Fjárlög 2007

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006, kl. 14:39:18 (2177)


133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:39]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við tókum fjárlagafrumvarpið til 1. umr. hér í haust taldi ég rétt og skylt að gera grein fyrir því hvað væri helst frábrugðið í þessu frumvarpi frá því sem hefði verið á umliðnum árum. Þá fór ég ofan í það að stærsta stílbrotið í þessu væri hin gríðarlega aukning sem væri í frumvarpinu til millifærslnanna, til velferðarkerfisins í þjóðfélaginu. Það var hin stóra breyting á þessu frumvarpi frá því sem verið hefur á undanförnum árum vegna þess að það hefur verið stefnan og henni hefur verið fylgt mjög nákvæmlega lengi að við ætlum ekki að láta millifærslurnar hækka að raungildi nema um 3,5% á ári og höfum staðið við það, samneysluna ekki nema um 2,5% á ári og höfum staðið við það.

Í þessu frumvarpi er mjög vikið frá þessu vegna þess að raunhækkun á framlögum til samhjálpar og velferðarmála er yfir 10%. Það er það sem er athyglisvert við þetta frumvarp, það er hin mikla breyting frá því sem verið hefur. Það er jafnframt yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að þetta sé einstakt dæmi, það sé ekki annað fyrirhugað á komandi árum en að hverfa aftur til 3,5% raunaukningarinnar, enda skiljanlegt, milli 10 og 11% raunaukning til velferðarmála er náttúrlega eitthvað sem ekkert þjóðfélag hefur áður gert að ég viti og ég held að það sé langt að leita að finna dæmi þess í Íslandssögunni að slíkt átak hafi verið gert eins og nú er fyrirhugað í þessu frumvarpi.

Ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að mér er nær að halda að það sé nákvæmlega sama hvað ríkisstjórnin hefði hækkað framlögin til velferðarmála mikið, ég geri því skóna að stjórnarandstaðan hefði í öllum tilfellum alltaf komið og treyst sér til þess að bjóða enn þá betur. Núna liggur fyrir ein breytingartillaga frá stjórnarandstöðunni sem mér skilst að sé upp á — ég hef ekki alveg áttað mig á því, það er dálítil misvísun í frásögninni — 6–8 milljarða kr. (Gripið fram í: Tæplega 7,4.) 7,4 ef ég leiðrétti mig, þá er ég nálægt þessu.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að mín ágæta ríkisstjórn, sem ég styð, sé að sýna mjög mikla bjartsýni þegar hún leggur fram slíkt frumvarp um rúmlega 10% raunhækkun til velferðarmála. Hún er að sýna mjög mikla bjartsýni enda leyfist henni það kannski vegna þess að framgangur efnahagslífsins á Íslandi hefur verið með miklum ólíkindum núna um nokkuð langt skeið og hefur verið tekið til þess erlendis að menn þekkja ekki önnur eins dæmi. Það er því kannski eðlilegt að ríkisstjórnin sé bjartsýn um framgang mála miðað við reynslu liðins tíma. En þá verð ég að segja sem svo að ég ætla að stjórnarandstaðan sé haldin enn þá meiri bjartsýni, jafnvel mikilli ofbirtu um framgang efnahagsmálanna úr því að hún treystir sér til að fara enn þá hærra, fara upp í 7–8 milljarða þar að auki, fyrir utan hækkanir sem liggja fyrir um framgang velferðarmála. Það er vel ef stjórnarandstaðan er orðin enn þá bjartsýnni en ríkisstjórnin á það hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi íslensk efnahagsmál, það er vel.

Hins vegar er það svo, virðulegur forseti, að það er ágætt og sú þjóð hlýtur að vera hamingjuþjóð sem getur lagt mjög mikla peninga til samhjálpar til þeirra sem lakar standa í þjóðfélaginu, til þeirra sem eru öryrkjar, til þeirra sem eru veikir. Það liggur fyrir að Ísland er að allra dómi, í öllum skýrslum Sameinuðu þjóðanna um velferð samfélaganna, um lífsmöguleika fólksins, um jöfnuð og lífskjör ber öllum skýrslum saman um að Ísland er þar í fremsta flokki, Noregur yfirleitt talinn aðeins standa betur, Ísland yfirleitt í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Þetta er mikil hamingjuþjóð sem hefur tekist á tiltölulega skömmum tíma að ná þeim árangri.

