Umferðarlög

Föstudaginn 24. nóvember 2006, kl. 17:12:24 (2348)


133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

umferðarlög.

381. mál
[17:12]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. s., Kolbrúnu Baldursdóttur, fyrir flutning þessa máls. Ég vil láta þess getið að ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi og styð heils hugar að það skref verði tekið að færa bílprófsaldurinn frá 17 upp í 18 ára aldur. Í þessu frumvarpi er þetta skref tekið ákaflega varfærnislega á tveimur árum þannig að þeir unglingar sem eru komnir með fiðring í magann og eftirvæntingu eftir að komast á götuna með fullgilt bílpróf geta andað léttar og rólegar því að ef þetta frumvarp verður samþykkt taka þessi 18 ára aldursmörk ekki gildi með það sama.

Ég tek undir það sem kemur fram í greinargerðinni hvað varðar þroska unglinga á þessum mótunarárum fram undir tvítugt. Það munar mjög mikið um hvert ár frá 15 ára upp að tvítugu. Mér finnst ákveðin samræming felast í þessu líka en fyrst og fremst horfi ég á þroskann og það að eins og umferðin er í dag er ábyrgðin orðin það mikil hjá ökumönnum að maður á að horfa fyrst og fremst á öryggið en ekki þægindi þess að 17 ára gamlir unglingar geti komist ferða sinna undir stýri.

Mér finnst, hæstv. forseti, fleira sem við getum horft til þegar við herðum reglur og tryggjum meira umferðaröryggi en er í dag. Ég tel rétt að huga einnig að vélarstærð, vélarafli og þyngd ökutækja. Það hefur verið tekið upp sums staðar, ég get ekki nefnt hvaða lönd það eru en það þekkist að þeir sem eru nýbúnir að fá ökuskírteini, þeir sem eru að byrja að aka bifreið, búa við takmörk á það hversu kröftugri og öflugri bifreið megi aka. Það er hluti af þessum þætti að því óþroskaðri sem einstaklingarnir eru, þeim mun hættara er þeim í umferðinni. Því miður má yfirfæra þetta á piltana frekar en stúlkurnar sem eru í eðli sínu flestar varkárari. Ég tek líka undir það að auðvitað eru langflestir ungir menn varkárir ökumenn en þar eru þó innan um þessir sem bíða eftir að komast á stóru kröftugu bílana og það eru einmitt þeir sem þyrftu á því að halda að hafa ekki leyfi til að vera á þessum stóru tryllitækjum eins og þeir sækjast eftir í dag.

Ég þakka frumkvæðið í þessu máli og vona að það fái brautargengi í vetur og góðar undirtektir í hv. samgöngunefnd.