Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 14. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 14  —  14. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Með hliðsjón af mikilvægi þess að:
     a.      verðbólga náist sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans,
     b.      stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur,
     c.      sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt,
     d.      tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði,
     e.      bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja,
     f.      draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun,
     g.      viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna,
     h.      jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt,
ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:
     1.      Gefa út formlega yfirlýsingu um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga.
     2.      Tryggja aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að leggja fyrir Alþingi tillögur um að falla frá eða fresta eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004 og koma eiga til framkvæmda um áramót. Í staðinn komi aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.
     3.      Efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja, og aldraðra, og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir þessar og þátttöku í að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Greinargerð.


    Hliðstæð tillaga var fyrst flutt undir lok marsmánaðar 2005, (þskj. 1014, 666. mál 131. löggjafarþings) en þá hafði verðbólga farið yfir viðmiðunarmörk Seðlabankans með tilheyrandi viðbrögðum af bankans hálfu. Bankinn tók þá saman greinargerð til almennrar birtingar sem jafnframt var send ríkisstjórn, sbr. ákvæði laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabanka frá 27. mars 2001. Bankinn varð síðan í annað sinn á síðasta ári að bregðast við verðbólgu sem var umfram þolmörk þar sem tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs mældist 4,8% í september. Greinargerð bankans um málið frá 19. september var stutt en vísað var til þess að 29. september gæfi bankinn út ársfjórðungsrit sitt um peningamál og þar mundi birtast ný verðbólgu- og þjóðhagsspá. Í ársfjórðungsriti Seðlabankans, haustið 2005 kvað við harðan tón. „Ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur aukist verulega,“ sagði Seðlabankinn og mat verðbólguhorfur til næstu tveggja ára enn óviðunandi þrátt fyrir verulega hækkun stýrivaxta bankans allt frá í maí á árinu 2004.
    Svona var ástatt þegar tillaga þessi var flutt í annað sinn (þskj. 5, 5. mál) við upphaf þings sl. haust. Síðan þá hefur jafnvægisleysið í hagkerfinu og þjóðarbúskapnum sagt til sín með enn harkalegri hætti en áður. Verðbólgan hefur rokið upp í kjölfar veikingar krónunnar og verið á bilinu 7–9% undanfarna mánuði. Viðskiptahallin hefur slegið öll met. Á fyrri helmingi ársins, þ.e. mánuðina janúar til júní, var viðskiptajöfnuðurinn óhagstæður um litla 123,6 milljarða kr. Vöruskiptajöfnuðurinn einn var óhagstæður um 19,1 milljarð kr. í júlí og hefur aldrei í sögunni verið annað eins. Erlendar skuldir hafa aukist verulega eins og við er að búast og var hrein staða við útlönd orðin neikvæð um 1.297 milljarða kr. í lok júní sem svara til um 107% af áætlaðri landsframleiðslu ársins.
    Í nýjasta hefti Peningamála spáir Seðlabankinn nú yfir 8% verðbólgu að meðaltali á árinu og enn meiri verðbólgu eða fast að 10% á árinu 2007. Fyrst undir lok ársins 2008 gerir Seðlabankinn sér vonir um að verðbólgan gæti farið að nálgast viðmiðunarmörkin. Þetta er veruleikinn sem við okkur blasir. Fórnarkostnaður stóriðjustefnunnar og hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar reynast landsmönnum ærið dýrkeypt.
    Geysihátt raungengi krónunnar hefur undanfarin ár skapað útflutnings- og samkeppnisgreinum mikla erfiðleika. Skilyrði til nýsköpunar í almennu atvinnulífi hafa verið afar erfið við þessar aðstæður og áhugi innlendra fjárfesta beinist að útlöndum. Þó gengi krónunnar hafi nú lækkað sitja eftir miklir erfiðleikar, tekjutap útflutnings- og samkeppnisgreina frá undangengnum missirum og fyrirtæki hafa horfið úr landi sökum ruðningsáhrifa stóriðjustefnunnar. Þrátt fyrir þetta heldur ríkisstjórnin óbreyttri siglingu hvað varðar áherslu á áframhaldandi og frekari uppbyggingu erlendrar stóriðju og hefur lögfest stórfelldar þensluhvetjandi skattalækkanir langt fram í tímann. Við þensluhvetjandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefur svo bæst ástandið í fjármálaheiminum sem einkennist af útlánaþenslu og miklu innstreymi erlends lánsfjár vegna mikils vaxtamunar, en hvort tveggja er að vextir hér eru háir og vextir í löndunum umhverfis okkur í lágmarki. Greiðari aðgangur að lánsfé hefur svo átt sinn þátt í miklum hækkunum á fasteignamarkaði með tilheyrandi áhrifum á þróun verðlags.
