Fjáraukalög 2006

Þriðjudaginn 10. október 2006, kl. 14:27:02 (303)


133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:27]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Til 1. umr. er frumvarp til fjáraukalaga fyrir það ágæta ár sem nú er, árið 2006. Enn eitt árið stendur stjórnarandstaðan hér og gagnrýnir lausung í umgengni ríkisstjórnarinnar við fjárlögin. Þetta fjáraukalagafrumvarp, eins og fjáraukalagafrumvarpið í fyrra, er afar gagnrýnisvert fyrir margra hluta sakir en þá ekki síst fyrir það að enn eitt árið fer ríkisstjórnin meðvitað á svig við fjárreiðulögin. Stjórnarandstaðan er ekki ein um að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir þetta heldur er það orðinn árlegur viðburður að skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga setji fram mikilvæga gagnrýni og átelji ríkisstjórnina fyrir agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga. Árið í ár er engin undantekning.

Þegar fjárlög eru skoðuð nokkur ár aftur í tímann er það hrópandi hversu kæruleysislega þau eru unnin. Sama gagnrýni varðandi vinnubrögðin er endurtekin ár eftir ár eftir ár. Sem dæmi um þetta vil ég, með leyfi forseta, lesa nokkrar línur úr inngangi fjáraukalagafrumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að ekki er beint samhengi á milli þeirra fjárheimilda sem sótt er um í frumvarpinu og áætlaðra útgjalda á árinu. Kemur þar einkum tvennt til: Annars vegar er í frumvarpinu sótt um fjárheimildir vegna umframgjalda fyrri ára sem þegar hafa verið færð í reikningum ríkissjóðs. Hins vegar verða ekki öll umframgjöld bætt á árinu og færast til frádráttar fjárveitingum næsta árs eða stofnanir ganga á ónýttar fjárheimildir fyrri ára. Með sama hætti er gert ráð fyrir að fjárheimildir verði ekki að fullu nýttar á árinu og færist á næsta ár.“

Virðulegi forseti. Nákvæmlega sama málsgrein var í fjáraukalagafrumvarpinu í fyrra og hvað þýðir þessi málsgrein? Jú, hún þýðir að hæstv. fjármálaráðherra gefur í þessu fjáraukalagafrumvarpi enn og aftur þá yfirlýsingu að ekki eigi að fara að fjárreiðulögum í því efni að í því eigi einungis að vera liðir sem tilheyra hverju fjárlagaári fyrir sig. Nú ættum við því að vera að ræða liði sem tilheyra árinu 2006 en enn og aftur eru menn með ásetningi, líkt og yfirlýsingin ber með sér, að fara á svig við fjárreiðulögin og greinir hæstv. fjármálaráðherra, og hefur gert verulega, á við Ríkisendurskoðun í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Þetta er skínandi dæmi um það hversu kæruleysislega menn umgangast fjárlög ríkisins. Mönnum virðist þykja eðlilegt að endurtaka sömu skrýtluna og í fyrra með einföldu copy/paste milli ára. Þetta gengur ekki ár eftir ár. Ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra mundi sýna meiri metnað en svo þegar hann leggur fram sín fyrstu fjárlög og fjáraukalög sem hann hefur komið að frá grunni en að nota copy/paste á æfingar fyrirrennara síns í embætti.

Virðulegi forseti. Í lögum um fjárreiður ríkisins er skýrt kveðið á um tilgang þeirra. Þar segir, með leyfi forseta, í 44. gr.:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“

Því miður er það svo að í fjáraukalagafrumvörpum undangenginna ára og nú í ár eru komin verkefni sem ekki ættu að vera þar. Sem dæmi þá er í nokkrum tilfellum verið að bæta uppsafnaðan rekstrarvanda hjá stofnunum ríkisins sem með réttu ættu að koma inn á fjárlög næsta árs ef rétt væri að málum staðið. Er það afar tilviljanakennt hvaða stofnanir fá slíkar leiðréttingar á fjáraukalögum á hverjum tíma. Þetta vinnulag verður að laga svo það sama gildi fyrir allar stofnanir ríkisins og einnig svo hægt sé að taka heildstætt á málum stofnana sem búa við viðvarandi rekstrarvanda.