Það er nefnilega þannig að það getur vart verið að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa eða hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, geti staðið hér í ræðupúlti og farið að metast um það hvor vilji gera betur við þá sem lakar standa. Er þetta spurning um gæði þingmanna eða hversu brjóstgóðir þeir eru eða um manngæsku þeirra eða hvað? Hvernig má það vera í hinum kalda, harða heimi þar sem fátæktin ríður húsum nær um allan heim? Er það þá vegna þess að allir þar séu svo vondir, er þetta vegna mannvonsku? Er þetta vegna þess að menn hafi ekki samúð með náunganum? Nei, virðulegi forseti, velferðarþjóðfélögin eru aðeins til þar sem efnahagslífið er heilbrigt og efnahagslífið er sterkt, aðeins þau þjóðfélög geta veitt mikla fjármuni til velferðarmála, engin önnur. Það er ekki af mannvonsku stjórnvalda sem neyðin er svo mikil í heiminum sem raun ber vitni.

Ég ætla ekkert að þræta um það hér, virðulegur forseti, hvort það sé rétt eða rangt að veita 6 milljörðum, 8 milljörðum, 10 eða 15 milljörðum meira eða minna, það er ekki spurning um manngæsku mína eða annarra. Ég er hins vegar haldinn dálitlum efa um það og segi það beint út því að það er rétt að tala af hreinskilni, ég held að velgengni síðustu ára hafi kannski fært okkur einhverja ofbirtu í augun. Ég segi það vegna ýmissa ummæla sem hafa fallið hér undanfarna daga og undanfarnar vikur um stöðu mála á Íslandi. Okkur hefur gengið betur en öllum öðrum þjóðum en við megum aðeins passa okkur.

Ég tek sem dæmi umræðuna um vegamál sem fór fram í gær. Það er eins og allir hafi gleymt öllu, hér sé bara hægt að taka upp tugi milljarða hingað og þangað í hvaða verkefni sem er. Menn gleyma því að þetta stendur og fellur með efnahagslífinu, með atvinnulífinu, og við getum ekki sótt einhverja endalausa peninga. Það getur vel verið að það sé rétt að eyðu meiru í hitt og þetta o.s.frv., en ég efast stórlega um að það sé samfélaginu til velfarnaðar þegar lengra er litið. Ég held að við Íslendingar höfum farið, ef eitthvað væri, tiltölulega geyst, okkur hefur tekist það, við höfum verið heppnir. Við getum ekki treyst því að við verðum alltaf heppnir. Það getur alltaf slegið í bakseglin jafnvel hjá þessari þjóð, Íslendingum, sem eru svo ánægðir með sjálfa sig.

Eftir að hafa hlustað á ræður stjórnarandstöðunnar spyr ég sjálfan mig um hvað við séum að deila. Ég set dálítið spurningarmerki við það sem þeir setja upp. Hér kemur ágætur hv. þm. Einar Már Sigurðarson og talar heilmikið um skattamál. Hann bendir á að heildarskatttekjur hins opinbera hafi hækkað á Íslandi, sem er alveg hárrétt hjá honum. En hver hefur fengið þessar tekjur? Það er ríkið sem hefur fengið þær og sveitarfélögin og sveitarfélögin þó heldur meira en ríkið. Samt talar sami hv. þingmaður um að þetta sé mesta vá vegna þess að sveitarfélögin vanti svo mikla peninga. Hvernig stendur á því að sveitarfélögin vantar samt svona mikla peninga? Jú, ástæðan er mjög einföld, sveitarfélögin hafa gengið fram fyrir skjöldu og hækkað þjónustustig á öllum mögulegum sviðum, þjónustustig við borgarana og allir verið sammála um það. Auðvitað þurftu þau að fá peninga til þess.

Auðvitað er það rétt að í nokkur ár hefur ríkið fengið meiri peninga en það fékk áður. Það var gert vitandi vits og að yfirlögðu ráði. Svo koma menn í stjórnarandstöðunni og tala um lækkun á raungildi skattleysismarka. Hvaða hugtak skyldi það nú vera, virðulegur forseti? Hvað er raungildi skattleysismarka, við hvað er þá verið að miða? Menn tala hér aftur á bak og áfram um að skattleysismörk eigi að fylgja neysluvísitölu eða verðvísitölu en ég veit ekki um nokkurn mann sem skilur hvað hann vildi sagt hafa.

Það er best að taka það fram, virðulegur forseti, rétt enn einu sinni því ég hef rætt þetta árum saman við afgreiðslu fjárlaga, en sannleikurinn er sá að það hefur verið opinber stefna, fjármálastefna Íslands, ríkisins, að í því mikla góðæri sem hefur gengið yfir samfélagið þá tæki ríkið hluta af því til sín, það er bara satt. Það hefur alltaf legið fyrir að það bæri að gera það, alltaf. Til hvers hefur ríkið notað þá peninga? Það hefur aukið á velferðarkerfið meira en við höfum áður haft efni á, við höfum lagt meira í skólamál en við höfum áður haft efni á, við höfum lagt meira í samgöngumál en við höfum áður haft efni á og í síðasta lagi höfum við borgað niður allar skuldir ríkisins, sem er rétt og satt og heilbrigt að gera þegar vel árar. Var einhver á móti því? Var einhver sem talaði gegn því? Taldi einhver þá að ríkið ætti ekki að fá hlut af bættri afkomu samfélagsins? Ég heyrði engan segja það.

