Fjáraukalög 2006

Fimmtudaginn 30. nóvember 2006, kl. 15:16:36 (2404)


133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:16]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hjá hv. þingmanni var nú nokkuð fyrirséð. En það olli mér hugarangri var að hann sagði að menn hefðu glaðst mjög við yfirlýsinguna sem gefin var í tengslum við samkomulag eldri borgara og ríkisins. Hv. þingmaður veit það jafn vel og sú sem hér stendur, enda situr hann í hv. fjárlaganefnd og sat á nefndarfundi þegar Landssamband eldri borgara mætti á fund nefndarinnar og lýsti því hvernig þeim var stillt upp við vegg í þessu máli, að ekkert yrði af samkomulaginu um uppbyggingu á hjúkrunarrými og annarri þjónustu ef þeir héldu kröfum sínum um bætt kjör til streitu. Þetta veit hv. þingmaður og þess vegna er það rangt þegar hann heldur því fram að hér hafi verið almenn mikil gleði með þennan samning. Hann veit hug Landssambands eldri borgara.

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að við höfum lagt til 13 milljarða útgjöld. Þetta gerir hann til að reyna að slá ryki í augu manna. Við lögðum til nettó 5,5 milljarða. (Gripið fram í.) Þetta var til viðbótar því samkomulagi sem var verið að uppfylla, því smánarlega samkomulagi, eins og ég vil kalla það. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er bara staðreynd að ef grunnlífeyrir og tekjutrygging hefðu haldið raungildi sínu frá árinu 1995 væru þau 17 þús. kr. hærri nú en þau eru. Þetta veit hv. þingmaður.

Sömuleiðis má nefna skattleysismörkin sem leggjast mjög þungt á eldri borgara, en þau væru 137 þús. kr. hefðu þau haldið í við launavísitölu og sennilega um 120 þús. ef þau hefðu haldið í við vísitölu neysluverðs. Þetta veit hv. þingmaður og þess vegna hryggir það mig að hann skuli standa hér og fara með svo (Forseti hringir.) með það mál sem hann hér flutti. (Gripið fram í: Hann var bara að masa.)