Kröfur tryggingafélaga um upplýsingar

Miðvikudaginn 08. nóvember 2006, kl. 18:16:08 (1283)


133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kröfur tryggingafélaga um upplýsingar.

172. mál
[18:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni, Dagnýju Jónsdóttur, fyrir undirtektir hennar í þessu máli. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að þegar spurt er um svo nána ættingja sem foreldra og systkini þá er það persónugreinanlegt. Þetta hefur komið fram í áliti Persónuverndar, áðurnefndu áliti sem ég nefndi í ræðu minni, að þetta er náttúrlega persónugreinanlegt. Það koma ekki margir til greina þegar verið er að ræða um foreldra.

Virðulegi forseti. Mér finnst gengið þarna of langt og það er auðvitað bara galið að umsækjandi um tryggingar sé krafinn um upplýsingar, vegna þess að honum getur hefnst fyrir það að veita ekki þessar upplýsingar þannig að hann hefur ekkert val. Hann er beinlínis krafinn um upplýsingar um þriðja aðila án þess að þriðji aðili þurfi að gefa nokkurt samþykki sitt fyrir því. Þetta er auðvitað galið fyrirkomulag og við verðum að taka þetta ákvæði upp og við verðum að endurskoða það.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni vil ég fá svör við því hvort hæstv. ráðherra telji ekki að verið sé að dansa þarna á línu 82. gr. laga um vátryggingarsamninga en í mjög merkilegu áliti Persónuverndar um þetta mál kemur fram, með leyfi forseta:

„Ber hér að hafa í huga að margir algengir sjúkdómar orsakast af samspili erfða- og umhverfisþátta. Verður því að líta svo á að öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina jafngildi öflun upplýsinga um erfðaeiginleika umsækjandans sjálfs. Verður enda vart komið auga á það í hvaða tilgangi öðrum tryggingafélag ætti að sækjast eftir upplýsingum um slíka sjúkdóma hjá einstaklingum.“

Mér finnst því lögin og þessi 82. gr. í raun og veru hlægileg. Vegna þess að hún er lokuð í annan endann og svo opnast hún alveg upp á gátt í hinn endann. Til hvers erum við að setja svona lög, (Forseti hringir.) virðulegi forseti?