Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Laugardaginn 09. desember 2006, kl. 12:22:55 (3039)


133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[12:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum. Nefndarálitið er að finna á þskj. 568.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Elísabetu Guðbjörnsdóttur, Dórótheu Jóhannsdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra, Gunnlaug Júlíusson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði. Nefndinni hafa auk þess borist umsagnir um frumvarpið.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og jafnframt ein breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Lagt er til að frá og með 1. janúar 2007 lækki tekjuskattur einstaklinga um 1% í stað þess að lækka um 2% eins og gert var ráð fyrir samkvæmt lögum nr. 129/2004, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fleiri lögum. Lögð er til breyting á aldursmarki barnabóta þannig að það hækki úr 16 í 18 ár. Þá er í frumvarpinu lagt til að neðra aldursmark ívilnunar vegna útgjalda til menntunar hækki í 18 ár. Einnig er lagt til að fjárhæðir persónuafsláttar, sjómannaafsláttar og vaxtabóta hækki frá 1. janúar 2007 og sömuleiðis að fjárhæðir persónuafsláttar taki árlega hækkunum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs. Lagt er til að greiðslur til erlendra aðila vegna leigu loftfara og skipa verði undanþegnar skattskyldu. Þá er lagt til að þær greiðslur verði undanþegnar skattskyldu sem foreldrar eða forráðamenn fá frá sveitarfélagi vegna umönnunar barns frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskóla- eða grunnskólanám hefst. Jafnframt er lagt til að arður sem úthlutað er milli aðila sem eru samskattaðir skv. 55. gr. tekjuskattslaga verði undanþeginn staðgreiðslu í þann tíma sem samsköttun varir. Að lokum má nefna að lögð er til breyting á 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga, um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri, þannig að ákvæðið taki einnig til ríkja sem ekki eru aðilar að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) en eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Herra forseti. Eins og að framan greinir er með frumvarpinu lagt til að tekjuskattur einstaklinga lækki um áramótin um 1% í stað 2% lækkunar sem þegar hafði verið lögfest. Einnig er lagt til að um áramót hækki persónuafsláttur einstaklinga úr 29.029 kr. á mánuði í 32.150 kr. á mánuði. Við þetta hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr. Er jafnframt lagt til að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, samanber framangreint. Þessar breytingar, auk þeirrar breytingar að barnabætur verði greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára, eiga rætur sínar að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 22. júní síðastliðinn til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og SA um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Nefndin ræddi um ákvæði 2. gr. frumvarpsins, þ.e. um undanþágu frá skattskyldu vegna greiðslna sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélögum til að annast heima börn á tilteknum aldri. Um er að ræða hlunnindi sem flestir forráðamenn barna njóta en hafa ekki verið skattlögð sem slík vegna félagslegs eiginleika þeirra. Þegar þessi hlunnindi eru greidd út í peningum er ekki eðlilegt að þau séu skattlögð. Þau sjónarmið voru rædd hvort það sama ætti ekki að gilda um aðrar greiðslur eða ávísanir frá hinu opinbera sem ætlað er að greiða almennt fyrir opinbera þjónustu eins og tónlistarkennslu eða jafnvel grunnskólakennslu, samanber einkaskóla. Þá var rætt um hver hugsunin almennt væri á bak við það að sumar greiðslur frá opinberum aðilum eru skattfrjálsar en aðrar ekki. Almennt er stefnan sú að hafa undanþágur skattalaga sem fæstar og skulu þær jafnframt skýrðar þröngt með tilliti til þess að jafnræði sé með borgurunum.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða breytingar á fjárhæðum 8. gr. frumvarpsins til samræmis við nýsamþykkt lög um breytingu á lágmarki eignaviðmiðunar til skerðingar á vaxtabótum, sem er að finna á þskj. 465 á 133. löggjafarþingi. Hins vegar er lagt til að 4. gr. frumvarpsins falli brott þannig að áfram verði heimilt að lækka tekjuskattstofn manns sem hefur veruleg útgjöld af menntun barna sinna 16 ára og eldri en ekki 18 ára og eldri eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, með fyrirvara, Ásta Möller og Sæunn Stefánsdóttir.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka hér ræðu minni sem framsögumaður en ræða um fyrirvara sem ég geri við þetta frumvarp. Í ofangreindu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins sem gert var 22. júní um framhald á kjarasamningi var ákveðið að tekjuskattur skyldi ekki lækka um 2% um næstu áramót heldur um 1% og að persónuafsláttur skyldi hækka sem þeim fjármunum nemur. Þetta samningsatriði aðila vinnumarkaðarins er mjög undarlegt í ljósi þess að það er löggjafinn sem ákveður slíkar breytingar á lögum og löggjafinn er kosinn af almennum kjósendum í landinu til þess að standa að setningu löggjafar en ekki þeir aðilar sem stóðu að þessu samkomulagi þann 22. júní. Þeir eru ekki kosnir almennum kosningum af borgurum þessa lands. Hins (Gripið fram í.) vegar virðist vald þeirra vera það mikið að þetta frumvarp er hér komið inn á Alþingi sem stjórnarfrumvarp og virðist sem þingheimur eigi að hlíta því.

