133. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2006.

Póst- og fjarskiptastofnun.

397. mál
[00:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber yfirleitt mikla virðingu fyrir hv. formanni samgöngunefndar en hann er að reyna að bera í bætifláka fyrir þá hroðvirknislegu vinnu sem við stöndum frammi fyrir í nefndinni. Hann reynir að gera það eftir bestu getu. Ég virði það við hv. þingmann.

Það breytir hins vegar ekki því að vinnubrögðin við mörg af frumvörpunum frá samgönguráðuneytinu eru alveg óþolandi, þrátt fyrir allan velvilja hv. formanns nefndarinnar til að gera það besta úr þeim. Ég held að nær væri að takast á við það.

Auðvitað var þetta vitleysa, að einkavæða og selja Símann. Þetta skaffar fjölda fólks vinnu við að hafa eftirlit hver með öðrum í hinni einkavæddu einokunarfákeppni á markaðnum. (Gripið fram í.) Ég minnist þess að skoðanakannanir sýndu það hver á fætur annarri að 70–80% af þjóðinni voru andvíg þessari vitleysu. Þetta kemur til með að halda fjölda manns, m.a. þingmönnum, uppteknum næstu árin. Menn þurfa að endurskoða lög um eftirlit og hafa eftirlit með hinni einkavæddu fákeppni í fjarskiptum. (Gripið fram í.) Formaður samgöngunefndar á samúð mína alla, að þurfa að taka á móti þessu rugli.