Fjárlög 2007

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006, kl. 14:27:38 (2169)


133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leiðrétta þann misskilning að ég hafi í ræðu minni áðan, það var að minnsta kosti ekki meiningin, ætlað að tala niður til hv. stjórnarandstöðu eða gera grín að tillögum þeirra.

Fyrst og fremst finnst mér það vera ábyrgðarhluti þegar við höldum í fjárlaganefnd 28 fundi og köllum á okkar fund tugi aðila úr þjóðfélaginu, fjöldann allan af stofnunum, einstaklingum og félagasamtökum, að við erum að gera það til að móta okkur sýn á hvernig við viljum sjá fjárlög ársins 2007 líta út.

Ég er ekki að gera lítið úr stjórnarandstöðunni þegar ég bendi á að stjórnarandstaðan leggur ekki fram neinar tillögur í heilbrigðismálum, menntamálum og félagsmálum eftir hina miklu vinnu sem hefur átt sér stað í nefndinni. Ég held að ég sé ekkert að gera lítið úr stjórnarandstöðunni þegar ég segi að mér finnst að þjóðin eigi heimtingu á því að vita hver stefna stjórnarandstöðunnar er í málefnum Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands o.s.frv.

Er það ekki eðlilegt að í stefnumarkandi umræðu sem hér fer fram og í umræðum um fjárlög ársins 2007, að þjóðin fái að vita hvað hv. stjórnarandstaða vilji gera í málefnum þessara stofnana?

Ég tek enn og aftur fram að ræða mín í andsvörum í dag var ekki til þess að draga dár að stjórnarandstöðunni. Síður en svo. Það er ekki þannig. Ég hefði talið, eftir þá miklu vinnu sem fram hefur farið í nefndinni, að við gætum fengið sýn allra þingflokka á Alþingi hvernig þeir vilji að fjárlög ársins 2007 líti út. Við getum verið sammála eða ósammála í þeim efnum. Aðalatriðið er að menn hafi sýn á fjárlög ársins 2007.