Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 31. október 2006, kl. 15:32:28 (770)


133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:32]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók sérstaklega fram að þetta væru tveir einstaklingar. Ég tók ekkert fram um kyn. Ég hef enga trú á að karlmenn séu almennt duglegri en konur. Ég hef enga trú á að þeir hafi yfirleitt meiri reynslu en konur, alls ekki. Ég spurði hvernig menn ætluðu að taka á því þegar launað er mismunandi fyrir starf og atvinnurekandi segir: Það er vegna þess að viðkomandi kona er svo dugleg, þess vegna fær hún hærri laun. Til að snúa dæminu við.

Ég hef margoft spurt hv. þingmann og spyr enn: Hvað ætla menn að gera þegar konu er mismunað gagnvart konu, þegar dóttir forstjórans eða yfirmanns stofnunar fær miklu hærri laun? Þá er ekki hægt að gera neitt. Þá er yfirleitt ekki hægt að kæra nokkurn skapaðan hlut. Ef konu er mismunað með því að dóttir forstjórans er gerð að deildarstjóra en hin fær ekki stöðuna þótt hún sé miklu hæfari, duglegri, snjallari og með meiri menntun þá á ekki að gera neitt. Hvernig ætlar hv. þingmaður að taka á þeim vanda?

Mér sýnist þessi launakönnun sýna að við nýtum ekki konur að fullu, að við nýtum ekki ákveðna auðlind sem eru kraftar kvenna. Mér finnst miklu meira vandamál að konur fái ekki framgang, verði ekki deildarstjórar, forstjórar eða stjórnarformenn í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera. Það er miklu meira vandamál heldur en svo að menn eigi að vera að bítast um hvort fólk sinni starfi sínu með ákveðnum hætti og fái laun fyrir það.