Þetta gengur þvert á þá lífsstefnu mína að láta skattkerfið ekki stýra fólki. Svona hár persónuafsláttur gerir það einmitt að verkum að stór hluti þjóðarinnar greiðir ekki skatta og sá hluti þjóðarinnar hefur áhuga á því að auka útgjöld ríkissjóðs vegna þess að hann finnur ekki fyrir sköttunum sem koma á móti. Það má líka líta á háan persónuafslátt sem niðurgreiðslu á lágum launum, niðurgreiðslu gagnvart öðrum löndum sem þýðir að lágar tekjur eru skattfrjálsar en af hærri tekjum borga menn mun hærri skatt, eins og kemur fram í þessu frumvarpi. Það á að skattleggja hærri tekjur meira til þess að lágar tekjur séu skattfrjálsar. Þetta er sem sagt niðurgreiðsla á lágum launum og lokkar þar af leiðandi láglaunastörf til landsins sem ég tel ekki endilega vera æskilegt. Þetta eykur líka hættu á fátæktargildrum sem kallaðar eru svo, þ.e. það verður erfiðara fyrir fólk með lágar tekjur að bæta stöðu sína vegna þess að það þarf að yfirvinna skerðingar vegna hárra skatta, alls konar tekjutenginga á bótum o.s.frv. sem gerir það að verkum að mjög margir hafa fest í fátækt, fátæktargildrum, lágum launum og eru á bótum. Þetta held ég að sé mjög neikvæð þróun í þjóðfélaginu.

Sú skattalækkun sem ákveðin hafði verið, 2% um næstu áramót, hefði þýtt fyrir meðallaun ASÍ sem eru um 300 þús. kr. á mánuði, 6 þús. kr. lækkun á sköttum hjá meðaljóni í ASÍ, einmitt hjá þeim aðilum sem hér voru að semja. Nú fær hann ekki nema 3 þús. kr. lækkun á sköttum. Hann fær reyndar um 3 þús. kr. hækkun á persónuafslætti þannig að hann fær um 6 þús. kr. meira til ráðstöfunar. En persónuafslátturinn hefði eflaust hækkað eitthvað vegna verðbólgu þannig að meðaljóninn hjá ASÍ er verr settur með þetta frumvarp heldur en ekki, fyrir utan það að hann er ekki hvattur eins til að afla meiri tekna með því að mennta sig, með því að sýna meiri snilli, með því að skipta um starf og með því að taka á sig meiri ábyrgð. Þetta frumvarp gengur því í þá átt að auka meðalmennsku í þjóðfélaginu og hvetja fólk síður til dugnaðar.

Nú hafa verið uppi kenningar um að skattkerfið hafi áhrif á skattstofninn, svokölluð Laffer-kúrfa er þekkt. Við sjáum dæmi þess, sérstaklega varðandi hagnað fyrirtækja en hagnaður fyrirtækja er mjög hvikur skattstofn. Einu sinni voru skattar á hagnað fyrirtækja 50% og tekjur ríkissjóðs óverulegar. Síðan var þessi skattprósenta lækkuð í þrepum alveg niður í 18% og við hverja einustu lækkun stórjukust tekjur ríkissjóðs. Og nú eru þær margfaldar, herra forseti, miðað við sem var þegar skattprósentan var 50%, sem sagt 18% skattur sem ég mundi telja að væri skattalækkun frá 50% gefur meiri tekjur en 50% skattur, þ.e. skattalækkun þýðir um leið skattahækkun, herra forseti, vegna þess að hærri tekjur ríkissjóðs eru jú meiri skattar á fyrirtækin. Það er þessi þversögn sem menn eru endalaust að rífast um. Þegar tekjuskattur fyrirtækja er lækkaður úr 50% í 18% stóraukast greiðslur fyrirtækjanna til ríkissjóðs. Er það skattalækkun eða skattahækkun?