    Þótt mörg teikn séu nú á lofti um að hitinn sé hættur að hækka í hagkerfinu, fasteignamarkaðurinn að róast og heldur dragi úr útlánaaukningunni kann það að reynast skammgóður vermir. Eins og áður sagði eru gríðarlegar viðbótar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir í undirbúningi og greiningaraðilar þegar teknir að gera ráð fyrir efnahagsáhrifum þeirra í spám sínum. Þrjú ný risavaxin álversverkefni eru undirbúin af kappi, þ.e. stækkun álversins í Straumsvík, bygging álvers í Helguvík á Suðurnesjum og bygging álvers við Bakka norðan Húsavíkur. Samtals er þar á ferðinni fjárfesting upp á 430 milljarða kr. sem dælt verður inn í hagkerfið á 6–8 árum ef svo fer. Þessi framkvæmdapakki er 50% stærri en allar samanlagðar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir sem staðið hafa yfir að undanförnu og gera fram á næsta ár. Ekki verður annað ráðið af framgöngu stjórnvalda en allar þessar framkvæmdir geti hafist innan 3–4 ára, ef svo ber undir, með tilheyrandi gríðarlegum efnahagslegum ruðningsáhrifum á nýjan leik. Furðu sætir að forsvarsmenn annars atvinnulífs en stóriðju- og orkuiðnaðarins skuli ekki láta meira til sín heyra um þær framtíðarhorfur sem við þeim blasa gangi þetta eftir.
    Erlendar sérfræðistofnanir eiga sem eðlilegt er erfitt með að átta sig á því hvert stjórnvöld hér eru að fara með sinni blindu stóriðjustefnu, ekki síst í ljósi mikils jafnvægisleysis í hagkerfinu, óvissu um arsemi stóriðjufjárfestinganna og umhverfisfórnanna sem færðar eru. Þannig hafa sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar ítrekað lagt til að fram fari gagnsæ hagkvæmisathugun á breiðum grunni til að meta hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt eða ekki fyrir landið í heild að ráðist sé í frekari stóriðjufjárfestingar.
    Ónefndur er þó enn mikilvægasti þátturinn af öllum sem gerir það algerlega óumflýjanlegt að stöðva öll áform um frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmdir. Sá þáttur snýr að náttúru landsins og umhverfi. Ætli núlifandi kynslóð í landinu að reyna að bjarga því sem bjargað verður af mannorði sínu á spjöldum umhverfisverndarsögunnar er ekki seinna vænna að segja hingað og ekki lengra. Gerbreyta verður vinnubrögðum og leggja grunn að vitrænni ákvarðanatöku þar sem hagsmunir náttúruverndar og varúðarsjónarmið eru lögð til grundvallar. Ljúka verður gerð rammaáætlunar sem forgangsraðar virkjunarkostum með tilliti til verndargildis og gefa henni lögformlega stöðu. Taka ber frá og friðlýsa þau vatnsföll og vatnasvið og háhitasvæði sem ekki kemur til greina að raska og ganga frá friðlýsingu þeirra og móta á þeim grunni sjálfbæra orkustefnu í stað útsölustefnunnar til mengandi stóriðju sem fylgt er í dag. Þá fyrst verða komnar forsendur til þess að taka vitrænar ákvarðanir um beislun og nýtingu frekari orku.
    Tillaga þessi lýtur fyrst og fremst að nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og þar ber hæst stöðvun stóriðju- og virkjunarframkvæmda sem lið í slíkum aðgerðum. Fráhvarf frá stóriðjustefnunni, í þágu umhverfismála og til þess að afstýra enn frekari óafturkræfum náttúruspjöllum með tilheyrandi og harðnandi deilum þar um, er þó ekki síður brýnt.
    Síðastliðið haust fylgdu tillögu þessari ítarleg og mikil fylgiskjöl til rökstuðnings þeirri skoðun flutningsmanna að aðstæður væru alvarlegar í efnahagsmálum þjóðarinnar og brýn þörf á aðgerðum. Framvindan síðan þá hefur sýnt að þetta mat var rétt og enn eru aðstæður því miður mjög tvísýnar og stjórnvöld á villigötum. Ekki er þörf mikilla fylgigagna nú tillögunni til stuðnings. Nægjanlegt er að vitna til óumdeildra staðreynda um jafnvægisleysið í hagkerfinu. Þeim sem vilja lesa sér frekar til má benda á rit Seðlabankans um peningamál, skýrslur OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál, gögn frá greiningardeildum bankanna o.s.frv.
    Alþingi þarf að taka í taumana og mæla fyrir um markvissar og raunhæfar aðgerðir til að ná tökum á ástandinu og út á það gengur tillagan.



