Fjölgun útlendinga á Íslandi

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 14:07:01 (1083)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mál það sem við ræðum hér tengist atvinnustefnunni sem íslensk stjórnvöld hafa rekið. Risavaxin stóriðjuverkefni sem ekki sér fyrir endann á eru sett af stað, verkefni sem allir vita að verða ekki unnin nema með gríðarlegum innflutningi á erlendu vinnuafli og til verkanna eru fengin erlend stórfyrirtæki sem hafa margt misjafnt á samviskunni, bæði með tilliti til umgengni við náttúru og umhverfi en ekki síður með tilliti til umgengni við verkafólk. Þessa stefnu sóttu Samtök atvinnulífsins fast, þessa stefnu studdi stærstur hluti Alþingis og það gerði Alþýðusamband Íslands líka. En samfélagið, sem ætlað er að taka á móti eða við þessum stórverkefnum, viðlagakerfi samfélagsins var ekki í stakk búið til þess að bregðast við þeim veruleika sem þessi aukni fjöldi útlendinga hafði í för með sér. Félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið hafa öll rekið sig á það.

Hvað rekur svo fólk af stað í stórum stíl í atvinnuleit yfir landamæri og til framandi menningarsvæða? Það eru stórfyrirtæki sem í krafti heimskapítalismans hafa orðið þess valdandi. Við erum að súpa seyðið af ójafnvæginu og óréttlætinu sem hnattvæðing á forsendum fjármagnsins hefur komið af stað. Fjármagnið tekur völdin og stórfyrirtækin stunda félagsleg undirboð, sækjast eftir vinnuframlagi fólks sem ekki er í stakk búið til að gera kröfur. Þetta eru siðir sem við Íslendingar eigum að vekja athygli á, vera meðvituð um og ræða um og takast á við. Okkar bíður verulega mikilvægt verkefni, það verkefni að takast á við afleiðingar þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið í atvinnumálum.

Við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, höfum lagt fram hugmyndir um stefnu í málefnum innflytjenda sem ganga út á það í grundvöllinn að við mætum öllum einstaklingum á jafnréttis- og virðingargrundvelli. Við þurfum að aðlagast breyttum tímum, þess vegna þurfum við aðlögunarpólitík. Þeir aðilar sem vinna með slíka aðlögun, eins og Alþjóðahúsið við Hverfisgötu, Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum o.fl. þurfa að fá til þess brautargengi, (Forseti hringir.) brautargengi okkar sem störfum á Alþingi Íslendinga.