Fjárlög 2007

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006, kl. 18:05:48 (2197)


133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:05]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í dag höfum við rætt um fjárlög íslenska ríkisins og fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007. Framsögumenn stjórnar og stjórnarandstöðu hafa gert grein fyrir áherslum ríkisstjórnarinnar og sameiginlegu nefndaráliti stjórnarandstöðunnar og þeim breytingartillögum sem stjórnarandstaðan leggur fram.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þær tillögur en vil þó segja að ég tel að að þessu sinni, eins og kannski oft áður en þó kannski sérstaklega þessa dagana, séu þær blikur á lofti að það hljóti að vera erfitt fyrir fjárlaganefnd og ríkisstjórn að standa að fjárlagagerð næsta árs. Svo margar blikur eru á lofti sem hljóta að gera allan grunn að ábyrgri fjárlagagerð fyrir árið 2007 í mjög lausu lofti, sama hversu menn vilja vanda sig og vera ábyrgir í vinnu sinni. Stjórn efnahagsmála er þannig háttað um þessar mundir hvað varðar stöðu íslensku krónunnar undanfarna daga, hvað varðar skuldastöðu þjóðarbúsins, hvað varðar þá háu vexti sem hér eru, þá er svo margt í umhverfi okkar sem þolir ekki meira, sem komið er alveg að ýtrustu mörkum. Við þessar aðstæður má lítið út af bregða svo ekki verði kollsteypa eða þær blikur á lofti sem geta komið á röð atburða sem geta valdið miklu efnahagslegu tjóni, bæði fyrir ríkissjóð og ekki síður fyrir fyrirtækin í landinu.

Varað er við áframhaldandi spennu á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi. Fremstur í flokki þar hefur verið Seðlabankinn sem ber að vakta efnahagsstjórnina og efnahagslífið og vera til leiðbeiningar um hvernig halda eigi verðbólgu innan ákveðinna marka, sem er 2,5%, og er sá aðili sem á að gefa ríkisstjórninni leiðbeiningar.

Nú eru blikur á lofti. Ekki hefur verið farið að ráðum Seðlabankans allt undanfarið ár og undanfarin tvö, þrjú ár þar sem Seðlabankinn hefur varað við því að fara út í miklar framkvæmdir eða miklar fjárfestingar og ef þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar, stóriðjustefnu og framkvæmdastefnu á öllum stigum, verður fylgt, að fara þá mjög varlega hvað varðar ríkisútgjöld og hefur Seðlabankinn lagt til að dregið verði saman í opinberum rekstri, bæði í þjónustu og framkvæmdum.

Hæstv. forseti. Ekki hefði ég getað ráðlagt hæstv. ríkisstjórn svo nokkru nemi hvar draga ætti saman í opinberum rekstri. Svo margar stofnanir hafa nú verið færðar frá hinu opinbera og yfir í einkarekstur eða komið af höndum ríkisins að það sem eftir er eru stofnanir sem ég tel að við séum að mestu sammála um að eigi að vera í ríkisrekstri eða eigu hins opinbera og því erfitt að sjá hvar þar eigi að draga saman. En það sem augljóslega er hægt að gera og hefði átt að horfa á fyrir þremur árum var að horfa á þær framkvæmdir sem segja má að hafi verið kveikjan að því þensluástandi sem ríkir í dag, þ.e. þegar ríkisstjórnin og meiri hlutinn á hv. Alþingi tók þá ákvörðun að fara í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, mestu byggðaáætlun allra tíma eða stórframkvæmdirnar fyrir austan. Bara við að það lá í loftinu að af þessu gæti hugsanlega orðið var alveg nóg til að koma af stað bylgju væntinga og svo mikilli bjartsýni að menn fóru í raun og veru fram úr sér. Þegar svo við bættist að bankarnir opnuðu sjóði sína fyrir húsbyggjendum og lánuðu ótæpilega varð þetta eins og bensín á eld, eins og við þekkjum öll, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem rokið hafa upp heilu hverfin. Sagt er að stór hluti þeirra sem vinna við byggingar þessara húsa núna séu erlendir verkamenn sem hingað hafa komið til að gera gullgrafaraæðið framkvæmanlegt.

Það er erfitt að snúa til baka. En því miður verður segja, og það er rétt að það komi hér fram, að næsta ár getur líka orðið erfitt fyrir marga fjölskylduna þar sem lánin voru svo auðfengin og margir hafa eflaust í bjartsýni farið í meiri fjárfestingar en þeir raunverulega réðu við.