Staðreyndin er sú að ekki er borin virðing fyrir fjárlögunum sem lögum sem birtist í gríðarlegum frávikum. Þessi frávik hafa verið gagnrýnd harðlega í skýrslum Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ár eftir ár.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er árið í ár þar engin undantekning. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér nokkur orð úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2005 sem kom út í lok sumar og vakti mikla athygli fyrir harða gagnrýni eins og áður sagði. Þar segir m.a.:

„Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að fjárlög hvers árs, sem samþykkt eru af Alþingi, feli í sér heimildir sem ráðuneytum og stofnunum beri að virða. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Þá hefur stofnunin ítrekað bent á að mikil frávik frá fjárlögum ár eftir ár séu til marks um meira agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga hér á landi en tíðkast í löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við. Frávikin hafa að meðaltali verið um 15 til 20% undanfarin ár og er fjárlagaárið 2005 engin undantekning. Slík frávik þekkjast ekki í nálægum löndum.“

Á þessu verður að taka í eitt skipti fyrir öll. Hér er verið að of- eða vanáætla verulega á stofnanir ár eftir ár sem sýnir hve ríkisstjórnin leggur lítinn metnað í fjárlagavinnuna. Síðan er endrum og sinnum skotið inn í fjáraukalög handahófskenndum leiðréttingum á stöðu einstakra stofnana.

Virðulegi forseti. Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2005 kemur fram að fjárlagaliðir sem farið hafa 4% fram úr heimildum og fjárlagaliðir sem eiga 4% eða meira ónýtt, séu um 68%. 68% fjárlagaliða eru með 4% eða meira í frávik. Og það sem meira er þá hafa u.þ.b. þrír af hverjum fjórum þessara fjárlagaliða farið 10% fram úr eða eiga meira en 10% ónýtt. Þrír af hverjum fjórum þessara 68% eru með meira en 10% frávik.

Þessi samantekt varpar skýru ljósi á hversu léleg fjárlagagerðin er orðin. Svona er ekki hægt að standa að áætlanagerð fyrir rekstur ríkisins ef áætlanagerð á að kalla. Svona hefur ríkisstjórnin látið hlutina malla í gegnum árin. Fjárheimildir og uppsafnaður vandi er látinn flæða á milli ára þannig að alla yfirsýn vantar og þetta hefur leitt til að fjárlög ríkisins eru marklaust plagg í stað þess að vera skýr rammi sem þau eiga að vera um rekstur ríkisins.

Virðulegi forseti. Í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar segir um þetta, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun bendir á mikilvægi þess að Alþingi fjalli sérstaklega um þessa fjárlagaliði í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007. Eðlilegt má telja að ónýttar fjárheimildir sem eru umfram 4% verði felldar niður nema þær eigi að nýta á næsta fjárlagaári. Heimildir má síðan endurnýja í fjárlögum næstu ára eftir því sem þörf er á. Einnig þarf að ákveða hvað gera skuli í fjármálum stofnana sem eru komnar meira en 4% fram úr fjárheimildum, annaðhvort taka ákvörðun um að hækka fjárheimildir eða ganga eftir að viðkomandi stofnun dragi úr útgjöldum sínum. Ófært er að mál sem þessi séu látin velkjast ár eftir ár án þess að gripið sé til viðeigandi ráðstafana.“

