Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 2006, kl. 18:39:44 (1781)


133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

virðisaukaskattur.

338. mál
[18:39]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvarið er þó með þeim hætti að ég tek undir flest af því sem fram kom í máli hv. þingmanns og vil geta þess að ég hef á hinu háa Alþingi lagt fram fyrirspurnir bæði til hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra um það með hvaða hætti ríkisvaldið sé tilbúið til að koma til móts við rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek undir það sjónarmið sem kemur fram í þessu frumvarpi, að hið sama eigi að gilda um almenningssamgöngur og rekstur hópferðabíla og njóta þessarar endurgreiðslu.

Hitt er svo annað mál að ég tel raunar að ríkið ætti, og samfélagið allt, að ganga miklu lengra en það gerir. Með ótal aðferðum og dæmum er hægt að sýna fram á þjóðhagslegan ávinning af því að létta undir með almenningssamgöngum og spara þannig á öðrum sviðum. Um þetta hefur talsvert verið rætt á vettvangi borgarstjórnar, bæði á undanförnum árum og núna nýlega. Í borgarstjórn hefur verið rætt um og samþykkt að beina því til Sambands sveitarfélaga að eiga viðræður við ríkisvaldið, bæði hæstv. fjármálaráðherra og umhverfisráðherra, um þessi mál, m.a. vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra hafði látið þau ummæli falla opinberlega að hún teldi að ríkið ætti með auknum hætti að koma til móts við sveitarfélög sem standa að rekstri almenningssamgangna. Þess vegna teldi ég og örugglega fleiri ástæðu til að fá fram í hverju það felst nákvæmlega og sömuleiðis þá auðvitað viðhorf hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum vegna þess að þó að það sé mjög gott að fá viðhorf einstakra fagráðherra fram er það í þessum efnum, eins og jafnan, sá sem heldur um ríkiskassann sem ræður mestu á endanum.