Blikur eru á lofti hvað varðar launaþróun í landinu. Það eru líka blikur á lofti hvað varðar áframhaldandi háa vexti af þeim lánum sem íbúðareigendur hafa tekið og það má lítið út af bregða til að fólk missi ekki þær eignir sínar eða þann hluta í þeim sem þeir hafa þegar fjárfest í. Það er því erfitt að afgreiða fjárlög við þessar aðstæður. Segja má að kannski sé það heimatilbúinn vandi hjá núverandi ríkisstjórn að hafa komið sér í þessar aðstæður en svona liggur landið fyrir okkur sem vinnum að fjárlagagerðinni fyrir næsta ár.

Varað er við öllum hugmyndum um frekari stóriðju. Það eru kannski háværustu aðvörunarorð Seðlabankans, og annarra sem fylgjast með íslensku efnahagslífi, að við þolum ekki frekari eða meiri spennu á því sviði. Þetta eru svo stórar framkvæmdir að það verður að taka þær alveg sérstaklega út.

Það er ekki hægt að líkja stóriðjuframkvæmdum við neitt annað. Þær eru alveg sér á báti vegna stærðar og umfangs og inngrips inn í allt. Eina leiðin til að reyna að vinda ofan af þessu er því að búa sig undir að taka hlé á þessari hugmyndafræði, gefa ekki undir fótinn með að haldið verði áfram, viðhalda ekki þessum væntingum, slaka á og vinna vinnuna frá grunni eins og hefði átt gera áður en farið var í síðustu stórvirkjun, Kárahnjúkavirkjun, þ.e. að klára þá vinnu sem snýr að umhverfinu, náttúrunni og ná sátt um þau svæði sem við viljum vernda og erum tilbúin til að taka undir frekari virkjanir hvort heldur það eru vatns- eða gufuaflsvirkjanir og ákveða í hvað við viljum nota þá takmörkuðu orku sem eftir er. Við verðum að gefa okkur tíma til þess arna, þ.e. að fara í þessa vinnu og við þurfum á því að halda út af efnahagslífinu einnig.

En það eru fleiri blikur á lofti því að innstreymi erlends vinnuafls hefur verið mikið. Mikið hefur verið fjallað um það núna undanfarið bæði í fjölmiðlum og á hinu háa Alþingi af ýmsum ástæðum. Hingað kemur ekki erlent fólk í atvinnuleit, þ.e. það er ekki ráðið hingað til lands nema hér séu verkefni sem kalla á vinnuafl umfram það sem Íslendingar geta sjálfir séð fyrir. Því getum við sjálf og ein stjórnað því hversu mikið erlent vinnuafl streymir inn í landið. Með því að draga úr þessari spennu drögum við líka úr þörf á erlendu vinnuafli. Erlent vinnuafl hefur bjargað okkur á þessu ári en því hafa fylgt ýmsir ókostir líka. Fyrir íslenskt verkafólk er þetta þegar farið að koma niður á launatöxtum, þ.e. hjá þeim sem vinna við byggingaframkvæmdir og eru í störfum sem þenslan hefur haft hvað mest áhrif á. Sennilega hefur stærstur hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað hefur komið verið ráðið á lægstu umsömdum töxtum og því hefur borið á því að íslenskir verkamenn hafa orðið að sæta því annaðhvort að fara á þessa sömu taxta sem hafa fram til þessa ekki verið viðmiðunartaxtar, þ.e. að fara á byrjunarreit eins og hinir erlendu verkamenn, eða þá að þeir geta tekið pokann sinn því svo auðvelt er að ráða erlenda verkamenn í þeirra stað. Þetta er mjög svört og ljót hliðarverkun af innstreymi erlends vinnuafls hingað og það er atvinnurekendum og okkur sjálfum til skammar að notfæra okkur það að semja í raun um svo lága taxta að vart sé hægt að framfleyta sér á þeim. Í þeirri trú hefur verkalýðshreyfingin undirritað samninga um að það væru engir ráðnir á þessa lágu taxta. En nú er raunin önnur og heyrst hefur úr röðum talsmanna launþega að fara verði í verulegar kjarabætur strax á næsta ári og hækka laun og lægstu taxta um allt að 50%. Ég vil nefna þetta hérna, hæstv. forseti, því að staðan sem við erum búnir að koma okkur í kallar á aðgerðir. Þjóðin kallar á að unnið sé í málum innflytjenda, erlendra verkamanna. Ef við ætlum að búa hér í friðsömu landi áfram þá verðum við að sjá til þess að þeir erlendu verkamenn sem hingað koma hafi sömu kjör og Íslendingar, búi við svipaðar aðstæður eða sömu aðstæður og að þeir séu ekki notaðir til að lækka laun íslenskra launþega, notaðir sem svipa á íslenska iðnaðarmenn.

