Fjáraukalög 2006

Mánudaginn 04. desember 2006, kl. 15:53:56 (2487)


133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að ekki sé hægt að skilja við fjáraukalög ársins 2006 öðruvísi en að fara aðeins yfir örfá atriði í því hvernig gengið hefur til. Fyrir ári var spáð hér að viðskiptahallinn yrði 11–12% á þessu ári. Hann reynist líklega núna um 20% af vergri þjóðarframleiðslu. Þá var gert ráð fyrir því að hann næmi einungis 120–130 milljörðum kr. en hann fer sennilega yfir 200, jafnvel í 220 milljarða kr. Vextir eru með því hæsta sem gerist, a.m.k. í Evrópu, og verðbólgan er tvöfalt meiri en spáð var fyrir ári þannig að það er alveg ljóst að þessi mikli efnahagslegi óstöðugleiki sem þessi fjárlög spegla er þjóðinni hættulegur.