Vegna þessa eru fjárlögin ónýtt verkfæri við stjórn efnahagsmála. Ríkisstjórnin hefur með kæruleysislegri umgengni sinni um fjárlögin sýnt að ekki eigi að nota ríkisfjármálin sem eitt af stýritækjum í efnahagslífinu. Það getur ekki orðið þetta stýritæki ef heimildir velkjast aftur og aftur á milli ára. Fjárlög eiga að veita skýrt yfirlit yfir hvert ár fyrir sig svo vel megi vera. Þessi ríkisstjórn ætlar engu að breyta í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd á að öllu eðlilegu að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Staðreyndin er sú að svo er alls ekki. Merkileg uppákoma varð í haust þegar umrædd skýrsla Ríkisendurskoðunar var til umfjöllunar í nefndinni. Þá komu fulltrúar fjármálaráðuneytisins á fund nefndarinnar og greindu frá því að einn liður í eftirlitinu væri sá að fjárlaganefnd Alþingis væru send yfirlit yfir stöðu stofnana ársfjórðungslega. Þetta kom fulltrúum stjórnarandstöðunnar í opna skjöldu því undanfarið hafa þeir fulltrúar sem nú sitja þar ekki séð slík yfirlit. Þá kom í ljós, virðulegi forseti, að eitthvað höfðu boðskipti milli ráðuneytisins og nefndarinnar misfarist og yfirlitin stoppað hjá formanni nefndarinnar. Á þessu var þó beðist afsökunar og lofað bót og betrun sem ég vona að verði.

Ég dreg þetta hér fram vegna þess að þetta sýnir að meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis hefur ekki tekið eftirlitshlutverk sitt alvarlega, eins og hér hefur margsinnis verið haldið fram af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, heldur hefur nefndin einungis verið stimpill á það sem kemur úr ráðuneytunum.

Ráðherraræðið hér á landi er að verða nánast algert og birtist skýrlega í störfum þingsins. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem fjallaði um það í grein í Morgunblaðinu nýverið að efla verði sjálfstæði Alþingis og styrkja innviði þess. Samfylkingin hefur til að mynda lagt fram tillögur nokkur síðustu ár um að sett verði á laggirnar hagdeild innan þingsins til að efla eftirlitshlutverk þess.

Virðulegi forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum ár eftir ár farið yfir það í umræðum og í álitum í fjárlagagerð hvernig farið er á svig við fjárreiðulög í ýmsum atriðum fjáraukalaganna. Það er því miður orðið að hvimleiðu munstri hjá hv. ríkisstjórn að nota fjáraukalögin til að breyta myndinni af ríkisrekstrinum. Það er orðið að hvimleiðu munstri hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum að slá upp glansmyndum í stað þess að fram fari raunveruleg áætlanagerð. Umgengni ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis á lögum um fjárreiður ríkisins hefur ekkert farið fram eins og sést á þessu frumvarpi. Á meðan svo er munu fjárlög og fjáraukalög ekki verða sá rammi sem þau eiga að vera um ríkisreksturinn ef farið væri að fjárreiðulögunum í einu og öllu. Við þessar aðstæður er því ekki hægt að búast við að stjórntæki á borð við fjárlög og fjáraukalög nýtist við efnahagsstjórnina eins og þeim ber ef rétt væri á málum haldið.

Þetta frumvarp til fjáraukalaga ber öll sömu merki og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, merki þess að hér á landi er markvisst verið að draga úr jöfnuði og þrengja að barnafólki og heimilunum í landinu. Ein skýr birtingarmynd þess er hér í frumvarpinu og vil ég taka hana sem dæmi og gera að umtalsefni.

Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild Fæðingarorlofssjóðs lækki um 200 millj. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2006. Er þetta gert í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um þróun útgjalda það sem af er þessu ári.

Virðulegi forseti. Rétt er að fara yfir það hvers vegna framlagið til Fæðingarorlofssjóðs lækkar. Það er ekki vegna þess að barnsfæðingum hafi fækkað. Það er ekki vegna þess að laun hafi lækkað og þar með viðmiðin. Nei, þetta er til komið vegna breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 90 árið 2004 á foreldra- og fæðingarorlofslögunum. En lagabreytingarnar voru einmitt ætlaðar til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs til fæðingarorlofsmála.

