Stuðningur við innrásina í Írak

Mánudaginn 04. desember 2006, kl. 15:17:05 (2467)


133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það stendur ekki á okkur að leggja til að Ísland verji myndarlegum fjármunum til uppbyggingar og hjálpar á svæðum þar sem þörf er fyrir slíkt þegar aðstæður til þess hafa skapast. En það fer enn þá lítið fyrir uppbyggingunni í Írak og Afganistan. Þannig hafa málin þróast í þessum tveimur löndum sem Bandaríkjaher og stuðningsmenn hans hafa ráðist inn í að undanförnu.

Varðandi hins vegar atbeina Íslands reyndi víst á hann. Það vita allir að umferð um Keflavíkurflugvöll jókst verulega. Það vita allir að þar lentu flutningavélar með miður geðslegan farm sem settur var sérstakur öryggisvörður um. Það hefur verið umferð sem tengist aðgerðunum í Írak allt til þessa, það ég best veit. Það er t.d. almannarómur að flutningaflugvélar með klasasprengjur og jafnvel önnur miður geðsleg vopn hafi lent á Keflavíkurflugvelli. Þó svo væri ekki, og jafnvel þó að ekki reyndi á þetta með beinum hætti, hefur stuðningurinn grundvallargildi. Þetta er spurning um prinsippafstöðu Íslands. Viljum við áfram ljá atbeina okkar við þetta ólögmæta árásarstríð sem var brot á alþjóðalögum og hefur haft allar (Forseti hringir.) þessar hörmungar í för með sér?