Þetta hefur tíðkast á þeim sviðum atvinnulífsins þar sem erlent vinnuafl hefur komið. Á öðrum sviðum hefur verið mikið launaskrið og alveg ótrúlegt til dæmis á fjármálamarkaðnum eða fjármálaheiminum þaðan sem maður heyrir launatölur sem eru á heilli mannsævi svo hátt uppi að maður varla skilur að einstaklingar geti komið þessu í lóg eða að mánaðarlaun séu árslaun eða margra ára laun annarra. En svona hefur þetta þróast. Ég heyrði í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar fyrr í dag að þetta finnst honum í raun vera hið besta mál, þarna sé um að ræða hinn frjálsa markað og við þessu sé ekkert að gera. Honum finnst að þetta verði bara að fara sína leið og þróast í þá átt sem markaðurinn sjálfur vill þannig að hann er trúlega mjög ánægður með að hér hafi myndast stór gjá á milli almennra launamanna, verkamanna og iðnaðarmanna og þeirra sem lifa svo í heimi allsnægta í markaðs- og fjármálaheiminum.

En launaskriðið á öðrum sviðum en iðngreinunum hefur valdið spennu og óróa á þeim stofnunum sem eru á sviði umönnunar- og félagsþjónustu. Það hefur verið erfitt að fá fólk til vinnu á þeim töxtum sem í gildi hafa verið og það hefur verið erfitt að halda fólki og sérstaklega hæfu fólki þannig að nú má segja að þetta gildi um alla leikskóla vítt og breitt um landið, að þetta gildi um félagsþjónustuna hjá sveitarfélögunum og þetta gildi líka um öldrunar- og heilbrigðisstofnanir, þ.e. að erfitt sé að fá fólk, halda fólki. Það hefur verið meðal annars hluti af rekstrarerfiðleikum þessara stofnana hvað þær hafa orðið að yfirborga eða greiða hærri laun en gert var ráð fyrir við afgreiðslu síðustu fjárlaga þar sem erfitt hefur reynst að halda rekstrinum gangandi. Því miður hefur ekki öllum stofnunum tekist að ráða nýtt fólk eða fleira fólk þannig að stofnununum hefur verið haldið gangandi með því að fá starfsmenn til að vinna í yfirvinnu, bæta á sig vinnu, og fyrir vikið eru vinnustaðirnir orðnir, má segja, þrúgandi fyrir starfsfólkið. Álag er mikið og aðstaðan slík að enginn hefur óskað eftir því eða kært sig um það. En fólk hleypur ekki út af stofnunum þar sem sjúklingar og aldraðir liggja. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég dáist að þrautseigju og dugnaði þess fólks sem stendur eftir og leggur á sig mikla vinnu og sýnir þrautseigju við að halda þessum stofnunum gangandi.

Þá langar mig að nefna framkvæmd fjárlaga. Ég nefndi það í upphafi að við núverandi aðstæður hlýtur að vera mjög erfitt að leggja fram frumvarp til fjárlaga og halda því fram að þau séu ábyrg vegna óróans í okkar umhverfi. Á undanförnum árum hef ég fylgst með því að stofnanir sem eru mjög ábyrgar í rekstri hafa lagt fram rekstraráætlun, fjárlagabeiðnir fyrir sín ráðuneyti og sem þær hafa talið vera svona næst því að stofnunin sinnti sínu lögboðna hlutverki. En þegar beiðni viðkomandi stofnunar birtist síðan í fjárlagafrumvarpinu þá er hún allt önnur og jafnvel oftast lægri en það sem viðkomandi stofnun bað um. Þá er það bara sjálfgefið að að ári liðnu, ef lagt er upp með fjárlög sem viðkomandi stofnun telur að dugi ekki fyrir lögboðnum rekstri, þá hlýtur að koma halli eða skekkja inn í reksturinn nema því aðeins að dregið sé úr starfseminni. En það er bara ekki þægilegt fyrir allar stofnanir að gera það. Sú krafa hefur verið að stofnanirnar sýndu aðhald, sparnað og jafnvel niðurskurð. En það hefur reynst þeim mjög erfitt. Ég mælist til þess, hæstv. forseti, að næsta ríkisstjórn — þá er að vísu ekki sanngjarnt að beina orðum til hæstv. forseta, fulltrúa þessarar ríkisstjórnar — ég óska þess að næsta ríkisstjórn læri af þeirri fjárlagasmíð sem við höfum búið við og horfi betur á tillögur og treysti þeim stofnunum sem heyra undir ríkið og ríkissjóð og fari nær þeirra beiðnum en gert er í dag. Ég trúi því að þannig værum við nær raunveruleikanum og nær því að vera með fjárlögin eins og þau eiga að vera, þ.e. innan ramma þannig að stofnanir fari ekki fram yfir eins og ríkisendurskoðandi hefur margsinnis bent á.

