Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 15:15:49 (1109)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta andsvar hæstv. ráðherra hreinsar þá þann misskilning út úr umræðunni sem mér fannst nú gæta að loknum orðaskiptum okkar áðan. Það er sem sagt ljóst að enn býr þetta fyrirtæki, Norðurál efh., við sértækar aðgerðir í skattamálum. Þar með geng ég út frá því sem vísu að menn hugsi sér að halda áfram þeim ívilnunum sem við höfum samþykkt á Alþingi varðandi Fjarðaál og þá efalaust líka varðandi Alcan.

Ég vil segja að hæstv. iðnaðarráðherra þarf að tala hér aðeins skýrar og segja þingheimi hvort til sé einhver stefna yfir höfuð í þessum málum. Hann talar hér um eitt lítið skref í áttina. Í áttina að hverju? Ætlar þessi ríkisstjórn að sjá til þess að stóriðjufyrirtækjunum verði gert skylt að búa við sama skattumhverfi að öllu leyti og önnur fyrirtæki á Íslandi þurfa eða ætlar þessi ríkisstjórn ekki að sinna þessu að neinu öðru leyti en því sem hér um ræðir?

Hvað er hér verið að gera? Jú, hér er verið að leiðrétta vegna þess að þessi ríkisstjórn var skömmuð af Eftirlitsstofnun EFTA, ha! En bara varðandi eitt einstakt afmarkað atriði. Þá er auðvitað ekki snert við neinu öðru, heldur bara leiðrétt það einstaka atriði sem skammir ESA vörðuðu. Þetta ber allt að sama brunni. Þessi ríkisstjórn ætlar sér ekki að tryggja samræmt skattumhverfi fyrirtækja. Hún ætlar sér að viðhalda þeim sérkjörum sem stóriðjan hefur búið við á Íslandi.