Fylgiskjal I.

Seðlabankinn:

Verri verðbólguhorfur kalla á mun meira aðhald.
(Peningamál 2:2006, inngangur.)


    Verðbólguhorfur hafa versnað enn frekar frá síðustu hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Þegar verðbólguspáin sem hér er birt var gerð var gengi krónunnar u.þ.b. 12% lægra en í spánni sem birtist í Peningamálum í lok mars um leið og bankinn hækkaði stýrivexti um
0,75 prósentur og u.þ.b. 6% lægra en í maí þegar bankinn hækkaði vexti enn um 0,75 prósentur. Gengislækkunin hefur þegar leitt til mun meiri verðbólgu og mun gera áfram á næstu mánuðum. Samkomulag Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í júní eykur einnig á verðbólguþrýstinginn. Launakostnaður á framleidda einingu hefur um langt skeið hækkað mun meira en til lengdar samrýmist verðbólgumarkmiðinu. Viðbótarlaunahækkun, sem nú hefur verið samið um, eykur á verðbólguþrýsting um sömu mundir og yfirstandandi ofþensluskeið nær hámarki. Lægstu laun hækka mikið. Við núverandi aðstæður á vinnumarkaði er hætt við að launahækkunin dreifist upp launastigann. Kaupmáttur er nú þegar meiri en framleiðslugeta þjóðarbúsins stendur undir. Hækkunin í júlí eykur kaupmátt um skamma hríð, en ástæða er til að óttast að rýrnun kaupmáttar fylgi í kjölfarið, sökum aukinnar verðbólgu umfram hækkun launa eða minnkandi atvinnu. Að óbreyttum stýrivöxtum er líklegra að hin mikla hækkun launa valdi aukinni verðbólgu, fyrst vegna kostnaðarþrýstings en síðar einnig vegna áhrifa á eftirspurn og gengi krónunnar.
    Mat Seðlabankans á verðbólguhorfum er nú sett fram með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Í svokallaðri grunnspá er tekið mið af væntingum markaðarins og spám greiningaraðila um framvindu stýrivaxta í stað þess að gera ráð fyrir að þeir haldist óbreyttir frá spádegi. Verðbólga eykst samkvæmt þessum forsendum í því sem næst 11% á síðasta fjórðungi ársins, helst nálægt því fram á mitt næsta ár, tekur þá að lækka en er enn langt yfir markmiði bankans í lok spátímabilsins. Samkvæmt grunnspánni verður verðbólgan u.þ.b. 5 prósentum meiri um miðbik spátímans og 2 prósentum meiri við lok hans en gert var ráð fyrir í marsspánni. Þetta eru ekki viðunandi horfur. Fráviksspá með töluvert meiri hækkun stýrivaxta sýnir hins vegar að með aðhaldssamari peningastefnu mætti ná verðbólgumarkmiðinu eftir u.þ.b. tvö ár, þótt til skamms tíma séu áhrifin á verðbólgu ekki mikil. Horft til lengri tíma leiðir aðhaldssamari peningastefna ekki til meiri samdráttar í þjóðarbúskapnum en aðlögunin verður fyrr á ferðinni, sem stuðlar að minni verðbólgu og kaupmáttarrýrnun en ef aðhaldið væri slakara.