Ég held að það sama hafi gerst hjá einstaklingum, með laun þeirra. Þegar skattar voru lækkaðir, þ.e. prósentan, herra forseti, var fólk hvatt til þess að afla meiri tekna. Það hlýddi kallinu. Það hefur meiri tekjur. Fólk hefur meiri tekjur núna en var í upphafi, þegar af stað var lagt. Laun á Íslandi hafa hækkað eins og hvergi annars staðar. Ég vil gjarnan að menn bendi mér á eitthvert land í heiminum þar sem laun hafa hækkað annað eins, herra forseti, umfram verðlag og hér á landi. Á sama tíma hafa allar bætur hækkað enn meira en launin þannig að sú stefna að lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga hefur stækkað kökuna, þjóðarkökuna, þannig að allir eru betur settir, líka þeir sem hafa lægstu launin. Já, ég gleymdi því, herra forseti, að lægstu launin hafa hækkað langmest sem er mjög ánægjulegt því að þau voru skammarlega lág 1995 þegar ég kom inn á þing. Þau voru 43 þús. kr. á mánuði en eru núna komin upp í 120–130 þús. sem er mjög ánægjulegt.

Sú stefna að taka upp flata og lækkandi skattprósentu og hvetja fólk til dáða hefur sýnt sig að hvetja fólk til dáða. Laun hafa hækkað. Rekstur fyrirtækja blómgast. Hagnaður fyrirtækja er þvílíkur að þau skila miklum tekjum í ríkissjóð og afkoma ríkissjóðs hefur batnað í kjölfarið á öllu saman. Það frumvarp sem hér er verið að ræða, þetta samkomulag aðila vinnumarkaðarins sem eru uppteknari af því að skipta kökunni en að stækka hana, er skref til baka. Það er minn fyrirvari, herra forseti, og ég mun vera á móti því að samþykkja skattahækkun, prósentuhækkun, á allan almenning í landinu því við erum með frumvarpi þessu að hækka skatta frá núgildandi lögum um 1% um næstu áramót.

Það eru önnur atriði þarna inni, til dæmis barnabætur og skattaívilnun vegna kostnaðar foreldra, sem eru mjög skrýtin fyrirbæri og lítið rædd og jafnvel ekki þekkt. Barnabæturnar eru háðar tekjum og eignum foreldra. Menn geta deilt um hversu nákvæmlega það er tengt o.s.frv. en þær eru ekki háðar tekjum barnsins. En þegar þær eru hækkaðar upp í 18 ár fara að koma upp dæmi um það, til dæmis hjá ungum sjómönnum, söngvurum eða slíkum, ungu afreksfólki, að það er með góðar tekjur og getur á sama tíma verið með barnabætur sem eru skertar vegna tekna foreldranna og eigna foreldranna. Hins vegar er skattaívilnun vegna kostnaðar við nám háð tekjum barnsins en ekki tekjum foreldranna og ekki eignum foreldranna. Foreldrarnir geta verið með miklar eignir, 40–50 millj. kr. nettóeign og háar tekjur og fá skattaívilnanir. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt, herra forseti, mjög óeðlilegt. Og svo var niðurstaðan sú í efnahags- og viðskiptanefnd eftir mikið japl og jaml og fuður að ákveðið var að veita hvort tveggja. Við veitum því einum hópi fólks sem getur verið tekjuhár og með miklar eignir ívilnun vegna menntunarkostnaðar barna en ef börnin hafa einhverjar tekjur þá er það skert. Hins vegar erum við að veita barnabætur til 18 ára aldurs sem eru skertar vegna eigna og tekna foreldranna en ekki vegna tekna barnsins. En svona er niðurstaðan. Ég er ekkert yfir mig hrifinn af þessu.