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan leggur áherslu á eingöngu eitt mál og það er að bæta hag aldraðra og öryrkja og hún hefur fylgt eftir þingsályktunartillögunni sem hún lagði fram við upphaf þings. Þetta er sú stefnumótun sem við höfum unnið saman og stöndum að. Við teljum að í raun sé það okkar framlag til að hafa áhrif á afgreiðslu fjárlaga fyrir 2007. Takist okkur að ná eyrum stjórnarliða þannig að þeir átti sig á því að með því að fara að þessum hógværu kröfum aldraðra sem stjórnarandstaðan hefur tekið upp og gert að sínum þá mun kostnaður ríkissjóðs ekki hækka eins mikið og þessar tölur segja til um því um leið og aldraðir eins og aðrir geta farið að hreyfa sig og njóta aðeins lífsins þá kemur þetta auðvitað fram bæði í virðisauka og fer út í neysluna og eins þá með sköttum af tekjum ef aldraðir og öryrkjar ná því sem þeir óska eftir, þ.e. að geta verið frekari þátttakendur úti í atvinnulífinu án þess að vera hegnt fyrir það með því að lenda bæði í skerðingum í bótakerfinu og eins skattalega.

Það sem ekki hefur verið sérstaklega fjallað um hérna og kemur ekki fram í breytingartillögum minni hlutans eða stjórnarandstöðunnar er Framkvæmdasjóður aldraðra. Hann var settur á eins og nafnið bendir til til að standa undir framkvæmdum við öldrunarstofnanir. En smám saman var farið að skerða þennan sjóð og taka í rekstur þegar öldrunarstofnanir áttu í rekstrarerfiðleikum eins og þær hafa nú löngum átt. Það gekk svo langt að fyrir tveimur árum, að mig minnir, var rekstrarhlutfallið — ætli það séu ekki um þrjú ár síðan? — rekstrarhlutfallið komið alveg upp í 50%. Jú, það eru um þrjú ár síðan því að á undanförnum tveimur árum hefur verið reynt að draga úr hlutfalli til reksturs og setja meira til framkvæmda. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags við aldraða eða sameiginlegrar yfirlýsingar þeirra var ákveðið að Framkvæmdasjóður aldraðra yrði eingöngu notaður til framkvæmda. En það á ekki að gerast fyrr en árið 2008. Margt í þeim tillögum og samkomulagi sem hér birtist í frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar hefur ríkisstjórnin endurskoðað og lagfært nú alveg hreint á síðustu metrunum, þremur dögum eftir að hún lagði fram frumvarpið, þannig að þessi frestun til 2008, 2009 og 2010 er ekki jafnáberandi og var í viðkomandi frumvarpi. En ég hefði viljað að framkvæmdasjóðurinn yrði allur notaður til framkvæmda á næsta ári en það ekki látið bíða til 2008.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara frekar yfir tillögurnar um kjörin. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd hafa gert það mjög vel en ég ætla aðeins að nefna nokkur önnur atriði. Það er varðandi Landspítala – háskólasjúkrahús sem var búinn að lýsa því hvernig fyrirsjáanleg rekstrarstaða yrði nú í lok árs. Staða spítalans var mjög góð árið 2004–2005 en hefur farið versnandi allt frá síðasta ári og var mjög slæm á þessu ári. Nú í vor var fyrirsjáanlegt að það stefndi í mikinn halla. Það var af ástæðum sem stofnunin sjálf réð lítið við, það var bæði gengisþróun, það var launaþróun eins og ég kom inn á áðan og það var hækkun á lyfjum. Allt þetta jók skuldastöðuna og gerði Landspítala – háskólasjúkrahúsi erfitt fyrir og þar ofan á bættust erfiðleikar við að geta útskrifað þá sem voru búnir að fá þjónustu og eftirmeðferð og þá sérstaklega aldraða.

Þetta stefnir í betra horf núna þótt það sé alls ekki orðið nógu gott og það þarf að halda enn frekar áfram á þeirri leið á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega, að efla heilsugæsluna og heimahjúkrun og þverfaglega vinnu milli heilsugæslu og félagsþjónustu þannig að aldraðir og aðrir þeir sem þjónustu hafa fengið á sjúkrahúsum geti farið heim og verið lengur heima. Þetta er mjög nauðsynlegt og ég lít á það skref sem tekið hefur verið sem byrjunarskref. Það voru tvö stór skref tekin núna, það er milljarður til að gera upp árið 2006 í fjáraukalögum og milljarður til að bæta rekstrarstöðu sjúkrahússins núna, viðurkenning á því að þetta sé raunveruleikinn þannig að sjúkrahúsið fari inn í næsta ár með betri rekstrarstöðu. Vonandi tekst stofnuninni það án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar og vonandi þannig líka að hægt sé að bæta starfsaðstöðu og draga úr álagi á starfsmönnum stofnunarinnar og þá sérstaklega í hjúkruninni sem hefur verið alveg gegndarlaust, í raun og veru alveg óþolandi ástand sem búið er að ríkja þar lengi.

