Rannsóknir á sandsíli

Miðvikudaginn 06. desember 2006, kl. 15:28:03 (2647)


133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Enn leiðist umræðan að ýsustofninum. Ég skal ekki verða þrándur í götu þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra fái þær athugasemdir beint í æð og svari þeim. Ég þakka honum að öðru leyti fyrir snjallt svar sem þarf að íhuga í betra næði þegar það birtist í þingtíðindum á pappír eða á tölvuskjám.

Ég held að niðurstaða okkar hljóti að vera sú að við eigum að auka rannsóknir á sandsílinu og annarri þeirri fæðu sem sjófugl og nytjafiskur étur við ströndina. Það vakti athygli að í svari ráðherrans kom fram að rannsóknir á sjófugli gætu orðið gagnlegar fyrir fleiri en áhugamenn um sjófugl og jafnvel af öðrum ástæðum en þeim að kanna lífríkið við ströndina og í björgunum. Vistkerfið sem sjófuglinn lifir í er að sínu leyti einfaldara en við mætum í hafinu.

Eftir því sem maður hlustar á fleiri sjávarlíffræðinga og fiskifræðinga þeim mun sannfærðari verður maður um að við vitum enn þá mjög lítið um það sem gerist í hafinu, samhengið milli allra þeirra stofna sem þar eru. Það á þó ekki að leiða okkur til glannalegra ályktana í eigin hag, svo sem um að óhætt sé að veiða stofna vegna þess að þeir valdi skaða, hvort sem þar er um ýsuna eða hvalinn að ræða.

Ég hvet til aukinna rannsókna á þessu sviði og spyr enn um þátt Hafrannsóknastofnunar (Forseti hringir.) í sjófuglarannsóknum sem nýhafnar eru.