Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 20:13:42 (518)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kemur inn á kannski þá setningu sem skiptir sköpum fyrir Framsóknarflokkinn. Það er akkúrat þessi setning sem Framsóknarflokkurinn kom inn í frumvarpið. Að ekki megi selja Ríkisútvarpið. Það skyldi þó ekki vera að reynslan frá Símanum hafi orsakað að Framsóknarflokkurinn sá sig knúinn til að setja þá setningu í frumvarpið? Ég tel svo vera.

Þess vegna tel ég að hv. þm. Dagný Jónsdóttir eigi bara að viðurkenna að sporin hræða í þessum efnum. Hvort það er einhver trygging fyrir því þótt þessi setning sé núna í frumvarpinu um að Ríkisútvarpið verði ekki selt um aldur og ævi, þá efast ég nú um að eitthvert hald sé í þeirri trú. Svo vil ég minna hv. þingmann á að þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem var samgönguráðherra þegar Síminn var háeffaður gaf hástemmdar yfirlýsingar um það úr þessum stóli, fyrir fjölmiðla og fyrir alþjóð að ekki stæði til að selja Símann. Nákvæmlega sömu hástemmdu yfirlýsingarnar hafa verið settar fram í þessari umræðu, að það standi ekki til að selja Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Ég treysti ekki þessum orðum. Mér finnst traust Framsóknarflokksins vera mikið þó þessi litla setning lafi þarna inni.