Svo koma menn eftir á og segja að það hafi verið stolið af þeim sköttum, það sé búið að skattleggja menn umfram það sem eðlilegt er, því að stundum koma menn og segja: Það átti að láta skattleysismörkin fylgja launavísitölu. Hvað meina menn með slíku tali? Ef skattleysismörk fylgja launavísitölu hvað gerist þá? Í miklum launahækkunum, eins og hafa gengið yfir Ísland núna í meira en tíu ár, hefði allur ágóði samfélagsins gengið til borgaranna en ríki og sveitarfélög hefðu ekki fengið krónu. Var það meiningin? Eru það virkilega sömu mennirnir sem koma hér upp með tillögur um að auka velferðarmálin enn þá meira en ríkisstjórnin hefur lagt til, auka þau núna um 7–8 milljarða, eru þeir líka að segja að það hafi verið ranglega teknir skattar af almenningi? (Gripið fram í.)

Hvort heldur meintu þeir að það væri rétt að ríkið tæki til sín hluta af hagnaðinum eða hitt að það bæri að láta það allt út til samfélagsins, láta það út til einstaklinganna? Þegar menn tala svona verða þeir að gera upp við sig, virðulegur forseti, hvað þeir meina í þessu. Þetta verða menn að gera það upp við sig og átta sig á því þegar þeir tala um að skattbyrðin hafi aukist. Skattbyrðin hefur ekki aukist, skatthlutfallið hefur aukist, það er verið að borga hærra hlutfall til hins opinbera og sérstaklega sveitarfélaganna af miklu, miklu hærri tekjum, vegna þess að rauntekjurnar, ráðstöfunartekjurnar, tekjurnar eftir skatta hafa aukist stórlega á Íslandi. Svo koma þessi ágætu stjórnarandstæðingar með enn eina samlíkinguna og segja: Hér hefur aukist misrétti.

Í hverju er það nú fólgið, þetta mikla misrétti sem hefur aukist? Jú, það var opinber stefna Sjálfstæðisflokksins um árabil að unnið skyldi að því að fella niður hátekjuskattinn. Sjálfstæðisflokkurinn hélt því fram um leið og sá skattur var lagður á þjóðina að hann væri bæði rangur og að hann væri ranglátur. Hann væri rangur að því leyti að hann drægi úr vilja manna til að vinna og búa til verðmæti og hann væri ranglátur vegna þess að það væri verið að hegna þeim sem legðu harðast að sér. Það var alla tíð stefnumál Sjálfstæðisflokksins að koma þessu skattþrepi fyrir kattarnef. Svo tekst það loksins, að koma skattþrepinu fyrir kattarnef. Þá kemur prófessor í félagsfræði og kemst að þeirri merkilegu niðurstöðu að úr því að hátekjuskatturinn var lagður niður þá hafi skattar lækkað meira á hátekjumönnum en öðrum. Það er nauðsynlegt að gera svona rannsóknir. Þetta hefði engum dottið áður í hug eða hvað? Svona er nú málflutningurinn. Það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir því að fella niður hátekjuskattinn, það er rétt og satt og ber alltaf að halda því á lofti og best að segja frá því eins og það er.

Við getum haldið áfram að ræða um skattamál og það er nauðsynlegt að gera það vegna þess að það er verið að villa mönnum sýn. Núna er það stefnumál ríkisstjórnarinnar gagnvart lögunum um tekju- og eignarskatt, eða tekjuskatts, eins og það heitir núna, að festa skattleysismörkin við neysluvísitöluna en það er niðurstaða manna að það kunni að vera réttlátara. Ég er einn af þeim mönnum, virðulegi forseti, sem eru á móti þessu. Ég held að ríkisstjórnin sé þar að stíga rangt skref vegna þess að þetta á að vera opið. Það er nefnilega þannig að það getur hvort tveggja gerst, það eru ekki alltaf jólin, það er ekki alltaf slík uppákoma, það er ekki alltaf slíkur tekjuauki eins og við erum að upplifa núna síðustu tíu, tólf árin. Það hafa komið tímabil í sögu allra þjóða að það hefur gengið illa, tekjur hafa rýrnað, það hefur gengið á móti, það hafa verið erfiðleikar. Þá er nauðsynlegt, virðulegi forseti, einmitt þegar á móti blæs, að ríkið geti haft borð fyrir báru, ríkið geti komið og þá á ríkið einmitt að koma og létta á sköttunum, þegar illa gengur í atvinnulífinu og hjá einstaklingum. Það getur íslenska ríkið í dag vegna þess að við höfum verið þeir gæfumenn á umliðnum árum að nýta okkur góðærið til þess að borga niður skuldirnar sem voru fyrir. Þetta er megininntakið í þeirri skattastefnu sem rekin hefur verið og það á hver maður að sjá að þetta þjónar þeim tilgangi að gera ríkið hæfara til þess að mæta sveiflunum sem við vitum að verða í þessum heimi.