Það er enn þá langt í land á mörgum sviðum innan stofnunarinnar sem við sem þjónustuþegar viljum að verði bætt úr. Við fylgjumst reglulega með og vitum hversu langir biðlistar í hinar ýmsu aðgerðir eru og enn eru óásættanlegir biðlistar fyrir þá sem þurfa á gerviliðaaðgerðum að halda, hvort sem það er á Landspítalanum, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri eða Sjúkrahúsinu á Akranesi en það er á þeim stofnunum sem slíkar aðgerðir eru gerðar. Þetta er ástand sem þarf að laga og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort biðlistar inn á Landspítalann í þessar aðgerðir munu styttast við það að stofnunin fær þennan aukna stofn í reksturinn.

Hvað varðar heilsugæsluna í Reykjavík þá hefur hún líka verið að eflast að undanförnu en samt þarf heilsugæslan, bæði hér í höfuðborginni og úti um allt land til muna meira fjármagn en hún fær í dag. Það kemur fram í hvert einasta skipti sem við tölum um fjárlögin að þetta er eina leiðin til að draga úr heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustu í landinu, þ.e. að efla heilsugæsluna. Að gera hana svo aðgengilega að hver einasti íbúi hafi heilsugæslulækni, viti hvert hann eigi að fara, viti að það taki ekki nema stuttan tíma að komast að á viðkomandi heilsugæslustöð, fái þar viðhlítandi þjónustu, að þar sé þverfagleg vinna og að aðgengi að sérfræðiþjónustu sé gott í gegnum heilsugæslustöðina. Hér á höfuðborgarsvæðinu er gott aðgengi að sérfræðingum sem vinna á stofum — og vel á minnst, hæstv. forseti, það er ánægjulegt að sjá að það var aðeins aukið við framleiðslu Tryggingastofnunar til að liðka um samninga við óskilgreinda sérfræðilækna, kom ekki fram hvaða, en þær eru margar sérgreinarnar sem banka upp á hjá Tryggingastofnun ríkisins og krefjast endurskoðunar á samningi, bæði hvað varðar hækkun lyfja og ekki síður fjölgun eininga. Þetta er því nokkuð sem við þurfum að fylgjast með, líka hvernig sérfræðiþjónustan verður á næsta ári, hvort það verða fleiri uppsagnir og hvort sjúklingar sem leita til sérfræðiþjónustunnar muni þá hugsanlega bera meiri kostnað en þeir gera í dag.

Hvað varðar heilsugæsluna þá þarf heilsugæslan úti um land að eiga möguleika á að fá til sín sérfræðinga og það hefur hún ekki í dag miðað við þann ramma sem henni er ætlað, það er staðreynd. Það er núna orðinn skilningur á því að það verði að efla ákveðna þjónustu innan heilsugæslunnar, t.d. geðheilbrigðisþjónustuna. Það er smám saman verið að koma henni á. Það gengur mjög hægt en það hefur verið tilraunastarf í gangi, t.d. uppi í Grafarvogi, norður á Akureyri, á Akranesi, á Suðurnesjum og á fleiri stöðum sem hefur gengið mjög vel. Það er í raun og veru ekki eftir neinu að bíða nema stuðla að því að við höfum sérfræðinga á þeim sviðum sem á þarf að halda. Þar tel ég að menn þurfi að vera mjög vakandi yfir því að efla háskólana, sérstaklega Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sem útskrifa heilbrigðisstéttir, að þessar stéttir séu þá til í landinu til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. En þessi þjónusta, sérfræðiþjónustan heim í hérað, er forsenda þess að heilsugæslan standi undir nafni og dregur úr því að fólk þurfi að fara um langan veg með auknum kostnaði bæði fyrir ríkissjóð og sérstaklega fyrir einstaklingana sjálfa.

