Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 14:58:06 (1100)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

266. mál
[14:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Þá vil ég byrja á því að spyrja: Af hverju erum við með fjármálaeftirlit?

Þegar litið er á hinar ýmsu þjóðir í heiminum sjáum við að sumum þjóðum vegnar vel og öðrum illa og yfirleitt tengist það góðu siðferði og ekki góðu siðferði. Til eru þjóðir sem hafa bæði mjög vel menntað fólk og miklar auðlindir en þeim vegnar mjög illa vegna spillingar og siðleysis. Öðrum þjóðum vegnar vel þrátt fyrir skort á auðlindum og kannski ekki eins góða menntun af því að siðferðið er gott. Siðferði er nefnilega ákveðin auðlind hjá þjóðum, þ.e. gott siðferði, nákvæmlega eins og siðferði er eign fyrirtækja og alveg sérstaklega einstaklinga, heiðarleiki einstaklings er eign og eyðist ekki.

Þess vegna er mikilvægt að við höfum góða siði í atvinnulífinu og þeir sem gæta þess eru Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Þess vegna höfum við Fjármálaeftirlitið. Það kemur ekki fram í þessu frumvarpi og ekki heldur í framsögu hæstv. ráðherra hvers vegna við erum með fjármálaeftirlit yfirleitt en það er mjög nauðsynlegt að menn rifji það upp öðru hverju.

Til að viðhalda góðum siðum þurfa úrskurðir eftirlitsstofnana að vera nákvæmir, skýrir og hraðir. Það þýðir ekkert að koma níu árum seinna og segja við tryggingafélögin að þau hafi gert eitthvað rangt. Allan tímann hafa menn verið í vafa um hvað megi gera, hvað sé rétt og hvað sé rangt. Úrskurðir þurfa að vera hraðir en þeir þurfa sérstaklega að vera skýrir og það hefur mér fundist skorta á. Stundum les maður þessa úrskurði og veit ekki almennilega hvað þessi íslenska þýðir. Við þurfum að byggja upp kerfi sem er bæði hratt og skýrt og viðheldur góðum siðum þannig að atvinnulífið viti hvað má og hvað má ekki hverju sinni.

Nú hefur í kjölfar altækra aðgerða og aukins frelsis í atvinnulífinu orðið gífurleg aukning sérstaklega á fjármálastarfseminni og þar eru menn að fara út á nýjar brautir á ótal mörgum sviðum, frú forseti. Alls staðar þurfa menn leiðbeiningar um hvað má og hvað má ekki, nýjar leiðbeiningar á nýju sviði í nýju landi. Þess vegna er mjög mikilvægt að efla Fjármálaeftirlitið. Ég er viss um að það er vilji til þess í öllu atvinnulífinu að Fjármálaeftirlitið verði eflt til að menn viti nákvæmlega hvað má og hvað má ekki, til að bankarnir viti t.d. hvernig er með gagnkvæmt eignarhald, hvernig er með eignarhald fyrirtækja hvers í öðru, hvernig er með útrásarfyrirtæki, hvernig er með veðhæfni hlutafjár sem er kannski í 2. eða 3. lið. Allt eru þetta spurningar sem þarf að svara vegna þess að menn eru að fara inn á nýja braut.

Ég mun sem formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar skoða þann möguleika að efla Fjármálaeftirlitið enn frekar og að það verði hvatt til skýrari og hraðari vinnslu úrskurða. Ég mun kanna hvort atvinnulífið sé ekki sátt við það að svo sé gert, því að það er gamaldags misskilningur að halda að atvinnulíf gangi út á svik og pretti. Atvinnulíf gengur út á heiðarleika og sanngirni. Það er útilokað að reka atvinnulíf nema menn séu með ákveðnar reglur í huga og starfi samkvæmt heiðarleika og sanngirni. Það sem atvinnulíf þarf fyrst og fremst eru skýrar reglur, hvað megum við og hvað megum við ekki, og það þarf að fá hraða úrskurði í ágreiningsmálum. Þess vegna styð ég þetta frumvarp og ég mun leggja til að það verði gert enn betur.