Ein þessara breytinga, og líklega sú stærsta og sem kemur hvað harðast niður á barnafólki, er sú að viðmiðunartímabil tekna var lengt verulega, eða úr 12 mánaða samfelldu tímabili í tvö síðustu tekjuár miðað við skattframtöl. Þessar breytingar hafa haft í för með sér að viðmiðunartímabilið getur orðið frá 24 mánuðum upp í 36 mánuði eftir því hvenær á árinu barnið er fætt. Því gefur augaleið að ekkert foreldri nær nálægt 80% af tekjum sínum í fæðingarorlofi lengur. Þessar breytingar hafa komið sér afar illa fyrir margar fjölskyldur af ýmsum ástæðum auk þess að vera í eðli sínu óréttlátar þar sem viðmiðunartími verður mislangur eftir því hvenær ársins börnin eru fædd. Þegar miðað er við tekjuár eins og nú er gert getur munað töluverðu hvort barn er fætt í desember eða janúar. Þannig getur eins og áður sagði viðmiðunartíminn orðið frá 24 mánuðum upp í 36 mánuði fyrir fæðingu barns.

Þetta fyrirkomulag getur haft veruleg áhrif á tekjur. Þetta kemur í fyrsta lagi illa niður á fjölskyldum þar sem foreldrar hafa verið í námi og því með lágar tekjur. Í öðru lagi kemur þetta illa niður á foreldrum sem eignast börn með skömmu millibili og hafa þannig fengið skertar tekjur í fæðingarorlofi með fyrra barni og reiknast sú skerðing inn í skerðingu á tekjum í fæðingarorlofi með því seinna. Í þriðja lagi getur margt gerst hjá ungu fólki á svo löngum tíma. Svo sem stöðuhækkun, launahækkun eða tímabundið atvinnuleysi. Ungt fólk á barneignaraldri er oft að stíga fyrstu skrefin á starfsferli sínum og því framgangur og breytingar á launum tíðar.

Virðulegi forseti. Hvers vegna nefni ég þetta mál hér? Ég nefni það vegna þess að nú eru að birtast í frumvarpi til fjáraukalaga afleiðingar af þessari niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að barnafólki í landinu. Afleiðingar af breytingum á lögum um fæðingarorlof og ég leyfi mér að spá því að þetta sé eingöngu byrjunin.

Það er einnig mikilvægt að halda því til haga að síðan Alþingi samþykkti hin stórgóðu lög um fæðingarorlof árið 2000 hefur verið kroppað í þau þannig að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa stórskaðað lögin.

Virðulegi forseti. Annað mikilvægt mál tel ég að taka þurfi til umræðu hér um fjáraukalögin. Fyrir þinginu liggur síðan í gær frumvarp til breytinga á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Er með þessu frumvarpi verið að leggja til breytingar á vaxtabótum vegna þess áfalls sem margir fasteignaeigendur urðu fyrir í ágúst sl. þegar í ljós kom að niðurstöður álagningar af hækkun fasteignaverðs árið 2005 höfðu skert vaxtabætur þeirra svo um munaði og þurrkað þær út hjá mörgum án þess að nokkuð annað hefði breyst í þeirra högum annað en að eignir í fasteignum hækkuðu vegna hækkunar á fasteignaverði.

Í þessu máli er mikilvægt að eftirfarandi komi fram: Í vor, áður en þing fór í sumarfrí, hafði stjórnarandstaðan ítrekað lagt til að leiðréttingar yrðu gerðar strax á hámarki eignaviðmiðunar svo fasteignaeigendur fengju ekki áfallið sem raunin varð í ágúst síðastliðnum. Við lögðum til að gripið yrði til aðgerða strax. Var þá þegar ljóst að um væri að ræða a.m.k. 700 millj. kr. sem þessi heimili yrðu af. Í frumvarpinu sem ég nefndi áðan er einungis verið að bæta 300 milljónir af ónýttri heimild til vaxtabótagreiðslna, auk 200 milljóna sem lagðar verða til viðbótar. Það er því ljóst að ekki er verið að bæta þessar skerðingar vegna hækkunar fasteignaverðs að fullu.