Talandi um samhjálpina sem er svo brýn og er svo nauðsynleg, sérstaklega í litlum samfélögum eins og okkar þar sem allir þekkja alla og allir eru háðir hver öðrum, þá megum við aldrei gleyma því hver undirstaðan er, eins og ég nefndi áðan. Það er aðeins í því samfélagi þar sem efnahagslífið er heilbrigt sem við getum byggt upp betri afkomu og vaxandi afkomu á hverju ári, afkomu launafólksins sjálfs, vinnandi Íslendinga hvort sem það eru flugfreyjur, þjónar eða múrarar, smiðir eða hvað sem þeir gera. Það er það þjóðfélag sjálft, þjóðfélag sem getur bætt kjör fólksins, hins vinnandi fólks, það þjóðfélag eitt og engir aðrir geta síðan bætt og staðið vörð um kjör þeirra sem minna mega sín, ekkert annað þjóðfélag getur það. Þess vegna skiptir það öllu máli og menn skulu ekki gleyma því sem okkur hefur tekist á Íslandi á síðasta áratug 20. aldarinnar, þótt það gleymist nú oft í umræðunni, það er að gjörbreyta allri viðskiptalöggjöf Íslands, einum 80 lagabálkum, við gjörbreyttum öllu lagaumhverfi viðskiptanna, settum hér á hina frjálslyndustu löggjöf sem til er í Evrópu. Þetta hefur verið stefnumál Sjálfstæðisflokksins áratugum saman. Það hefur verið trú sjálfstæðismanna áratugum saman að þetta væri leiðin til þess að bæta kjör Íslendinga, til þess að þjóðin fengi notið sín í landi sínu.

Þegar þessi stefna loksins var framkvæmd í lok 20. aldarinnar lét árangurinn ekki á sér standa. Síðan hefur verið hér mikið velmegunarskeið. Hér hefur verið hagvöxtur, vöxtur á hagnaði fyrirtækja hefur verið meiri en nokkurn tíma fyrr, launahækkanir verið meiri en nokkurs staðar í nágrannalöndunum og meiri kaupmáttaraukning en nokkurs staðar annars staðar. Það er einmitt árangurinn af þessu umhverfi, af þessu lagaumhverfi sem hefur sannað sig. Það er þess vegna sem við höfum efni á því að bæta kjör fólks, það er þess vegna sem við höfum efni á því í þessu frumvarpi sem nú liggur fyrir samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar að bæta kjörin, bæta framlögin til samhjálparinnar um yfir 10% að raungildi. Þetta er málið sem þetta snýst um. Og ríkisstjórnin hefur sannarlega verið að fylgja fram ákveðinni stefnu og hefur ekki farið neitt í launkofa með hver sú stefna væri.

Því er það undarlegt þegar svo ágætur maður eins og Einar Már Sigurðarson, talsmaður Samfylkingarinnar, kemur hér og gerir að umtalsefni að óstjórnin í ríkisfjármálum sé óendanleg og vitnar í Seðlabankann um að ríkisstjórnina hafi skort bæði þrek og þor til að taka á ríkisfjármálunum til þess að passa upp á að það væri ekki þensla í ríkisfjármálunum. Hvaða þrek var það sem vantaði, hvaða þor var það sem vantaði? Átti að taka niður hvað, framlög til menntamála, framlög til heilbrigðismála, framlög til félagsmála, til samgöngumála? Hvar var það sem þrekið og þorið þraut? Hvar var það sem ríkisstjórnin brást Seðlabankanum og þeirra stefnu? Hvar var það? Ég veit það ekki, það kemur ekki fram, virðulegi forseti, það hefur enginn þeirra sagt það, en þeir virðast hafa mikinn áhuga fyrir því að svo sé.

