Gatnagerðargjald

Föstudaginn 08. desember 2006, kl. 10:50:02 (2776)


133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

gatnagerðargjald.

219. mál
[10:50]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit hv. félagsmálanefndar um frumvarp til laga um gatnagerðargjald sem ég skrifa undir með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur að því að hér er um að ræða skatt og samkvæmt stjórnarskránni ber að ákvarða með lögum hvernig skattar skuli á lagðir. Hins vegar eru undanþáguheimildir og lækkunarheimildir sveitarfélaga það rúmar og liprar að ég hef töluverðar efasemdir um að allir borgarar séu jafnsettir og að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sé uppfyllt.

Frú forseti. Það er ljóst að hér er verið að hverfa frá því að hafa gatnagerðargjaldið sem þjónustugjald, þ.e. gjald fyrir að gera götu við viðkomandi hús, yfir í það að vera hreinn skattur sem ætti að vera óháður kostnaði við gerð gatna við viðkomandi hús og þarf ekki að vera neitt háður því. Þegar skattur er lagður á kemur tvennt til, hann skal vera samkvæmt lögum og svo þarf að gæta að því að fjárveitingavald sveitarfélaga er mjög frjálst, eins og ríkisins, og þess vegna geri ég líka athugasemd við það að gatnagerðargjaldið skuli vera ætlað eingöngu til gatnagerðar. Þar held ég að sveitarfélögum séu settar of þröngar skorður. Það gæti orðið merkilegt viðfangsefni ef upp kæmi sú staða að sveitarfélag ætti í verulegum fjárhagsvandræðum út af þjónustu sinni á einhverjum sviðum en sæti uppi með mikla sjóði í gatnagerðargjaldi sem það mætti ekki eyða af því að peningarnir rynnu ekki í gatnagerð.

Það er ljóst að ef Alþingi setur lög sem ákvarða mjög háa skatta á ákveðinn skattstofn og veitir svo mjög rúmar og liprar heimildir til lækkunar er í rauninni búið að framselja löggjafarvaldið eða fara fram hjá því ákvæði stjórnarskrárinnar að skattar skuli ákveðnir með lögum. Ég geri sem sagt athugasemd við það að þetta gjald er hugsanlega of hátt og heimildirnar of léttar og liprar og gætu jafnvel leitt til mismununar á milli borgaranna. Með því að hækka gjaldið eitt árið og lækka það næsta ár og svo aftur hækka það gætu ákveðnir aðilar fengið of mikinn skatt og aðrir of lágan. Svo geri ég líka athugasemd við að ráðstöfunin sé lögbundin.