Það er önnur stofnun sem hefur fengið náð fyrir augum hv. fjárlaganefndar og það er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem hefur sem betur fer verið að eflast. Þar er framsýnt og dugmikið fólk eins og víða á þessum stofnunum. Stofnunin hefur sett sér mjög háleit markmið við að efla þjónustuna og hefur tekist það, hefur m.a. dregið til sín þjónustu frá nærliggjandi heilbrigðisstofnunum og íbúum hefur líka fjölgað á svæðinu, þar er fjölbreyttari þjónusta en rekstrarfé til stofnunarinnar hefur ekki fylgt þessari þróun. Þetta hefur nú verið viðurkennt bæði í fjáraukalögum og fjárlögum þannig að reksturinn geti að öllum líkindum haldist óbreyttur næsta ár ef ekkert kemur upp á en miðað við fjárlög 2007, þær tillögur sem liggja frammi, þá er stofnuninni ekki gefið neitt svigrúm til að bæta starfsemina, auka starfsemina eða koma með nýtt inn. Það er heldur ekki verið að koma til móts við kröfur neytenda og stofnunarinnar um að bæta tækjabúnaðinn þannig að hægt sé að fá nýtt sneiðmyndatæki. Þetta er dýrt tæki, það kostar 110–112 milljónir en það er nauðsynlegt að það fáist heimild til að fjárfesta í því. Ómtæki er að öllum líkindum komið inn á fjárlögin en til þess að stofnanir eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Austurlands, þ.e. Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, standi undir þeim væntingum sem íbúar svæðisins hafa, þá verða þessar stofnanir að vera það vel tækjum búnar að þær séu samkeppnishæfar við viðhlítandi þjónustu annars staðar. Annars fer fólk burt af svæðinu og það er öllum dýrt og það er algerlega óþarfi að stuðla að því að fólk sæki annað ef bæði þekking er til staðar og þarf ekki annað en að endurnýja þau tæki sem fyrir eru. Hvað varðar viðhald á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þá hefur það haldist alveg óbreytt frá 1993. Ég veit að veðráttan er góð norður á Akureyri en hún er ekki svo góð að það þurfi ekki að viðhalda húsum, bæði að utan og innan.

Það er annað sem ég vil vekja athygli hæstv. forseta og þingheims á en það er sjúkraflugið. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur sérstakan samning varðandi sjúkraflug inn á svæðið og þjónar sjúkrafluginu. Sjúkrahúsið leggur til lækna í flugið þegar á þarf að halda en það er mikill munur á greiðslum samkvæmt þeim samningi og þeim greiðslum sem hafa verið inntar af hendi varðandi sjúkraflug hjá þyrlunni fyrir sunnan. Þetta er erfiður samanburður og eins les maður það að þyrluflugmenn í sjúkraflugi hafi sagt upp störfum. Ég hvet því til þess að sérstaklega verði horft til þess að sjúkrahúsið beri ekki umtalsverðan kostnað af sjúkrafluginu, kostnað sem Landspítali – háskólasjúkrahús, sem er þessi stóra móðurstofnun og við erum að bera okkur saman við, hefur ekki. Ég tel það mjög óréttlátt og það er mikilvægt að stofnanirnar sitji við sama borð þannig að það sé ekki aukakostnaður á stofnanirnar á landsbyggðinni. Eins finnst mér það sanngirnismál gagnvart þeim flugmönnum sem fljúga þessum flugvélum og sjúkraflutningamönnum sem sinna sjúkrafluginu. Sjúkraflutningaskólinn er hluti af þessu stóra dæmi sem þarf að skoða miklum mun betur.

Það er önnur heilbrigðisstofnun sem ég ætla að nefna sérstaklega og það er Heilbrigðisstofnun Austurlands. Heilbrigðisstofnun Austurlands er búin að eiga í miklum erfiðleikum og sérstaklega núna frá því að farið var í hinar miklu framkvæmdir í fjórðungnum fyrir austan. Þeim miklu framkvæmdum og þeirri mannfjölgun sem varð vegna Kárahnjúkavirkjunar, Fjarðaáls og allra annarra umsvifa á svæðinu var ekki fylgt. Stofnunin hefur því verið að safna skuldum og stefndi í það núna undir áramótin að vera með 140 millj. kr. rekstrarhalla. Í fjáraukalögum var samþykkt að greiða til stofnunarinnar fyrir rekstur þessa árs 93 milljónir. Stofnuninni er ætlað að fara inn í mjög svipað ástand og verið hefur á svæðinu með fjölgun íbúa og mikið álag með 50 millj. kr. halla á bakinu. Ég held að það hljóti allir reikningsglöggir menn að sjá að þetta gengur ekki upp. Það hefur margoft verið ályktað um Heilbrigðisstofnun Austurlands, samþykktir hafa verið frá aðalfundi SSA, sveitarfélögunum og frá íbúunum og þeir hafa áhyggjur af stöðu stofnunarinnar.