Það kemur líka fram í sömu ræðu, og vitnað er í Seðlabankann, að það sé óvarleg og röng tímasetning á lækkun matarskattsins svokallaða, og vitnað enn í Seðlabankann, að það sé óheilbrigt vegna þess að þá geti kaupmáttur almennings vaxið. Það var talsmaður Samfylkingarinnar sem talaði. Það var hann sem las upp úr umsögn Seðlabankans. Ég spyr enn og aftur: Er Samfylkingin búin að fá Seðlabankann sem talsmann sinn, eða hvað? Hvernig standa þessi mál? Hvað á að halda að sé gagnrýni þeirra og hvað ekki?

Einnig var sagt áðan að í því góðæri sem hefur sannarlega gengið yfir Íslandi hafi ríkisstjórnin brugðist gjörsamlega, svo ég taki það orðrétt eftir, brugðist gjörsamlega að treysta grunn velferðarsamfélagsins. Hvernig getur ein ríkisstjórn brugðist gjörsamlega í því að treysta grunn velferðarsamfélagsins? Hver er þessi grunnur, hver er grunnur velferðarsamfélagsins? Velferðarsamfélagið, virðulegi forseti, hvílir á atvinnurekstri Íslendinga, á efnahagslífi Íslendinga, það hvílir þar og hvergi annars staðar. Hefur atvinnulíf Íslendinga verið að visna á umliðnum árum? Hefur það allt verið að drabbast niður? Annað sýna tölurnar. Þær sýna að afkoma íslenskra fyrirtækja, til allrar guðslukku, hefur farið batnandi frá ári til árs. Þau hafa verið að bæta sig og efla á allan hátt, þ.e. fyrirtækin og atvinnureksturinn sem er grundvöllurinn að velferð Íslendinga. Hann hefur ekki verið að visna, alls ekki.

Þetta skrýtna tal, virðulegur forseti, þessa ágæta fólks í stjórnarandstöðunni vekur dálitlar spurningar í huga mínum. Hvað er það sem stjórnarandstaðan vildi sagt hafa? Hvað er það sem stjórnarandstaðan vill berjast fyrir? Er það að hækka velferðarmálin um 7,4 milljarða núna meira en við erum að gera? Vel kann að vera að það sé hið besta mál. En bíðum við, er það skynsamlegt eða liggja fyrir rök um það? Það getur vel verið, ég ætla ekki að þreyta menn eða þrasa um það. Ég bendi á að það hefur aldrei, menn finna ekkert dæmi þess í Vestur-Evrópu á síðasta áratug eða einum og hálfum áratug um nokkurt samfélag sem hefur aukið meira framlög sín til velferðarmála en hið íslenska. Það þykir mörgum skrýtið þegar við flettum því í gegn og ég hef farið með það áður á þinginu en menn vilja ekki trúa þeim tölum.

Hvað halda menn að sé nú mesta hækkunin á síðustu tíu eða fimmtán árum? Það er alveg sama hvort við tökum tíu ár eða fimmtán ár. Mesta raunhækkun til eins málaflokks á Íslandi er — til hverra skyldi það nú vera? Veit það einhver? Nei, það vill enginn vita það af því að það passar ekki inn í þá mynd sem menn eru að reyna að búa til, vegna þess að það er einmitt til þeirra sem lakast standa sem peningarnir hafa farið mest. Það vill enginn vita, það passar ekki fyrir einhverjar hetjur sem eru að bjóða sig fram í prófkjörum fyrir hina og þessa flokka eins og Vinstri græna að koma opinberlega og segja: Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Þeir skammast sín fyrir að vera Íslendingar, þessar hetjur.

Nei, það er til málefna fatlaðra sem langmesta raunaukningin á Íslandi er, alveg sama hvort það er á síðustu fimm, tíu eða fimmtán árum. Svo skammast þeir sín fyrir að vera Íslendingar, þessir menn. Ég held að það sé best að þeir haldi bara áfram að skammast sín fyrir að vera til. Ég held að það fari best á því.

Virðulegur forseti. Eins og jafnan áður er það þannig að í þeim tillögum sem liggja fyrir við 2. umr. fjárlaga og koma frá meiri hluta fjárlaganefndar og að hluta til frá ríkisstjórninni, þetta er svona sameiginlegur flutningur, er það hefðbundið og gegnumgangandi að þær ganga mjög mikið út á byggðamálin. Ég hef sagt hér áður að það er eins og fjárlaganefnd Alþingis sé orðið það eina sem eftir stendur af byggðamálum á Íslandi. Menn veigra sér orðið við því að þora að standa frammi fyrir því að hjálpa og styrkja íslenska byggð. Það hefur því komið í mjög auknum mæli á fjárlaganefnd að standa einmitt fyrir mjög mörgum og margvíslegum verkefnum sem ríkið er að styðja og styrkja á landsbyggðinni.