    Þjóðhags- og verðbólguspár eru ekki nákvæm vísindi og niðurstöðum einstakra líkana ber ævinlega að taka með fyrirvara. Þær gefa hins vegar hugmynd um það sem framundan kann að vera. Tvennt gæti öðru fremur orðið til þess að stýrivextir þurfi ekki að fara jafn hátt og verðbólguspáin gefur til kynna. Í fyrsta lagi gæti miðlun peningastefnunnar um vaxtarófið gerst hraðar en til þessa. Í öðru lagi er hugsanlegt að hraðar dragi úr eftirspurn og framleiðsluspennu en nú er gert ráð fyrir, t.d. ef verðlag fasteigna lækkar meira en gert er ráð fyrir í spánni. Aukið aðhald í opinberum fjármálum getur einnig hjálpað til. Að svo stöddu er erfitt að meta áhrif þeirra aðgerða sem tilkynntar hafa verið en öll viðleitni til aukins aðhalds skiptir máli.
    Á móti kemur að gengisþróunin gæti orðið óhagstæðari en gert er ráð fyrir í spám bankans. Líklegt er að þrýstings gæti á gengi krónunnar í ljósi gríðarlegs viðskiptahalla og horfur eru á að hann verði meiri í ár en áður var spáð. Hins vegar eru horfur á að hallinn minnki hratt á næstu tveimur árum. Verði gengisþróunin óhagstæðari en felst í spánum gæti verðbólgan orðið enn meiri og hærri stýrivexti þurft en ella til þess að hemja hana. Seðlabankinn mun fylgjast náið með þessum og öðrum vísbendingum sem hafa munu áhrif á ákvörðun stýrivaxta á næstu misserum.
    Miðað við upplýsingar sem liggja fyrir er ljóst að núverandi aðhald peningastefnunnar dugir ekki til að verðbólgumarkmiðið náist innan viðunandi tímamarka. Reyndar má ætla að töluvert hafi slaknað á aðhaldinu undanfarna mánuði. Verðbólguvæntingar hafa aukist og vegið á móti 1,75 prósentna hækkun stýrivaxta það sem af er ári. Raunstýrivextir eru því svipaðir eða lægri en þeir voru í byrjun ársins, eftir því við hvaða mælikvarða er miðað. Sé miðað við liðna verðbólgu hafa raunstýrivextirnir ekki verið lægri frá því síðla árs 2004. Gengi krónunnar lækkaði mikið framan af ári og áhrif þess hafa þegar komið í ljós í minna aðhaldi að launaþróun. Þar eð verðbólguvæntingar hafa aukist hafa hærri stýrivextir ekki haft mikil áhrif á vexti verðtryggðra útlána til þessa, þótt framvindan undanfarnar vikur sé í rétta átt.
    Verðbólga langt yfir markmiði, mun lakari verðbólguhorfur en í síðustu spá Seðlabankans og vaxandi verðbólguvæntingar benda ótvírætt til að hækka þurfi stýrivexti umtalsvert enn, þótt mikil óvissa ríki um hve hátt þeir þurfi að fara til að kveða niður verðbólguna. Meðan ekki liggja fyrir öruggar vísbendingar um að verðbólgan hjaðni hraðar en nú eru horfur á mun Seðlabankinn því halda áfram að hækka vexti. Bankastjórn Seðlabankans hefur því ákveðið að hækka vexti nú um 0,75 prósentur. Bankastjórnin hefur jafnframt ákveðið að meta þörf fyrir frekara aðhald um miðjan ágúst og tilkynna ákvörðun um stýrivexti.



