Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 11:03:46 (1301)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[11:03]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta þingsins fyrir að gera góða grein fyrir skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2005. Því miður var ég var ekki á fundi hv. allsherjarnefndar þegar umboðsmaður fór yfir skýrslu sína og er það í fyrsta sinn sem ég missi af þeirri yfirferð sem alltaf er mjög gagnmerk. Þar eiga sér stað mjög góðar samræður og góð skoðanaskipti sem eru oft vísbending um það sem koma skal á næstu árum. Mig langar til að vekja athygli þingmanna á bls. 31 en þegar viðfangsefni þessa brýna embættis er skoðað skulum við ekki gleyma því að sennilega er umboðsmaður brjóstvörn borgaranna gagnvart stjórnvöldum og hlutverk umboðsmanns Alþingis er afar brýnt og mikilvægt. Þar er hægt að sjá hvernig skipting málanna er, skráðra mála eftir viðfangsefnum, og þar ber auðvitað hæst tafir hjá stjórnvöldum við afgreiðslu máls. Það er greinilegt að þar þurfum við að herða dálítið á og einnig í málsferð í starfsháttum stjórnsýslunnar. Við sjáum líka vísbendingar um hvar hugsanlega verði aukning á komandi árum sem er helst í starfsmannamálum eða hjá opinberum starfsmönnum en í skýrslunni er mjög mikið af úrskurðum frá umboðsmanni varðandi starfsmannamálin. Þau mál byrja á bls. 108 og verða greinilega fyrirferðarmeiri en áður.

Mér finnst líka afar brýnt að embættið skoði og fari yfir mál er varða hagsmuni barna. Á bls. 57 er gerð grein fyrir einu máli varðandi barnaverndina en ég veit að alls komu sjö mál um þau efni til umboðsmanns Alþingis á árinu 2005. Það er afar brýnt að borgararnir og þeir sem þurfa að gæta hagsmuna barna geti leitað til umboðsmanns Alþingis og að hann sé til staðar til að skoða þau mál en við eigum alltaf að hafa börn í fyrirrúmi við kjöraðstæður, eins og mögulegt er. Ég vil líka nefna, kannski erum við búin að koma betra skikki á þau mál, en það er minna um fangelsismál en oft áður og það er líka afar brýnt að virða rétt okkar minnstu bræðra.

Ég vil líka taka undir hve brýnt er að umboðsmaður hafi ætíð nægjanlegt svigrúm til að vera með sjálfstæðar rannsóknir og það eru þær vísbendingar sem er mikilvægt að stjórnsýslan skoði. Í því sambandi minni ég á að sjálfstæð úttekt umboðsmanns um félagsþjónustu sveitarfélaga varð til þess að betra skikki var komið á og meira jafnræði meðal sveitarfélaga um þau mál og hætt var með svokallað, eins og við sögðum stundum rassvasabókhald í félagsþjónustu sveitarfélaga. Það ber því að þakka embætti umboðsmanns Alþingis og allra hans starfsmanna mjög góða og gagnmerka forustu sem hann hefur haft í að taka út ákveðin mál.

Það hefur ekki verið hefð fyrir því að bresta á með mjög löngum ræðum um skýrslu umboðsmanns Alþingis en ég vil skora á þingmenn að skoða bls. 57. Ég veit af öðru máli sem var úrskurðað í nú í sumar varðandi stöðu foreldra fósturbarna og það munum við sjá í skýrslu fyrir næsta ár. Ég vil líka minna á að umboðsmaður Alþingis er með mjög gagnmerkan vef þar sem hægt er að fá upplýsingar um öll mál sem þar eru í gangi núna og úrskurðað hefur verið í. Það er mjög fróðlegt að líta inn á þann vef og horfa á þá fjölbreytni og þau mál sem þar eru.

Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu og hlakka til þeirrar næstu.