Við höfum áður farið í gegnum það hvert aðalþemað hefur verið. Það hefur gengið út á menntamálin, það hefur gengið út á símenntunarstöðvarnar, það hefur gengið út á að efla framhaldsskólana, það hefur gengið út á að efla þekkingarsetrin, það hefur gengið út á að efla þá vísa að háskólastofnunum sem hafa víða verið að stinga niður fæti á Íslandi til mikillar blessunar og mikils styrks fyrir byggðirnar. Þetta ásamt fjölmörgu öðru hefur verið viðfangsefni okkar. Formaður nefndarinnar fór mjög ítarlega í gegnum þá hluti hér í upphafi. Ég ætla því ekki að nefna einstakar tillögur í sjálfu sér í þessu sambandi heldur aðeins minna á þetta mikla byggðaverkefni sem við erum að framkvæma. Ég veit og þekki það í gegnum árin að sannarlega hefur náðst verulegur árangur og ekki veitir af vegna þess að í þeim miklu umhræringum sem eiga sér stað í Vestur-Evrópu og ekki hvað síst á Íslandi, stendur landsbyggðin að sjálfsögðu höllum fæti. Því er oft spurt: Hvernig stendur á þessari stjórnarandstöðu, hvernig má það vera að stjórnarandstaðan sé svona byggðafjandsamleg í afstöðu sinni til margra mála?

Það sem brennur á mér heitast er að nefna nokkur atriði varðandi landbúnaðinn. Það er með ólíkindum hvað hefur heyrst í þessum sal og í tali ýmissa stjórnarandstöðuþingmanna um landbúnaðarmál. Því er haldið fram, virðulegi forseti, aftur og aftur að landbúnaðurinn sé hinn mikli myllusteinn sem sé að draga niður framtíðarhagsmuni Íslendinga. Ótrúleg ósannindi.

Íslensk matvæli eru í dag 5,7% af neysluvísitölunni, þ.e. innlend matvæli. Lífskjör og kaupmáttur Íslendinga hefur verið að vaxa frá um 2–6% á hverju einasta ári síðustu tíu árin með einni undantekningu, árið 2000. Hvað halda menn nú að mikið sé til í því sem haldið er fram að rústa eigi íslenskan landbúnað til að bæta kjörin með innfluttum, niðurgreiddum landbúnaðarafurðum? Það kann að vera, virðulegi forseti, að þess séu dæmi og verið er að vinna að því að afnema það að á ýmissi „gourmet“ matvöru og ýmissi unninni kjötvöru séu óttalega vitlausir ofurtollar, sem er alveg sjálfsagt að taka í burtu, enda eru þeir bara fyrir misskilning að mínum dómi og eiga ekkert að vera og hafa ekkert að segja.

Aðalatriðið er hitt að við verjum landbúnaðinn gagnvart mjólkuriðnaðinum og stöndum að því með honum að hann nái því að vinna enn undir búvörulögunum og að mynda hér eitt samlag sem er svo gríðarlega nauðsynlegt að það hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Danir og Svíar vita að Danmörk er ekki nógu stór, Svíþjóð er ekki nógu stór, þess vegna mynda þeir eitt samlag til þess að reyna að standa vörð um danskan og sænskan mjólkuriðnað. Hvers vegna gera þeir þetta? Vegna þess, virðulegur forseti, að afkoman í mjólkuriðnaðinum í Evrópu og Ameríku byggist á unninni mjólkurvöru, þar liggur álagningin. Alls staðar er nýmjólkin seld í raun verulega undir kostnaðarverði.

Ef við opnuðum Ísland og yrðum við kröfum þessara vitringa að opna Ísland fyrir unnum mjólkurafurðum gætum við kannski fengið meira úrval af ostum og kannski eitthvað ódýrari osta. En hvað mundi gerast? Möguleikarnir til að reka íslenskan mjólkuriðnað mundu hrynja. Við yrðum að vísu að skaffa okkur innlenda nýmjólk, en hvað yrði hún? Hún yrði kannski helmingi dýrari en hún er í dag. Þetta er því villukenning sem er beinlínis til þess að eyðileggja landbúnaðinn og stuðla og vinna að því að kjör fólksins versni en batni ekki.

Svo koma virðulegir prófessorar sem kunna að reikna það út réttilega, eins og flestir sem kunna litlu margföldunartöfluna gætu gert líka, að þar sem íslenskur landbúnaður er ekki samkeppnisfær við Evrópu sé rétt að leggja hann niður því að þá mundu menn fara að vinna arðbærari störf. Þetta er alveg rétt lagt saman, en hverju gleyma þessir góðu menn? Þeir gleyma því að á bak við íslenskan landbúnað er landsbyggðin öll, þ.e. að við byggjum þetta land. Ég fullyrði, virðulegur forseti, að ef við hættum að byggja landið, ef við rústuðum íslenskan landbúnað mundu framlög okkar til félagsmála margfaldast miðað við þá styrki sem við erum að veita íslenskum bændum. Það er fer mjög ofsögum af því hvaða styrkja íslenskur landbúnaður nýtur.