Í öðru lagi er mikilvægt að hér komi fram að í júní síðastliðnum gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu í tengslum við samkomulag ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Í yfirlýsingunni sagði að ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði um vaxtabætur ef í ljós kæmi að niðurstöður álagningar nú í ágúst eða hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Í lok júlí blasti veruleikinn við þegar fjöldi Íslendinga fékk litlar eða engar vaxtabætur þegar álagningarskrár lágu fyrir.

Virðulegi forseti. Þetta lá því allt saman fyrir. Þess vegna er rétt að spyrja: Hvers vegna eru þessar 200 milljónir, sem ljóst er að greiða verður samkvæmt áðurnefndu frumvarpi umfram heimildir ársins, ekki í fjáraukalagafrumvarpinu? Þetta lá allt saman fyrir í vor. Þetta lá líka fyrir í júní og var síðan staðfest í lok júlí.

Þetta er enn eitt dæmið um lausungina í fjárlagagerðinni. Hæstv. fjármálaráðherra leggur bæði þessi mál fram. Frumvörpin koma fram með nokkurra daga millibili. Eru múrveggir milli deilda í fjármálaráðuneytinu? Þessi vinnubrögð eru auðvitað ekki eðlileg.

Að auki, virðulegi forseti, verð ég að nefna að fyrir utan þessar skerðingar, sem verið er að bæta að takmörkuðu leyti þó í áðurnefndu frumvarpi, þá er það staðreynd eins og ég hef áður bent á að vaxtabæturnar hafa lækkað um 1,4 milljarða á verðlagi dagsins í dag það sem af er þessu kjörtímabili, þ.e. ef tölurnar fyrir árið í ár eru teknar hráar úr fjárlögum þessa árs og bornar saman við ríkisreikning árið 2003. Þetta er fyrir utan þær skerðingar sem urðu vegna hækkunar fasteigna á síðasta ári. Ef ónýttar heimildir vegna breytinga á eignarhluta fasteignaeigenda eru teknar inn í hafa skerðingarnar því verið a.m.k. 1,7 milljarðar, miðað við það sem kemur fram í áðurnefndu frumvarpi til dagsins í dag. Það er því ljóst að skerðingarnar á vaxtabótunum hafa verið verulegar á undanförnum árum. Einmitt nú þegar heimilin þurfa þau hvað mest vegna verðbólgunnar sem leggst á lánin, verðbólgu upp í allt að 10% sem til er komin vegna mistaka ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála.

Á sama tíma skerðir ríkisstjórnin harkalega vaxtabæturnar sem heimili í landinu hafa reiknað með í áætlanagerð sinni. Ár eftir ár er því komið í bakið á fasteignaeigendum. Hver einasti fasteignaeigandi hefur fundið fyrir þessum skerðingum á undanförnum árum. Fyrir þær er ekki hægt að þræta. Þessar skerðingar eru staðreynd.

Virðulegi forseti. Það hefur líka komið fram í umræðunni að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru öll á eina leið. Sú aukna skattbyrði sem birtist núna í auknum skatttekjum frá einstaklingum í fjáraukalögunum, við vitum öll hvernig henni hefur verið skipt. Það hefur komið fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur hvernig hún skiptist. Skattbyrðin hefur aukist á alla nema þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar. Ég endurtek: Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru öll á eina leið, að kroppa í þau tæki sem ríkisvaldið hefur til að létta undir með barnafólki, að kroppa í þau tæki sem ríkisvaldið hefur til að jafna kjör fólks í landinu. Þetta er stefna núverandi ríkisstjórnar og við samfylkingarfólk gagnrýnum þá stefnu, við jafnaðarmenn gagnrýnum hana og hyggjumst leiðrétta þann kúrs sem ríkisstjórnin er á þegar við tökum við stjórn landsins. Það verður okkur fyrsta verk og því má treysta.