Fylgiskjal II.

Landsbankinn:

Stórfjárfestingar hefjast á ný.

(Vegvísir – markaðs- og greiningarit – 27. september 2006.)


    Fjárfestingar í nýjum orku- og iðjuverum hafa farið ört vaxandi á síðustu árum og verða um 10% af landsframleiðslu á þessu ári. Yfirstandandi fjárfestingum lýkur á árunum 2008–2009, en þá tekur að okkar mati við nýtt skeið slíkra fjárfestinga. Gera má ráð fyrir að þær nái hámarki í rúmum 5% af landsframleiðslu árið 2010 en þeim ljúki síðan á árunum 2013–2014. Þetta kemur fram í nýútkominni hagspá Greiningardeildar. Væntingar um frekari stóriðjuframkvæmdir eru meðal mikilvægra forsenda í hagspánni, en við höfum um nokkurt skeið tekið tillit til þeirra í spám um peningamarkaðsvexti, ávöxtunarkröfu skuldabréfa og við verðmat á hlutabréfum.

Graphic file mynd1~1.bmp with height 273 p and width 260 p Left aligned
Full alvara í undirbúningnum

    Að okkar mati má nánast ganga út frá því sem vísu að þær stóriðjuframkvæmdir sem nú eru að klárast séu ekki síðustu framkvæmdirnar á þessu sviði, en nokkur óvissa er þó um tímasetningar. Við gerum ráð fyrir að álframleiðslan hér á landi aukist um ríflega 500 þúsund tonn á spátímabilinu til ársins 2015, umfram þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar. Venjan við hagspárgerð hér á landi hefur verið að taka ekki tillit til stóriðjuframkvæmda fyrr en bindandi samningar liggja fyrir. Hefur það reynst skynsamlegt þar sem í ljós hefur komið að oft hefur liðið langur tími frá því umræður hófust og þar til af framkvæmdum varð, eða að ekkert varð af framkvæmdum. Við teljum að nú séu aðstæður aðrar, þar sem þrjú álfyrirtæki sem þegar hafa komið sér fyrir hér á landi eru langt komin í undirbúningi næstu verkefna. Ástæða er til að ætla að full alvara sé á bak við þann undirbúning sem nú fer fram.

Minni sveifluvaki
    Stóriðjufjárfestingarnar sem við gerum ráð fyrir að séu framundan eru umtalsverðar eins og fram kemur hér að ofan, en þó nokkuð minni í hlutfalli af landsframleiðslu en þær sem nú standa yfir. Á móti kemur að framleiðsluspenna í hagkerfinu verður væntanlega meiri við upphaf nýrra fjárfestinga en hún var í upphafi þeirra sem nú fer að ljúka. Lítill hagvöxtur var á árunum 2002 og 2003 og því hafði myndast nokkur slaki í kerfinu. Breytingar á fasteignalánakerfinu samhliða núverandi framkvæmdum ýkti hins vegar áhrifin af þeim og við gerum ráð fyrir svipaðri framleiðsluspennu og nú er þegar næstu stóriðjuframkvæmdir ganga yfir.

Graphic file framls~1.gif with height 238 p and width 260 p Left aligned

Fylgiskjal III.

Steingrímur J. Sigfússon:

Kemur sannleikurinn að utan?
(Morgunblaðið, 7. september 2006.)

    Undirritaður hefur margt sagt og skrifað um nauðsyn þess að hverfa af braut hinna blindu stóriðjustefnu. Er það fyrst og síðast sökum þess að þær umhverfisfórnir sem henni eru samfara eru einar og sér óverjandi. Einnig kemur sífellt betur og betur í ljós, að neikvæð efnahagsáhrif og skaðinn sem ofvaxnar stjóriðjufjárfestingar valda í hagkerfinu og gagnvart öðru atvinnulífi eru allt of stórfelldur. Þar við bætist sorglega lítil ef nokkur arðsemi af verkefnunum sem slíkum, sökum lágs orkuverðs.
    Það undarlega er að aldrei hafa fengist gerðir raunverulegir þjóðhagslegir arðsemisútreikningar á stóriðjustefnunni. Byggt er á fullyrðingum um að fjárfestingunum fylgi svo og svo mikill hagvöxtur umfram það sem yrði ef ekkert annað gerðist í staðinn. Þessi undarlega og fullkomlega úrelta aðferðarfræða við að meta áhrif stóriðjufjárfestinganna í hagkerfinu er með miklum endemum. Við blasir að hin neikvæðu ruðningsáhrif í efnahags- og atvinnulegu tilliti eru stórfelld. Margir verðmætustu vaxtarsprotar nýsköpunar og þróunar í atvinnulífinu hrekjast úr landi eða kelur til dauðs í hávaxta- og hágengisumhverfi stóriðjustefnunnar, samgönguframkvæmdum er frestað á landsbyggðinni o.s.frv. Allur almenningur er að upplifa á eigin skinni áhrifin í formi verðbólgu, hækkunar verðtryggðra lána og hárra vaxta. Mikil vitundarvakning er orðin hvað umhverfismálin snertir og þjóðin er unnvörpum að snúa baki við stóriðjunauðhyggju stjórnarflokkanna og annarra sem verið hafa sama sinnis.
    Hjá ríkisstjórninni er hins vegar allt óbreytt, og þrátt fyrir nýja menn í brúnni. Nú síðast yppti forsætisráðherra öxlum yfir umhverfisfórnunum eystra eftir ferðina frægu með Ómari Ragnarssyni og taldi þetta allt réttlætanlegt vegna hins fjárhagslega ávinnings.