Sannleikurinn í því máli er sá að í ár eru styrkirnir til landbúnaðarins 8.509 milljónir samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir eða rétt um 2,3% af frumvarpinu. Það eru ekki 14.000 milljónir eða 16.000 milljónir, eins og menn hafa látið hafa eftir sér og meira að segja skrifað í blöð. Það eru 8,5 milljarðar, það er rétta talan. Þetta eru 2,3% af ríkisútgjöldunum. Þau útgjöld hafa verið að lækka hlutfallslega síðustu tíu, fimmtán árin. Þau hafa lækkað verulega. Á tíunda áratug 20. aldar voru þessi útgjöld kringum 4,5–5,5% af ríkisútgjöldunum, hafa í raun lækkað þannig og eðlilega í takt við það að íslenskt efnahagslíf hefur verið að vaxa verulega hratt og mikið. Þrátt fyrir að landbúnaðurinn hafi virkilega staðið sig vel, framleiðnin og framleiðslan verið að aukast, er landbúnaðurinn í sjálfu sér minna hlutfall af heildarframleiðslunni en áður. Ég býst við að hann hafi verið fyrir 20 árum kannski um 4,5–5%, gæti verið kominn niður í — ja, ég þekki það ekki nákvæmlega, ég mundi giska á undir 2%, mér þætti það sennilegt.

Það er því allt eðlilegt og heilbrigt sem er að gerast hér. Við erum að styrkja framleiðsluna, enda höfum við fullan rétt á því, þjóð sem býr á 66. breiddargráðu norðlægrar breiddar. Ég minni á að þegar Finnar og Svíar gengu í Evrópubandalagið var gerður samningur um styrkingu til sænsks og finnsks landbúnaðar, og þá var miðað við 62. breiddargráðu, þar mætti styðja hann beint með framleiðslutengdum bótum. Við Íslendingar eigum því allan rétt á að styðja landbúnað okkar, enda höfum við af því augljósan hag.

Ísland er í hópi þeirra þjóða sem samkvæmt opinberum mælingum styrkja landbúnað sinn mest. Þær opinberu mælingar fara þannig fram að tekinn er beinn styrkur til landbúnaðarins, auk þess sem menn meta áhrif aðflutningsgjalda og tolla og reyna að setja það upp í huganum hvert verðið væri á frjálsum markaði og sagt sem svo: Þetta er hlutur bóndans og þetta er hlutur styrksins. Nú er enginn frjáls markaður til á Íslandi og ekki nokkur leið að koma honum við en þetta er út af fyrir sig ágæt aðferðafræði og ég ætla ekki að bera neitt á móti henni, en samkvæmt þessu erum við í hæsta flokki — ásamt hverjum? Ásamt Norðmönnum, Japönum og Svisslendingum. Við erum mjög svipaðir og höfum aðeins sveiflast til og frá milli ára.

Hvernig má það vera? Eru Svisslendingar svona vitlausir að vera að styðja sinn landbúnað? Hvernig stendur á því að þeir gera það? Það er alveg auðséð hvers vegna þeir gera það, þeir eru bara að tryggja byggð í landi sínu. Af hverju eru Norðmenn að styðja landbúnað sinn? Til að tryggja byggð í landi sínu. Af hverju er hin ríka þjóð Japanar að styrkja landbúnað sinn á þeirri hrjóstugu eyju sem þeir búa á? Til að tryggja byggð í landi sínu. Þetta fólk kann alveg að reikna. Það er ekki skortur á reiknikunnáttu sem veldur þessu. Það er mat þeirra á því hvernig á að standa best að og hvernig á að varðveita það að eiga þetta land og byggja það. Það eru mjög mikil ósannindi þegar menn segja að landbúnaðurinn hafi ekki fylgt eftir þeirri hagræðingu og þeirri framför sem hefur orðið í öðrum íslenskum atvinnuvegi. Það er vegna þessa sem mér finnst svo óskiljanlegt hvernig á því stendur að stjórnarandstöðunni, með Samfylkinguna náttúrlega alltaf í broddi fylkingar, dettur í hug þessi landsbyggðarfjandsamlega stefna sem þeir eilíflega klifa á sem byggist meira og minna á ósannindum eða algjörum ósannindum. (Gripið fram í.)

