál, vegna þess að áfengissýki getur auðvitað valdið geðsjúkdómum og jafnvel dauða ef hún er ekki meðhöndluð á réttan hátt. Það er einmitt verk SÁÁ að hafa gert það með glæsilegum hætti mörg undanfarin ár.

Því tek ég þetta inn í þessa umræðu að starfsemi SÁÁ er í uppnámi nú vegna þess að samtökin hafa ekki enn fengið endurnýjaðan þjónustusamning við ríkið. Allt starf þeirra er í uppnámi vegna þess að samningurinn rann út um síðustu áramót. Ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins hefur sagt að erfitt sé að gera nýjan samning. Það má rétt vera vegna þess að í gögnum sem ég hef undir höndum segir að ekki hafi verið haldinn fundur síðan í janúar þótt ítrekað hafi verið eftir því leitað og SÁÁ kvarti yfir því að hafa hvorki náð fundi með ráðuneyti né ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við að hv. þm. Helgi Hjörvar spurði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, út í þetta mál 25. janúar sl. og þá sagði þáverandi heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Það er verið að vinna að endurnýjun samningsins. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki innan tíðar. Ég er ekki með dagsetningu á því.“

Virðulegi forseti. Því spyr ég hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra hvort hún sé komin með dagsetningu á það hvenær gerður verði nýr þjónustusamningur við SÁÁ. Það væri kannski hátíðlegt og gott að segja það í tilefni dagsins að hann yrði kannski undirritaður í kvöld. Eða ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta (Forseti hringir.) þetta mál danka áfram og setja starfsemi SÁÁ í miklu meira uppnám?