Tekjuskattur

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 12:52:48 (2278)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:52]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur ekki neitað því að hann gerði stjórnarandstöðunni og Alþýðusambandinu mjög erfitt fyrirj. Við gátum ekki unnið okkar verk og lagt mat á þær forsendur og útreikninga sem þurfti að gera til þess að fólk fengi vaxtabætur í samræmi við það markmið sem ASÍ setti sér, að fólk yrði nokkurn veginn jafnsett ef ekki hefði komið til þessi mikla hækkun á fasteignamati.

Það hafði t.d. ekki verið úr vegi að skoða stöðuna ef fasteignamatið hefði ekki hækkað svona mikið og eignirnar t.d. bara hækkað jafnmikið og skuldirnar, rúm 4% í samræmi við verðlag, og álagningin hefði verið stillt inn á það núna í ágúst. Þá hefðum við séð hvað fólk hefði getað fengið raunverulega út úr þessu ef fasteignamatið hefði ekki blásið svona upp. Um þetta hefði þurft að taka sérstaka umræðu. Þetta er mjög óeðlilegt viðmið, þetta fasteignamat til útreiknings á vaxtabótum, og það þarf að skoða aðrar leiðir í því sambandi. Munum við lenda í þessu sama á næsta ári vegna þess að fasteignamat hækkar gífurlega, eins og við erum að gera núna? Þetta viðmið við fasteignamat er því alveg óhæfa.

Það liggur fyrir að við getum ekki lagt fram breytingartillögu af því að við fengum ekki þær upplýsingar sem við báðum um — sem voru sömu gögn og ASÍ bað um — til þess að geta reiknað út hvaða breytingartillögur við hefðum átt að setja hérna fram til að fólk yrði jafnsett eða nokkurn veginn jafnsett og ef ekki hefði komið til þessi mikla hækkun á fasteignamati.