Kröfur tryggingafélaga um upplýsingar

Miðvikudaginn 08. nóvember 2006, kl. 18:08:46 (1280)


133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kröfur tryggingafélaga um upplýsingar.

172. mál
[18:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar sótt er um líf- eða sjúkdómatryggingu hjá íslenskum tryggingafélögum þurfa umsækjendur að fylla út margar síður af upplýsingum um sig. Þar af er stór hluti upplýsinganna um heilsufar umsækjanda. Það er í sjálfu sér í lagi og alveg eðlilegt. En auk þess að svara spurningum um eigið heilsufar er umsækjanda gert að greina frá heilsufarssögu fjölskyldumeðlima, nánar tiltekið foreldra og systkina hafi þau fengið ákveðna sjúkdóma fyrir 60 ára aldur. Það finnst mér ekki í lagi og alls ekki eðlilegt.

Það kemur skýrt fram í vátryggingaskilmálum þegar sótt er um sjúkdómatryggingu að til grundvallar vátryggingarsamningnum liggi upplýsingar sem gefnar eru á vátryggingarbeiðnum, þar með talið umsóknareyðublöðum. Það er því skýrt hvað vakir fyrir tryggingafélögunum með því að spyrja um heilsufar nánustu fjölskyldumeðlima. Í áliti Persónuverndar, dagsettu 1. júní 2006, í máli nr. 103/2005, kemur fram að um þetta atriði hafi Persónuvernd spurt tryggingafélag, sem ekki er þó nafngreint, en í álitinu er vitnað í bréf frá tryggingafélaginu sem málið beindist að. Kemur í því svari skýrt fram hvers vegna þessara upplýsinga um heilsufar foreldra og systkina umsækjanda er krafist.

Vil ég því vitna beint í svarið, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með þeirri upplýsingaöflun er sem fyrr að leggja mat á áhættu félagsins af því að taka einstakling í tryggingu en sjúkdómar í nánustu fjölskyldu geta haft áhrif við það mat.“

Virðulegi forseti. Í stuttu máli er það sem hér er á ferðinni:

Í fyrsta lagi er umsækjandi krafinn upplýsinga um heilsufarssögu náinna ættingja án þess að þeir þurfi að gefa fyrir því samþykki.

Í öðru lagi er áhætta metin á grundvelli þeirra upplýsinga en það áhættumat liggur til grundvallar iðgjaldinu.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta algjörlega galið fyrirkomulag. Þetta er galið fyrirkomulag vegna þess að auðvitað er það persónugreinanlegt þegar um svo nána ættingja er að ræða. Það er ekki um marga foreldra að ræða. Þeir ættu auðvitað að þurfa að gefa skriflegt samþykki sitt fyrir því að slíkar upplýsingar séu gefnar af öðrum en þeim sjálfum. Þetta hefur Persónuvernd bent á og gerir það í áðurnefndu áliti.

Þetta er einnig galið fyrirkomulag vegna þess að þarna er dansað á mjög fínni línu hvað varðar lög um vátryggingarsamninga. Í 82. gr. þeirra laga frá árinu 2004 er kveðið á um að tryggingafélagi sé ekki heimilt að óska eftir upplýsingum um erfðaeiginleika manns og áhættu af því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Í niðurlagi sömu greinar er svo kveðið á um að bannið nái ekki til athugunar á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga. Þetta gagnrýndi Læknafélagið mjög þegar lögin voru sett og Persónuvernd lagði til í umsögn sinni um málið árið 2004 til Alþingis að orðin „annarra einstaklinga“ bæri að fella út. Því er ég hjartanlega sammála og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði slíkt til við meðferð málsins hér inni á þingi.

Virðulegi forseti. Þarna eru lögin auðvitað mjög óskýr. Það er ljóst að tryggingafélögin eru að gefa sér erfðaþætti umsækjenda, annars væru þau ekki að spyrja að þessum þáttum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Telur ráðherra að bregðast þurfi við því að tryggingafélög leggi hærri iðgjöld á þá sem eiga foreldra eða systkini sem hafa fengið ákveðna sjúkdóma og mismuni þannig neytendum á grundvelli persónuupplýsinga um aðra en tryggingartaka?

2. Kemur til greina að mati ráðherra að gera lagabreytingar þannig að tryggingafélögum verði ekki heimilt að krefja umsækjendur um tryggingar upplýsinga um heilsufar foreldra og systkina?