Breyting á lögum á orkusviði

Mánudaginn 20. nóvember 2006, kl. 20:45:06 (1874)


133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[20:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hún er kúnstug tilraun hæstv. iðnaðarráðherra til að halda því fram að þessi fyrirtæki tvö, Orkubú Vestfjarða og Rarik, verði áfram sjálfstæð fyrirtæki þegar búið er að setja eignarhlutinn inn í Landsvirkjun. Landsvirkjun tekur að sér að borga skattana, Landsvirkjun fer með alla hlutina í félaginu komi til einhvers slíks fundar o.s.frv.

Nú tek ég undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að það er miklu betra að tala hreint út heldur en að koma með hlutina svona brenglaða. En að því er virðist trúir ráðherra þessu sjálfur. Það finnst mér kannski alvarlegast. Það er náttúrlega verið að slá þessum fyrirtækjum saman, það er bara svo einfalt. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að viðurkenna það, viðurkenna tilganginn með þessu en fara ekki svona á bak við hann. En ég ætla að spyrja ráðherrann út í þetta í lokin. Bæði Skagafjarðarveitur og Norðurorka sendu iðnaðarráðuneytinu bréf fyrir tveimur árum, og ítrekuðu það aftur fyrir liðlega ári, þar sem farið var fram á að fá að ræða það að kaupa hlut Rariks á viðkomandi svæðum, þ.e. Norðurorka vildi fá að kaupa hlut Rariks á starfssvæði sínu og Skagafjarðarveitur fóru fram á að fá að ræða kaup á hlut Rariks á starfssvæði sínu, sem hefði kannski líka verið í anda þess að skapa fleiri aðila á raforkumarkaði. Alla vega voru þessi bréf send þegar verið var að ræða um að breyta eignarhaldinu. Þessir aðilar hafa ekki fengið svör, að ég veit, ekki formleg svör. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvenær á að svara Norðurorku og Skagafjarðarveitum (Forseti hringir.) sem vilja fá að kaupa hlut Rariks á sínum svæðum?