Mér er líka oft hugsað til þess þegar ég heyri stjórnarandstöðuna tala um iðnaðarmál og framtíð Íslands, hvernig í ósköpunum mennirnir fara að komast að slíkri niðurstöðu. Hér í þingsölum hefur ríkt hin mesta fóbía, hin mesta barátta gegn stórvirkjunum og eðlilegri uppbyggingu stóriðjuvera. Það kann að vera svo, virðulegur forseti, að það bíði okkar að sjá að þeir ágætu íbúar Hafnarfjarðar felli það að þar verði stækkað álver. Það er þá þeirra vandamál. Ég veit að draumalandið er annars staðar úti á landi. Menn vita hversu gríðarlega þýðingu bygging álversins í Reyðarfirði hefur haft fyrir alla byggð á Austfjörðum og er það mikil blessun að vita til þess, enda mjög arðsamur atvinnurekstur. Ísland á þessar miklu auðlindir, orkuna, og er þannig með tilliti til framtíðarinnar — af því að þetta er nýtanleg orka, þetta er orka sem ekki eyðist — kannski alríkasta þjóð heimsins. Framtíð okkar byggist meira og minna á því að við getum einmitt nýtt hana og eigum að nýta hana.

Fyrirhugað er að virkja á Norðausturlandinu jarðvarmastöð og setja upp álver við Húsavík. Það verður mikil blessun fyrir Þingeyjarsýslur og styrkir byggðirnar á Norðausturlandi. Þeim áföngum ber að fagna mjög. Það þarf að styrkja byggðirnar og á að styrkja byggðirnar. Fjandskapurinn sem liggur í hinum pólitísku andstæðingum er óskiljanlegur. Hér koma menn og halda fram ótrúlegum hlutum, segja að við virkjanaframkvæmdir á Íslandi hafi verið unnin hin mestu hervirki, hér hafi verið eyðilögð íslensk náttúra o.s.frv. Allt saman tilbúningur og allt saman ósannindi. Menn skulu ferðast með Þjórsá og fara upp með henni, skoða orkuverin og segja hvaða tjón hefur verið unnið. Hefur fjallkonunni verið nauðgað eða hvar liggur þetta mikla tjón? Hvar er þessi ofsalegi skaði? Ég hef aldrei vitað annan eins grát og yfir þessu Hálslóni, þeim 57 ferkílómetrum, sem er mestmegnis grjót og urð en þó nokkuð af mosaþembum. Það var nú meira tjónið sem Ísland varð fyrir, Ísland er bara að sökkva í sæ, hrópuðu þeir hérna, fólkið sem stendur hér oft á fimmtudögum og er að syngja og kyrja í hádeginu fyrir okkur guðvorslandsins og ögrumskorið og öll þau fallegu ljóð.

Hvað erum við að vinna hér, virðulegi forseti? Við erum að vinna að meiri landgræðslu, meiri skógrækt en nokkurn tíma í sögu Íslands með þeim árangri að núna loksins erum við að ná því að gróðurfar Íslands er að aukast, við höfum ekki tapað eins og við höfum verið að gera áratugum saman. Við erum að vinna að stórum verkefnum sem verða til þess að við munum sigra í þeirri miklu baráttu við þau náttúruöfl sem eru okkur svo erfið, (Gripið fram í.) fallvötnin og fossarnir, svo ég tali nú ekki um eldfjöllin sem við eigum alltaf eftir að glíma við alla tíð. Ég undrast þann óskaplega fjandskap í stjórnarandstöðunni í garð slíkra framfara, sem er meginvon Íslands til framtíðarinnar að nýta orkuna, meginvon landsbyggðarinnar að hún njóti þeirra miklu kosta sem hún býr yfir, meginvonin til að tryggja hér stöðuga og sterka byggð. Þess vegna undrast ég svo mikið hvernig í ósköpunum stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega koma hér fram vikum, mánuðum og missirum saman með þá fjandsamlegu stefnu sem á ekkert skylt við veruleikann, ekkert nema tilfinningaþrungið fólk, tilfinningaþrungið gagnvart einhverri náttúru sem menn fyrir misskilning halda að verið sé að misbjóða. En það er verið að efla og styrkja og byggja upp íslenska náttúru, það er ekki verið að misbjóða henni á neinn hátt.

Út á það ganga þessar tillögur, virðulegi forseti, svo ég fari aftur í gegnum það. Þær ganga út á að styrkja byggðirnar. Það er gegnumgangandi þema við þennan tillöguflutning. Styrkja íslenskar byggðir þannig að við getum varið þær til framtíðar, að við byggjum þetta land þannig að við eigum landið því að öðruvísi verðum við ekki til sem þjóð.