Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 15:22:40 (2316)


133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:22]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir greinargóð svör. Það er fróðleg vinna fram undan í efnahags- og viðskiptanefndinni og við höfum sem betur fer ágætan tíma núna á nefndardögum eftir helgi.

Mig langar að inna viðskiptaráðherrann eftir dálitlu varðandi kostnaðinn. Hæstv. viðskiptaráðherra segir að kostnaðurinn sé ekki alveg klár, þ.e. hvað varðar aukinn kostnað hjá Fjármálaeftirlitinu. Að sama skapi er væntanlega erfitt að meta þann kostnað sem verður fyrir hendi hjá sjálfum fjármálafyrirtækjunum og kannski ómögulegt fyrir viðkomandi ráðherra að meta það. En mig langaði að inna eftir því hvort það væri alveg öruggt að þeim kostnaði sem þó hlýst af þessu frumvarpi hjá Fjármálaeftirlitinu verði að öllu leyti mætt með hækkuðu eftirlitsgjaldi þannig að við munum ekki sjá fjármagn tekið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í formi skatta sem fara til Fjármálaeftirlitsins. Er það alveg öruggt og réttur skilningur að aukinn kostnaður Fjármálaeftirlits verði ekki fjármagnaður af skattfé heldur af þessum þjónustugjöldum sem Fjármálaeftirlitið nú þegar innheimtir af fjármálafyrirtækjunum sjálfum?