Ekron-starfsþjálfun

Miðvikudaginn 08. nóvember 2006, kl. 14:38:21 (1237)


133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:38]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka heils hugar undir síðustu orð hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það má vera að það hafi verið misskilningur en ég skildi hæstv. ráðherra þannig að það væri verið að velta fyrir sér hvar ætti að vista þennan málaflokk, sem hlýtur að falla undir heilbrigðisráðuneytið. Ég vona að það sé misskilningur hjá mér að hæstv. ríkisstjórn sé að velta fyrir sér hvar málaflokkurinn endurhæfing eigi að vistast.

Ég get líka tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller, að öll endurhæfing annarra en þeirra sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsum á að vera hjá stofnunum, eins og sagt er, úti í bæ. Endurhæfingu á ekki að reka inni á sjúkrahúsum eða stórum sjúkrastofnunum nema eingöngu þeirra sem eru þar inniliggjandi.