Efasemdir OECD um stóriðjustefnuna
    Nú ber svo við að Efnahags- og framfarastofnunin OECD, hefur skilað úttekt sinni á efnahagsmálum landsins. Skýrslan hlýtur að vera fróðleg lesning fyrir bæði Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, nýkrýndan formann Framsóknarflokksins. Það er sami Jón og gaf út hina merku yfirlýsingu um að stjórnvöld rækju enga stóriðjustefnu og hefðu ekki gert að undanförnu. Hér fer á eftir lausleg þýðing undirritaðs á stuttu útgáfunni af Íslandsskýrslu OECD frá í sumar, kaflanum um það álitamál hvort halda eigi áfram stóriðjufjárfestingum (sjá OECD Policy Brief, júlí 2006, Economic Survey of Iceland). Skáletranir eru eins og í skýrslunni:
    „Stórfjárfestingar í áltengdri starfsemi fara vaxandi með hverri nýrri umferð (cycle to cycle) á Íslandi. Ríkisstjórnin hvetur til slíkra fjárfestinga til að koma í notkun miklum endurnýjanlegum orkuauðlindum landsins og eru nú þrjú slík verkefni á undirbúningsstigi og það áður en yfirstandandi framkvæmdum er lokið. Til samans eru þessi þrjú nýju verkefni allt að einum og hálfum sinnum stærri en þau sem nú standa yfir sem aftur voru mun tröllvaxnari en verkefni á 10. áratugnum. Frá sjónarhóli stöðugleikamarkmiða er tímasetning hvers og eins af slíkum verkefnum, afgerandi. Ný stór fjárfestingaverkefni ættu ekki að hefjast fyrr en tekist hefur að komast fyrir ójafnvægi í hagkerfinu og dregið hefur úr verðbólguþrýstingi. Það sem meira er ef öll þessi nýju verkefni fara af stað mun hlutur álframleiðslu í heildarvöruútflutningi landsins líklega fara yfir 50% sem þýðir afturhvarf til þess ástands þegar sjávarvörur voru yfirgnæfandi hluti útflutnings á Íslandi. Þó hlutdeild álframleiðslunnar í heildarverðmætasköpun nú verði að vísu mun minni. Þetta þýðir að taka þarf til skoðunar áhrifin af frekari stækkun áliðnaðarins á viðkvæmni (hviklyndi; óstöðugleika) hagkerfisins (volatility). Að síðustu vaknar spurningin um heildar-hagkvæmni slíkra verkefna. (Finally there is a question as to the overall net benefits of such projects). Eins og stungið var upp á í síðustu úttekt ætti að meta frekari aukningu orkufreks iðnaðar á breiðum grunni með gagnsærri hagkvæmnisgreiningu (cost benefit framework) þar sem teknir eru til greina þættir eins og hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda, umhverfisáhrifin og áhættan og áhrifin á hagkerfið og framvindu þess. Hingað til hefur slík víðtæk úttekt, sem mundi gera mögulegt að meta hvort verkefnin eru hagkvæm fyrir landið og í þau eigi að ráðast, ekki verið gerð …“
    Svo mörg voru þau orð. Sérfræðingar OECD eru sem sagt á engan hátt sannfærðir um arðsemi stóriðjuverkefnanna og benda réttilega á að engin tilraun hafi verið gerð til að meta heildarhagkvæmni slíkra verkefna fyrir þjóðarbúið (overall net benefits). Þaðan af síður eru þeir OECD-menn vissir um að gáfulegt sé að Ísland geri hlut álframleiðslunnar einnar enn stærri í efnahagslífinu en þegar er. Þá hafa þeir bara alls ekki heyrt af því að ríkisstjórnin sé horfin frá stóriðjustefnunni. Jóni Sigurðssyni hefur e.t.v. ekki unnist tími til að kynna hina afturvirku stefnubreytingu Framsóknar utan landsteinanna.
    Undirritaður er iðulega gagnrýnin á margt það sem frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, kemur. Manni fyrirgefst þó vonandi að benda á að í þessu tilviki eru sérfræðingar OECD að viðra efasemdir, nefna mögulega veikleika og áhættu sem kunni að vera samfara stóriðjustefnu stjórnvalda sem við gagnrýnendur hér heima höfum þráfaldlega fjallað um. Nú er spurningin hvort sannleikurinn komi frekar að utan.