Herra forseti. Í frumvarpinu er komið inn á skemmtilegt vandamál sem kemur upp á yfirborðið. Samkvæmt lögum eiga hlunnindi að vera skattskyld. Það stendur í skattalögum. Ef ég bý ókeypis í herbergi eða íbúð á mér að reiknast leiga sem hlunnindi. Ef ég er með bíl frá atvinnurekanda eiga mér að reiknast tekjur vegna afnota af bílnum. Hins vegar ef ég fæ í hendur eitthvað úr heilbrigðisþjónustunni, ókeypis aðgang, til dæmis ef ég fæ þjónustu við líkamsrækt eða eitthvað slíkt sem er nauðsynleg læknisfræðilega þá eru það hlunnindi en þau eru ei skattskyld. Það dettur engum í hug að skatta það. Ef ég ligg á spítala eru það líka hlunnindi sem eru að sjálfsögðu skattfrjáls. Ef ég sendi börnin mín í grunnskóla eru það hlunnindi en þau eru skattfrjáls. Það er hins vegar hvergi talað um það, herra forseti. Þetta er bara svona þegjandi samkomulag. Og svo fara að koma upp dálítið skemmtilegir fletir á þessu. Þegar menn eru með börnin í leikskóla hjá sveitarfélagi eru það að sjálfsögðu skattfrjáls hlunnindi. Engum hefur dottið í hug að skatta það. En þau hlunnindi eru mjög mikil. Mér skilst að foreldrar borgi um 25–27% af kostnaðinum. Þau borga kannski 30 þús. kr. Það þýðir að sveitarfélagið borgar 70 þús. kr. á móti. Fólkið fær fyrir hvert barn 70 þús. kr. frá sveitarfélaginu. En það er ekki skattað sem hlunnindi. Samt nýta það ekki allir. Einstaka maður nýtir það ekki. En það er orðið mjög sjaldgæft.

Þegar svo sveitarfélaginu dettur í hug að borga mönnum þennan 70 þús. kall beint og svo getur fólk ráðið því hvort það borgar 100 þús. kr. fyrir að senda barnið í leikskóla þá kemur allt í einu upp spurningin um hvort það sé skattfrjálst. Mér finnst það ekki spurning. Ef það var skattfrjálst sem hlunnindi hlýtur það líka að vera skattfrjálst sem greiðsla frá sveitarfélaginu til þess að gera nákvæmlega sama hlutinn heima hjá sér. Ef menn skyldu taka upp kerfi sem þykir mjög gott víða, þ.e. að taka upp ávísanir fyrir grunnskóla þannig að foreldrar geti valið sér grunnskóla sem eykur samkeppni milli grunnskólans sem í dag er gjörsamlega óþekkt — það er engin samkeppni — þá yrði það væntanlega líka skattfrjálst, í mínum huga að minnsta kosti. En svo er ekki í dag. Þetta held ég að menn þurfi að ræða, þ.e. um skattskyldu eða skattfrelsi hlunninda í velferðarkerfinu, þ.e. bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu.

Herra forseti. Ég fellst á þetta frumvarp að mestu leyti. Ég hef fyrirvara við þessa hækkun á sköttum. Ég get alveg fallist á það að persónuafslátturinn hækki. Það er allt í lagi. Ég er á móti þeirri stefnu að vera upptekinn af því að skipta kökunni í staðinn fyrir að stækka hana. Ég held að árangur undanfarinna ára á Íslandi sanni að betra sé að hafa skattkerfið einfalt og með hæfilega lágum sköttum sem hvetur fólk til dáða og stækkar kökuna. Hins vegar hef ég miklar efasemdir um og set stórt spurningarmerki við það hvort aðilar úti í bæ, eins og aðilar vinnumarkaðarins, sem þykjast tala fyrir hönd 100 þús. manna en gera það að sjálfsögðu ekki því að það er ekkert lýðræði innan þeirra hreyfingar, ákveði lög fyrir Alþingi. Ég set stórt spurningarmerki við það og minni á vandræðaganginn varðandi vaxtabæturnar sem við vorum með hérna í haust þegar ASÍ gagnrýndi allt milli himins og jarðar en kom aldrei með neinar tillögur um eitt eða neitt. Það var nánast sama hvað gengið var langt og teygt sig í áttina, þ.e. hvað tekju- og eignamörkin voru hækkuð. Þeir nefndu aldrei neina tölu enda vildu þeir ekki nefna tölu sem segði (Gripið fram í.) að fólk sem væri með mjög miklar eignir fengi bætur frá ríkinu. Núna fær fólk með mjög miklar eignir bætur frá ríkinu.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Ég er búinn að nefna fyrirvara mína við þetta frumvarp.