Fjárlög 2007

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006, kl. 20:18:18 (2202)


133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:18]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi fyrra atriðið og skuldir þjóðarinnar. Við þurfum að taka með í reikninginn þegar við tölum um þessar skuldir að þær birtast hér og hvar. Þegar Kaupþing banki ákveður að kaupa Singer & Friedlander í Bretlandi og tekur til þess aðeins nokkurra milljarða lán þá aukast skuldir Íslendinga, en eignirnar aukast reyndar líka stórlega. Kaupþing banki er orðinn það stór banki að hann getur, með einstökum ákvörðunum af þessu tagi, haft stórkostleg áhrif til breytinga í þessu efni. Þetta verður að skoðast af einhverri yfirvegun. Við verðum að taka eignirnar með í þennan reikning.

Ég hygg að dæmin sanni, um síðara atriðið, um áminningarskylduna, að þetta kerfi er of þungt í vöfum. Við hljótum að þurfa að hlusta á forstöðumenn stofnana sem koma til okkar, ég tala nú ekki um þegar forstöðumaður þeirrar stofnunar á Íslandi sem er með flesta starfsmenn í vinnu kemur með ákall til fjárlaganefndar um breytingar í þessu efni. (Forseti hringir.) (ÖJ: Talsmenn forstjóranna, veikra forstjóra.)