Rekstraráætlun fyrir næsta ár liggur ekki fyrir en ljóst er að þessar 50 milljónir vantar hvernig svo sem rekstraráætlun kemur út og hvernig hún verður hækkuð. Fjármagn til tækjakaupa á næsta ári er eingöngu 8,4 milljónir, þetta er eins og einn bíll, og þetta eru stofnanir allt frá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, Heilsugæslu- og sjúkrahússtofnuninni á Egilsstöðum og alveg norður í Vopnafjörð, fyrir utan aðrar heilsugæslustöðvar. Það eru 8,4 milljónir í tækjakaup og viðhald. Þarna eins og á fleiri stöðum þarf að endurnýja í mjög dýrum tækjum.

Það sem ég hef áhyggjur af, hæstv. forseti, er að verið er að bæta það reiknilíkan sem hefur verið í gildi hvað varðar rekstur heilbrigðisstofnana, öldrunarstofnana og sjúkrastofnana. Reiknilíkanið hefur verið mjög gagnrýnt að það taki ekki til raunkostnaðar og á meðan reiknilíkanið var látið gilda hafa þessar stofnanir, öldrunarstofnanir þó sérstaklega, verið að safna skuldum. Núna er þetta viðurkennt, þ.e. að reiknilíkanið sem farið hefur verið eftir var ekki rétt og verið er að bæta inn í reiknilíkanið mönnunarlíkani.

Ég hef einnig áhyggjur af því, hæstv. forseti, að hvað varðar framlög til Heilbrigðisstofnunar Austurlands þá á samkvæmt hinu nýja reiknilíkani að reikna framlög á hvert sjúkrarúm 80% af kostnaði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þetta væri í sjálfu sér í lagi ef maður væri nokkuð viss um að rekstrargrunnur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri væri réttur en ég vil, hæstv. forseti, draga í efa að svo sé. Ég held að hann sé vanáætlaður og því er mikilvægt að fylgjast vel með þessum reiknilíkönum, taka þau út um mitt næsta ár og sjá hvert stefnir og grípa þá strax inn í og að það komi þá inn á næstu fjáraukalög bætur til stofnananna þannig að það sigli ekki allt í sama farið. Ef nota á reiknilíkan — í grunninn er reiknilíkanið út af fyrir sig rétt en það verður ekki rétt nema það byggi á réttum rekstrargrunni sem er nær raunveruleikanum en ekki samkvæmt þeirri stöðu sem viðkomandi stofnanir hafa orðið að aðlagast eftir fjárlögum undanfarinna ára þar sem krafan um aðhald og niðurskurð hefur verið það mikil að stofnanirnar hafa ekki getað verið í eðlilegri þróun, eðlilegri uppbyggingu og haft eðlilega mönnun.

Hæstv. forseti. Ég vil minna á margflutta tillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að fjárlögin séu endurskoðuð að vori og nær sé að fara yfir þau þá en að afgreiða þau með þeim hætti sem gert er.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um öldrunarstofnanirnar. Þær fá nokkur framlög núna. Það er sem sé viðurkennt að vandi þeirra hefur verið mikill, hann er mikill og hann verður það áfram þrátt fyrir þá viðbót sem kemur til stofnananna. Ég vil ítreka hvað varðar reiknilíkanið að mjög nauðsynlegt er að taka út reksturinn strax um mitt ár til að sjá hvort það hreinlega dugi.

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að víkja að öðru máli, láta þessa yfirferð um heilbrigðisþjónustuna og um áherslur stjórnarandstöðunnar á velferðarmál duga, en ég trúi því að það skilji allir sem fylgjast með afgreiðslu fjárlaga á þessu ári að ekki mun standa upp á stjórnarandstöðuna að koma með breytingartillögur við margar greinar og bæta um betur ef eftir samstarfi verður óskað, en á meðan það er ekki látum við þessa einu duga.

Ég vil aðeins nefna, hæstv. forseti, Skógrækt ríkisins. Samkvæmt nefndarálitinu frá meiri hluta fjárlaganefndar og breytingartillögum er gerð tillaga um 24 millj. kr. hækkun á framlagi til Skógræktar ríkisins en þar af eru 14 millj. kr. vegna Hekluskóga. Það er við þetta sem ég vil gera athugasemd, hæstv. forseti.

Á fjárlögum 2006 þegar Hekluskógaverkefnið fór í gang voru 6 milljónir settar í verkefnið. Þá var þetta verkefni alveg sérmerkt í fjárlögum sem Hekluskógar. Til verkefnisins fékk Landgræðslan 7 milljónir og Skógrækt ríkisins 7 milljónir en báðum þeim stofnunum var ætlað að standa með bæði sveitarfélögunum og félagasamtökum að Hekluskógum. Hekluskógar eru enn samstarfsverkefni þessara stofnana, sveitarfélaganna og félagasamtaka. Núna samkvæmt þessum lið er Skógrækt ríkisins, einni stofnun, ætlað að leggja til verksins 14 millj. kr. Þar af leiðandi eru þetta eingöngu 10 milljónir sem eiga að fara til rekstrar Skógræktar ríkisins.

Skógræktin var ekki að óska eftir hærri framlögum en hún nauðsynlega þurfti til að halda við óbreyttum rekstri sem er þó alveg hreint í lágmarki, það voru 18 millj. kr. Fjárþörf Skógræktar ríkisins á enn og aftur að mæta með því að krefjast þess eða fara fram á það við Skógrækt ríkisins að hún selji eignir. Hún hefur verið að selja eignir sínar til þess að geta verið í rekstri. Þetta er ótrúleg meðferð á einni stofnun. Nú er henni ætlað að selja úr eign sinni í Skorradal og eins á Tumastöðum. Ef af þessu verður og ekki verður komið til móts við stofnunina að öðru leyti, mun koma til uppsagna starfsmanna. Stofnunin getur ekki komið til móts við slíkar kröfur öðruvísi en að draga úr rekstri.

Eftir allar þær ræður sem hér hafa verið fluttar um mikilvægi skógræktar, um mikilvægi uppgræðslu, um mikilvægi þess að það sé nú allt í lagi að drekkja löndum undir lón því að við séum svo dugleg að rækta skóg og nytja lönd, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að það gerði ekkert til með þær mosaþúfur sem fóru undir Hálslón því við værum svo dugleg að rækta skóg, þá á Skógrækt ríkisins að stuðla að þekkingargrunni fyrir alla skógrækt í landinu. Og ef við ætlum að sverfa svo að henni að hún geti ekki staðið undir því hlutverki held ég að við ættum að falla frá allri þessari skrúðmælgi um skógrækt, fyrir utan það að Hekluskógar eru og verða sérverkefni og á ekki að vera sett inn á fjárlög Skógræktar ríkisins. Þetta er ósanngjarnt. Þetta er ekki rétt og gerir ekkert annað en að draga fjármagn frá Skógrækt ríkisins. Að ein stofnun skuli vera krafin um slíkt eins og selja eignir sínar er alveg hreint ótrúlegt.

Hæstv. forseti. Tíminn er fljótur að hlaupa frá manni þegar farið er yfir alla þá þætti sem eru svo áhugaverðir og gaman væri að styðja. Málið er, hæstv. forseti, að oft þarf ekki mikla fjármuni til að koma góðum verkum af stað. Hingað barst okkur blað, kálfur inni í einu dagblaðinu, Kraftur og mannlíf í Þingeyjarsýslum, sem segir frá mörgum verkefnum og áhugaverðri sýn sem margir hafa í þeim fjórðungi og á því svæði. Sum þeirra þurfa einhvern stuðning til að komast í gang, önnur hugsanlega einhvern stuðning til að rekstrargrunnur sé fyrir viðkomandi starfsemi. Þetta getur líka verið starfsemi sem verður til þess að annað blómstrar í kring og getur stuðlað sterkari og betri byggð. Hér væri hægt að fara yfir langan lista eins og að koma upp háskólasetri á Húsavík, stuðla enn betur að Háskólanum á Akureyri o.s.frv. Stuðla að verkefnum, eins og ég sagði áðan, sem geta ein og sér styrkt önnur verkefni, eins og nýtt verkefni sem heitir Söguslóðir á Íslandi, og er til þess að styrkja og samtengja þá sem eru í hinni menningarlegu ferðaþjónustu og gæti með þeim samtökum styrkt svo margt annað.

Ég fer ekki inn á samgöngumálin, það væri heill fundur út af fyrir sig að fara yfir samgöngumál. Mörg verkefni og áhugaverð eru styrkt í safnliðum og á fjárlögum og það er gott, en það er líka sárt að horfa til þess hvað mörg áhugaverð verkefni verður að taka út af borði fjárlaganefndar þar sem fjárlagaramminn er það knappur. Litlu verkefnin eru ekki síður mikilvæg, og þá sérstaklega úti um hinar dreifðu byggðir, þar sem þau skapa atvinnu og eru ekki síður andleg styrking þannig að fólk horfi bjartsýnna til framtíðar.

Ég horfi bjartsýn til framtíðar, hæstv. forseti. Ég trúi því að þetta séu fjárlög til vorsins eins og margir hafa tekið fram, og að hér taki ný ríkisstjórn við að vori sem endurskoði síðan þá stöðu sem fjárlögin og afgreiðsla þeirra hefur komið okkur í.